Mikið tap íslenskra jökla frá árinu 1890
Frá um 1890 hafa íslenskir jöklar tapað að jafnaði um fjórum milljörðum tonna (Gt) á ári en heildartapið á sama tíma liggur á bilinu 410 til 670 Gt. Á sama tíma hafa jöklarnir tapað sem nemur nærri sextán prósentum af rúmmáli sínu. Um helmingur þess tapaðist frá haustinu 1994 til haustsins 2019 en þá var heildartapið á bilinu 220 til 260 Gt, eða nálægt 10 Gt á ári að meðaltali.
Þetta kemur fram í grein sem kom út í dag tímaritinu Frontiers in Earth Science um jöklabreytingar á Íslandi. Greinin lýsir breytingum á stærð jökla landsins frá því að þeir voru í hámarki skömmu fyrir aldamótin 1900 og byggist hún á mjög fjölbreyttum rannsóknum sem unnar hafa verið á undanförnum áratugum. Á meðal höfunda greinarinnar eru vísindamenn frá Háskóla Íslands, Veðurstofunni, Landmælingum og Landsvirkjun sem leggja saman krafta sína.
Í nýju greininni eru dregnar saman niðurstöður fjölda rannsókna sem ná til um 99 prósenta af jökulþekju landsins og er greinin samvinnuverkefni margra jöklafræðinga á nokkrum stofnunum sem stunda mælingar og rannsóknir á jöklum hérlendis. Höfundar frá Háskólanum eru þau Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor, Eyjólfur Magnússon, vísindamaður, Finnur Pálsson, verkefnastjóri í jöklarannóknum, Joaquín M. C. Belart nýdoktor og Helgi Björnsson, vísindamaður emeritus, en þau starfa við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands og/eða Jarðvísindastofnun Háskólans. Að auki er Louise Steffensen Schmidt meðal höfunda en hún er fyrrverandi doktorsnemi við Háskóla Íslands.
Gögnin sem rannsóknin byggist á
Þau gögn sem greinin byggist á koma yfir langan tíma úr mjög fjölbreyttum rannsóknum margra vísindamanna eins og áður sagði.
Yfirborðsafkoma Vatnajökuls, Hofsjökuls og Langjökuls hefur verið mæld með kerfisbundnum hætti að vori og hausti í um þrjátíu ár af Jarðvísindastofnun Háskólans, Veðurstofunni og Landsvirkjun. Heildarrúmmál meginjöklanna og annarra jökla, þ.m.t. Mýrdalsjökuls og Drangajökuls, hefur verið mælt með íssjármælingum á vegum Helga, Finns og Eyjólfs
Yfirborð íslenskra jökla hefur verið kortlagt á mismunandi tímum með loftmyndum, leysihæðarmælingum, hæðarsniðmælingum og gervihnattagögnum (Belart o.fl., 2020) og ná þau gögn víða aftur til ársins 1945.
Í tengslum við líkanreikninga á framtíðarþróun Vatnajökuls að gefnum sviðsmyndum fyrir þróun hita- og úrkomu (Schmidt o.fl., 2019) var afkomusaga hans framlengd aftur til 1980.
Jökuljaðrar hafa verið dregnir á kort fyrir mismunandi tíma á grundvelli margs konar gagna og sýna ystu jaðrar víðast hámarksútbreiðslu jöklanna á síðari öldum. Hámarki var víðast náð undir lok 19. aldar og er ártalið 1890 haft til viðmiðunar í rannsókninni.
Yfirlit um útbreiðslu jöklanna frá þeim tíma hefur verið tekið saman og verður birt í tímaritinu Jökli á þessu ári (Hrafnhildur Hannesdóttir o.fl., 2020).
Í nýlegri grein (Tómas Jóhannesson o.fl., 2020) var metin bráðnun íslenskra jökla vegna jarðhita, eldgosa, kelfingar íss í jökullón og orkutaps vegna hreyfingar íss og vatns undan halla.
Ofangreind vinna hefur skilað nákvæmum gögnum um afkomu og flatar- og rúmmálsbreytingar íslenskra jökla síðustu áratugina. Í nýju greininni eru þessi gögn notuð til þess að reikna samband rúmmáls og flatarmáls á þeim tímum sem upplýsingar ná til. Þetta samband er síðan notað til þess að meta rúmmál jöklanna aftur til u.þ.b. 1890 og þannig er búin til tímaröð um rúmmálsbreytingar jöklanna sem spannar um 130 ár.
Heildarrýrnun jöklanna
Fyrir fróðleiksfúsa lesendur má geta þess að heildarrýrnun jöklanna frá um 1890 svarar til þess að þeir hafi tapað nálega 16% af rúmmáli sínu. Um helmingur þess tapaðist frá hausti 1994 til hausts 2019 en þá var heildartapið á bilinu 220 til 260 Gt, eða nálægt 10 Gt á ári að meðaltali.
Vatnajökull hefur að jafnaði þynnst um 45 metra á tímabilinu 1890–2019, Langjökull um 66 metra og Hofsjökull um 56 metra. Þetta svarar til þess að rúmmál hvers og eins hafi rýrnað um nálega 12% (Vatnajökull), nálega 29% (Langjökull) og nálega 25% (Hofsjökull).
Mikill breytileiki er í afkomu jöklanna frá ári til árs en einnig er breytileiki milli lengri tímabila. Rýrnun var mikil á 3., 4. og 5. áratug 20. aldar en annars var afkoman nærri jafnvægi þar til á síðasta aldarfjórðungi en á því tímabili hefur ársafkoma jöklanna verið verulega neikvæð með stökum undantekningum. Jökulárið 2014–2015 (mælt frá hausti til hausts) sker sig úr en það var eina ár síðasta aldarfjórðungs þegar íslenskir jöklar bættu á sig.
Í nýju greininni eru dregnar saman niðurstöður fjölda rannsókna sem ná til um 99 prósenta af jökulþekju landsins og er greinin samvinnuverkefni margra jöklafræðinga á nokkrum stofnunum sem stunda mælingar og rannsóknir á jöklum hérlendis.
Gögn til grundvallar
Greinin byggist á mæliröðum Jarðvísindastofnunar Háskólans og Veðurstofu Íslands og fyrri rannsóknum sem birtar hafa verið í ritrýndum tímaritum, m.a.:
Belart, J. M. C., Eyjólfur Magnússon, Berthier, E., Ágúst Þór Gunnlaugsson, Finnur Pálsson, Guðfinna Aðalgeirsdóttir, Tómas Jóhannesson, Þorsteinn Þorsteinsson og Helgi Björnsson. (2020). Mass balance of 14 Icelandic glaciers, 1945–2017: spatial variations and links with climate. Front. Earth Sci. 8, 163. doi:10.3389/feart.2020.00163
Helgi Björnsson og Finnur Pálsson. (2020). Radio-echo soundings on Icelandic temperate glaciers: history of techniques and findings. Ann. Glaciol. 61, 25–34. doi:10.1017/aog.2020.10
Helgi Björnsson, Finnur Pálsson, Sverrir Guðmundsson, Eyjólfur Magnússon, Guðfinna Aðalgeirsdóttir, Tómas Jóhannesson, Berthier, E., Oddur Sigurðsson og Þorsteinn Þorsteinsson. (2013). Contribution of Icelandic ice caps to sea level rise: trends and variability since the Little Ice Age. Geophys. Res. Lett. 40, 1–5. doi:10.1002/grl.50278
Hrafnhildur Hannesdóttir, Oddur Sigurðsson, Ragnar H. Þrastarson, Snævarr Guðmundsson, Belart, J. M. C., Finnur Pálsson, Eyjólfur Magnússon, Skúli Víkingsson og Tómas Jóhannesson. (2020). A national glacier inventory and variations in glacier extent in Iceland from the Little Ice Age maximum to 2019. Jökull 639, 200929. doi:10.33799/jokull2020.70.001
Tómas Jóhannesson, Bolli Pálmason, Árni Hjartarson, Jarosch, A., Eyjólfur Magnússon, Belart, J., og Magnús Tumi Guðmundsson. (2020). Non-surface mass balance of glaciers in Iceland. J. Glaciol. 66, 685–697. doi:10.1017/jog.2020.37
Schmidt, L. S., Guðfinna Aðalgeirsdóttir, Finnur Pálsson, Langen, P. L., Sverrir Guðmundsson og Helgi Björnsson. (2019). Dynamic simulations of Vatnajökull ice cap from 1980 to 2300. J. Glaciol. 66, 97–112. doi:10.1017/jog.2019.90