Skip to main content
24. ágúst 2020

Magdalena nýr forseti sviðsráðs nemenda

„Í deiglunni hjá okkur í haust er að halda áfram því góða samstarfi sem við höfum átt við stjórnendur og starfsfólk á Menntavísindasviði. Við ætlum einnig að leggja aukna áherslu á málefni fjarnema en í þeim hópi eru fjölmargir foreldrar og viljum við kappkosta að bæta hag þeirra innan háskólasamfélagsins,“ segir Magdalena Katrín Sveinsdóttir, nemi í þroskaþjálfafræði og nýr forseti sviðsráðs stúdenta á Menntavísindasviði. 

Magdalena segist vera vel í stakk búin til að takast á við verkefni vetrarins. „Embættið leggst vel í mig enda tek ég við góðu búi af Sigurði Vopna Vatnsdal, fyrrverandi forseta sviðsráðsins. Með mér í ráðinu er hópur öflugra kvenna og komum við úr ólíku námi við sviðið. Það gefur okkur góða yfirsýn yfir stöðu nemenda í mismunandi deildum og svo skemmir það ekki fyrir að við brennum allar fyrir hagsmunum stúdenta.“ 

Húsnæðismálin verða einnig ofarlega á baugi í baráttumálum sviðsráðsins á komandi tímabili. Í júní síðastliðnum var undirrituð viljayfirlýsing þar sem stefnt er að því ný bygging Menntavísindasviðs rísi á svæði Vísindagarða í Vatnsmýri á næstu fjórum árum. „Nemendum sviðsins hefur fjölgað verulega undanfarin ár og ljóst er að núverandi húsnæði í Stakkahlíð hentar ekki nægilega vel þeim fjölbreytta hópi sem þar stundar nám. Við viljum gjarnan beita okkur fyrir því að raddir nemenda heyrist og að nýtt hús verði aðgengilegt öllum.“ 

Fjölbreytt geðheilbrigðisúrræði fyrir háskólanema

Heimsfaraldur COVID-19 hefur haft gífurleg áhrif á starfsemi Háskólans. En hvað finnst stúdentum um viðbrögð skólans vegna faraldursins? „Mér finnst Háskólinn hafa staðið sig vel í að aðlaga sig að breyttum kennsluháttum á skömmum tíma og upplýsingagjöf til nemenda er til mikillar fyrirmyndar. Ég treysti stjórnendum skólans fullkomlega til að taka góðar ákvarðanir í þágu nemenda á næstu misserum. Mig langar jafnframt að vekja athygli á geðheilbrigðisúrræðum fyrir háskólanema á þessum óvissutímum.“ 

Á öllum fimm fræðasviðum Háskólans eru starfrækt sviðsráð sem sinna hagsmunamálum nemenda. Sérhvert sviðsráð kýs forseta og ritara ár hvert en kosning­ á Menntavísindasviði fór fram á síðasta skipta­fundi ráðsins.  

Auk Magdalenu, skipa eft­ir­far­andi full­trú­ar nýtt sviðsráð Menntavísindasviðs:  

  • Gabríela Sól Magnúsdóttir, nemi í grunnskólakennarafræði 
  • Gréta Sóley Arngrímsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði 
  • Regína Ösp Guðmundsdóttir, nemi í íþrótta- og heilsufræði 
  • Sóley Arna Friðriksdóttir, nemi í leikskólakennarafræði

Hægt er að senda ábendingar til ráðsins á netfangið studentmvs@hi.is

Tengdar fréttir: Framtíðarhúsnæði Menntavísindasviðs HÍ rísi í Vatnsmýri innan fjögurra ára HÍ   

Magdalena Katrín Sveinsdóttir, nemi í þroskaþjálfafræði og nýr forseti sviðsráðs stúdenta á Menntavísindasviði.