Skip to main content
27. janúar 2022

Leikgleðin getur dregið úr matvendni

Leikgleðin getur dregið úr matvendni - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Oj, þetta er svo ógeðslegt á bragðið!!!“

Flestir foreldrar kannast við svona upphrópanir hjá börnum sínum við matarborðið og eiga oft í mesta basli með að halda að þeim mat sem er hollur og næringarríkur. Matvendni er því ekkert nýtt fyrirbæri í daglegum veruleika en hins vegar frekar nýtt rannsóknarefni sem kallar á þverfræðilega nálgun á sviði næringarfræði, sálfræði og kennslufræði auk þess sem upplýsingatækni kemur við sögu. 

Með því að ráðast til atlögu gegn matvendni er líklega hægt að tryggja börnum miklu meiri hollustu en sýnt hefur verið fram á með ýmsum rannsóknum að hollusta fæðis á fyrstu árum ævinnar getur skipt miklu um heilbrigði hér og nú en líka löngu síðar í lífinu. 

Sigrún Þorsteinsdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hefur helgað rannsóknir sínar því að þjálfa bragðlauka barna og foreldra. Rannsóknin er tær nýsköpun í formi sérhæfðs námskeiðs fyrir börn og foreldra sem felur í sér endurtekna kynningu á alls kyns matvælum á tiltölulega skömmum tíma. Sigrún segir að aðaláherslan í bragðlaukaþjálfuninni sé á fæðuval, matvendni og líðan, bæði hjá börnum og foreldrum. Leikur og gleði séu leiðarljósið og engum sé þröngvað til að smakka eitt né neitt. Aðalatriðið sé að höfða til forvitni og skemmtunar. Leiðbeinandi Sigrúnar í doktorsverkefninu er Anna Sigríður Ólafsdóttir prófessor í næringarfræði á Menntavísindasviði HÍ, sem á auk þess hugmyndina að verkefninu.

„Flest börn og foreldrar geta nýtt sér aðferðir okkar en mesta ákorunin er gjarnan að fá börnin til að smakka bragðmiklar fæðutegundir,“ segir Sigrún. „Námskeiðið sjálft er einföld og skemmtileg leið til að draga úr matvendni þar sem við leggjum áherslu á ánægju og á fjölbreytni í fæðuvali. Við leggjum sér í lagi kraft í að auka neyslu ávaxta og grænmetis sem eru þær fæðutegundir sem helst skortir í mataræði barna almennt.“ 

Sigrún er með með meistaragráðu í klínískri barnasálfræði frá HÍ og svo aðra meistaragráðu í heilsusálfræði frá University of Westminster. Bragðlaukaþjálfunin tengist þannig í tvennum skilningi hugðarefnum Sigrúnar, heilsusálfræði og matarvenjum því hún hefur skrifað uppskriftabækur auk þess að miðla hollum uppskriftum á samfélagsmiðlum og netinu þar sem áherslan er á vistvænt hráefni.

Nýsköpun - Þróuðu app til að bæta matarvenjur

Í nýrri stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, er mikið lagt upp úr notendamiðaðri þjónustu og stafrænni umbyltingu hennar. Fullyrða má að vísindakonurnar tvær hafi einmitt farið þessa nýju leið í rannsókninni að hluta til. Þær hagnýttu sér nefnilega upplýsingatæknina í þágu verkefnisins með því að þróa sérstakt app fyrir snjallsíma til að létta þátttakendum matarskráningar. Þarna er á ferðinni mjög áhugarverð nýsköpun. 

„Appið gerir notendum kleift að skrá fæðuvenjur sínar myndrænt. Verandi eins og við Anna Sigríður, stöðugt að tala um mat, börn og líðan þeirra, þá eru bara hugmyndir sem þessu tengjast að fæðast á færibandi,“ segir Sigrún og brosir. 

Þegar horft er á verkefnið er margt sem vekur áhuga, ekki síst nýsköpunarhlutinn en líka nýjustu niðurstöðurnar sem eru einkar jákvæðar og boða að skynsamlegt sé að þróa þessar aðferðir áfram til að bæta matarvenjur barna. 

„Í stuttu máli virkaði námskeiðið vel, matvendni minnkaði hjá börnum eftir þátttöku og áhrifin héldust til sex mánaða sem er ekki sjálfgefið. Vísbendingar eru einnig um að ánægja af því að borða hafi aukist. Börnin samþykktu einnig fleiri tegundir af matvælum eftir þátttöku, t.d. margs konar grænmeti,“ segir Sigrún en nú þegar hafa verið birtar þrjá ritrýndar vísindagreinar með niðurstöðum úr rannsókninni.

„Flest börn og foreldrar geta nýtt sér aðferðir okkar en mesta ákorunin er gjarnan að fá börnin til að smakka bragðmiklar fæðutegundir,“ segir Sigrún. „Námskeiðið sjálft er einföld og skemmtileg leið til að draga úr matvendni þar sem við leggjum áherslu á ánægju og á fjölbreytni í fæðuvali. Við leggjum sér í lagi kraft í að auka neyslu ávaxta og grænmetis sem eru þær fæðutegundir sem helst skortir í mataræði barna almennt,“ segir Sigrún Þorsteinsdóttir.

Getur haft langvarandi jákvæð áhrif á heilsu

Bragðlaukaþjálfun í útfærslu Önnu Sigríðar og Sigrúnar er algjör nýjung á Íslandi. Anna Sigríður hefur lengi sérhæft sig í rannsóknum og kennslu í heilsueflingu og samspili næringar og hreyfingar. Hún hefur lagt mikið upp úr því að auka þekkingu almennings á gildi næringar og hollustu í víðum skilningi og hefur verið fastagestur í útvarpi við að miðla leiðbeiningum um næringu og hreyfingu. Hún stýrir núna sjónvarpsþáttaröðinni Nærumst og njótum á RÚV þar sem fylgst er með fjölbreyttum hópi fólks endurskoða næringar- og matarvenjur sína í þeim tilgangi sem heiti þáttarins segir til um. Hægt er að horfa á þættina á vef RÚV fram á sumar. 

Anna Sigríður hafði lengi deilt þeim áhuga með Urði Njarðvík, prófessor í sálfræði við HÍ, að hanna íhlutun til að draga úr matvendni og bæta líðan fjölskyldna kringum máltíðir. Segja má að með bragðlaukaþjálfuninni hafi þessi draumur þeirra raungerst en óhætt er að fullyrða að þær hafi verið heppnar með doktorsnema sem deilir svo sannarlega þessari ástríðu með þeim að bæta líðan barna og fjölskyldna.  

„Niðurstöðurnar sýna að bragðlaukaþjálfun getur bætt fæðuvenjur og líðan barna í tengslum við mat sem er gríðarlega mikilvægt þar sem sum börn eru beinlínis kvíðin gagnvart mat og borða því mjög einhæfa og einsleita fæðu,“ segir doktorsneminn Sigrún og bætir því að bragðlaukaþjálfunin sé rannsókn af þeim toga sem geti haft langvarandi jákvæð áhrif á samfélagið.

Smekkur er ekki byggður á bragðinu einu saman

Vísindakonurnar segja að áhugi á mat geti verið býsna flókið fyrirbæri því bragðið eitt og sér hafi ekki alltaf úrslitaáhrif. Sumt vilji börn ekki sjá þótt þau hafi alrei sett það inn fyrir varir sínar. 

Þær segja að skynúrvinnsla geti haft býsna mikil áhrif. „Þannig getur til dæmis litur og áferð eða lykt og jafnvel hljóð ýtt undir mjög einhæft fæðuval,“ segir Anna Sigríður og bætir því við að matvendni geti falið í sér að barn velji umfram annað eitthvað sem sé bragðdauft eða sætt.

Þær segja báðar að það sé mikið þolinmæðisverk að breyta smekk barna og venja þau á nýjar fæðutengdir og því sé mikilvægt að virkja alla fjölskylduna til að draga úr einhæfu matarvali og stuðla að heilsusamlegri lífsstíl. 

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í háskerpu

Börn með taugaþroskaraskanir á borð við ADHD og raskanir á einhverfurófi eru gjarnan matvandari en önnur börn og það fylgir þeim fram á fullorðinsár að sögn vísindakvennanna. Að þeirra sögn geta þau átt erfitt með skynúrvinnslu sem gerir þeim erfiðara að borða fjölbreyttan mat og því var sérstaklega horft til þeirra í rannsókninni. Matartíminn geti þannig valdið miklu álagi og gert samskipti fjölskyldunnar erfiðari í kringum máltíðir og því er mikilvægt að breyta. 

„Það er sérstaklega mikilvægt að styðja við fæðuval hjá þessum börnum og stuðla þannig að góðu næringarástandi þeirra. Það eru fá úrræði í boði fyrir börn með matvendni og taugaþroskaraskanir og oftar en ekki eru þau útilokuð frá rannsóknum af þessu tagi,“ segir Anna Sigríður.

Þær stöllur segja að verkefnið tengist klárlega heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni sem eru eitt af áhersluatriðunum í nýrri stefnu Háskólans, HÍ26. 

„Hér horfum við helst til þátta í tengslum við heilsu og vellíðan, en hér geta líka orðið til leiðir til að draga úr matarsóun um leið og það opnast möguleikar til að leggja meiri áhersla á vistkerafæði,“ segir Sigrún sem bendir á að það sem við borðum hafi ekki bara áhrif á okkur sjálf heldur einnig á jörðina sem við búum á. Sigrún segir að vistkerafæði snúist um að draga sem mest úr neyslu dýraafurða án þess að hætta alveg að neyta þeirra, en með því megi lækka mjög kolefnisspor okkar.   

Sigrún Þorsteinsdóttir og Anna Sigríður Ólafsdóttir