Skip to main content
13. mars 2020

List— míla á 40 ára afmæli Listasafns Háskóla Íslands

""

Sýningin List— míla hefur verið sett upp í byggingum Háskóla Íslands í tilefni 40 ára afmælis Listasafns Háskóla Íslands. Markmið sýningarinnar er að gefa nemendum háskólans, starfsmönnum og ekki síst öllum almenningi færi á að kynnast safneigninni. Sýningin verður opin frá og með föstudeginum 13. mars og stendur fram í október. 

Sýnd eru um 170 verk úr safneigninni eftir 50 listamenn. Verkin er frá ýmsum tímabilum íslenskrar myndlistar og endurspegla ólík viðfangsefni listamannanna. Verkin má finna í fimm byggingum skólans: Aðalbyggingu, Gimli, Háskólatorgi, Odda, Veröld, og tengigöngum á milli þessara bygginga. 

Sýningarstjórar eru Kristján Steingrímur, forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands, og Æsa Sigurjónsdóttir, listfræðingur og dósent við Háskóla Íslands. 

Líkt og mörg háskólalistasöfn erlendis byggist safneign Listasafns Háskóla Íslands að miklu leyti á gjöfum. Stofngjöf hjónanna Ingibjargar Guðmundsdóttur (1911-1994) og Sverris Sigurðssonar (1909-2002) vegur þar þyngst. Þá hafa ýmsir listamenn og afkomendur þeirra gefið safninu verk. Að öllu samanlögðu hafa Listasafni Háskóla Íslands verið gefin hátt í 1.300 listaverk. Með innkaupum safnsins hefur verið aukið við listaverkaeignina og á Listasafn Háskóla Íslands nú um 1.450 listaverk, skissur og gögn. 

Listasafn Háskóla Íslands á sér margar fyrirmyndir úti í heimi þar sem háskólalistasöfn eru mörg hver stór og víðfræg, einkum vestanhafs. Ólíkt því sem tíðkast erlendis eru Listasafn Háskóla Íslands og Háskóli Íslands ekki aðskildar skipulagseiningar heldur eru verk úr eigu safnsins víða að finna á skrifstofum og í opinberum rýmum skólans. 

Vefsíða Listasafns Háskóla Íslands

Sýnd eru um 170 verk úr safneigninni eftir 50 listamenn. Verkin er frá ýmsum tímabilum íslenskrar myndlistar og endurspegla ólík viðfangsefni listamannanna. Verkin má finna í fimm byggingum skólans: Aðalbyggingu, Gimli, Háskólatorgi, Odda, Veröld, og tengigöngum á milli þessara bygginga. 

Nánar um Listasafn Háskóla Íslands og sýninguna

Listasafn Háskóla Íslands var stofnað árið 1980 með stórri listaverkagjöf hjónanna Ingibjargar Guðmundsdóttur (1911–1994) og Sverris Sigurðssonar (1909–2002). Síðan hafa ýmsir listamenn og afkomendur þeirra styrkt safnið með veglegum gjöfum. Með þeim hætti eignaðist safnið verk eftir Hörð Ágústsson, Hjörleif Sigurðsson, Valtý Pétursson og Guðmundu Andrésdóttur sem gaf safninu 76 málverk. 

Verkum á sýningunni er raðað með ákveðnum hætti í byggingar skólans.
-    Í Odda er yfirlitssýning á verkum Guðmundu Andrésdóttur. 
-    Á Háskólatorgi eru sýnd verk eftir Gunnlaug Scheving sem upphaflega voru gerð fyrir Kennaraháskóla Íslands í Stakkahlíð. 
-    Í Veröld er sýning á abstraktverkum Þorvaldar Skúlasonar, en safnið varðveitir rúmlega þúsund málverk og teikningar listamannsins. 
-    Í Aðalbyggingu eru litaskissur Valtýs Péturssonar og málverk eftir Eyborgu Guðmundsdóttur auk verka eftir Önnu Líndal, Birgi Snæbjörn, Georg Guðna, Eirúnu Sigurðardóttur, Eggert Pétursson, Ragnar Kjartansson og Svölu Sigurleifsdóttur. 
-    Í tengigöngum má sjá úrval verka eftir listamenn af „SÚM-kynslóðinni“ auk ljósmynda, málverka og textílverka eftir Ásgerði Búadóttur, Elínu Hansdóttur, Erlu Þórarinsdóttur, Gabríelu Friðriksdóttur, Hildi Bjarnadóttur, Huldu Hákon, Huldu Stefánsdóttur, Hörpu Árnadóttur, Kristínu frá Munkaþverá og Ólöfu Nordal.

Um stærstu verkasöfnin innan Listasafns Háskóla Íslands

Þorvaldur Skúlason (1906–1984) 
Á annað þúsund málverk, teikningar og skissur Þorvalds Skúlasonar í eigu Listasafns Háskóla Íslands sýna hvernig hann glímdi stöðugt við eina af grundvallarspurningum módernismans: Hvernig er hægt að vinna með form og liti á síbreytilegan hátt án þess að vísa út fyrir heim flatarins? Þorvaldur skapar átök á fletinum með djarfri og óvæntri samsetningu andstæðra lita, appelsínugult á fjólublátt, gult sem rímar við svart og blátt, eða grænt við rautt. Parísarveturinn 1961–1962 sneri Þorvaldur sér að því að rannsaka spennu hringformsins, og það birtist í sporbaugum og leikandi hálfhringum sem titra á fletinum. Formin snertast, eitt grípur í annað og síðan koll af kolli þar til þau takast á flug – því honum fannst „hreyfing og hljómfall tilverunnar skipta miklu meira máli en að góna í sífellu á hlutina, dauða og staðnaða.“ Enginn fylgdist jafnvel með listsköpun Þorvalds og listsafnararnir Sverrir Sigurðsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir, sem skildu hvernig hugmyndarými listamannsins fann sér stað í daglegum skissuæfingum hans, svörtum pennateikningum, klippimyndum og litaprufum þar sem fljótandi flekar sigla frá gulu yfir í blátt.

Guðmunda Andrésdóttir (1922–2002) ánafnaði Listasafni Háskóla Íslands 76 málverk eftir sinn dag. Guðmunda lærði málaralist í Svíþjóð og París þar sem hún kynntist gróskunni í franskri myndlist á árunum 1951–1953 og skipaði sér í hóp með íslenskum listmálurum sem margir sneru sér að óhlutbundinni könnun flatarins. Málverk Guðmundu einkennast af endurtekningu, hrynjanda, hreyfingu línunnar á fletinum og markvissum tilraunir með liti. Taktföst formin grípa áhorfandann eins og endurtekin laglína. „Myndirnar smámótast í höndunum á mér, en ég vinn oftast út frá ákveðnum hugmyndum, sem ég set mér áður en ég byrja. Hugmyndirnar þróast síðan smátt og smátt meðan ég mála, og oft vinn ég mjög þröngt, þ.e. ég tek fyrir ákveðin þemu, sem ég vinn í margar myndir og útfæri á mismunandi hátt.“ Guðmunda vann í ómerktum syrpum og verk hennar frá árunum 1965–2001 eru flest án titils. Þeim má þó skipta í tímabil sem grundvallast á tilraunum hennar með hringformið. Verkin hverfast frá litríkum og ómstríðum hljómkviðum yfir í staka mínímalska tóna sem í lok ferils hennar birtast í frumlitunum einum: gult, rautt og blátt á hvítum fleti.

Listaverk í Odda