Skip to main content
22. mars 2023

Landnotkun mun ráða miklu um framtíð mófuglastofna

Landnotkun mun ráða miklu um framtíð mófuglastofna - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Stóra áskorunin á þessari öld og áfram verður að samræma vernd líffræðilegrar fjölbreytni við aukna nýtingu sem mun ná til æ stærri hluta af landinu,“ segir Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi. Hann hefur ásamt samstarfsfólki helgað sig rannsóknum á mófuglum og þau hafa nú opnað nýjan vef þar sem veittar eru upplýsingar um áhrif landnotkunar á mófuglastofna og lagðar til aðgerðir og ábendingar um mófuglavernd sem byggja á vísindalegum grunni.

Tómas kynnti vefinn, moi.hi.is, á ársfundi Stofnunar rannsóknasetra fram fram fór á Egilsstöðum í liðinni viku. Hann segir að mófuglar séu afar heppilegur mælikvarði á líffræðilega fjölbreytni þar sem þeir eru bæði algengir og þurfa fjölbreytt búsvæði auk þess þeir eru næmir fyrir ýmsum umsvifum mannanna. Hér á landi verpi stór hluti heimsstofna af nokkrum tegundum mófugla og Íslendingar hafi með lögum og ýmsum samningum sem snerta líffræðilega fjölbreytni skuldbundið sig til að vernda  slíka fugla. „Það er fátt annað en mófuglar sem við berum eins mikla ábyrgð á alþjóðlega. Ísland er ekki stórt land og 85% mófugla eru á láglendi innan um landnotkun mannsins. Vernd mófugla endurspeglar vandamál hjá öllum iðnvæddum þjóðum, hvernig við verndum líffræðilega fjölbreytni samfara nýtingu á landinu,“ segir hann.

Annað landnám stendur yfir

Tómas bendir enn fremur á að um þessar mundir fari fram nokkurs konar annað landnám Íslands þar sem byggingum fjölgar, vegakerfið þéttist og skógrækt og landbúnaður hefur aukist. Jafnvel er enn verið að ræsa fram votlendi. „Við erum að nota æ meira af úthaganum. Þetta á sérstaklega við um sveitir sem eru nær þéttbýli en ef við horfum á spár um fólksfjölgun og aukna matvælaframleiðslu þá er alveg ljóst að þetta mun ná til stórs hluta láglendis á Íslandi á þessari öld og það er svæðið sem stendur undir þeirri líffræðilegu fjölbreytni sem við höfum skuldbundið okkur til að vernda,“ segir hann.

thufutittlingur

Vernd mófugla endurspeglar vandamál hjá öllum iðnvæddum þjóðum, hvernig við verndum líffræðilega fjölbreytni samfara nýtingu á landinu. Mynd/Tómas Grétar Gunnarsson

Tómas segir að mikilvægt sé að fylgjast vel með afkomu þessara stofna en mófuglar hafi verið vaktaðir tiltölulega stutt hér á landi, í hálfan annan áratug, þrátt fyrir að við Íslendingar berum ábyrgð á stórum hluta heimsstofna af nokkrum tegundanna. „Við sem störfum við Rannsóknasetur HÍ á Suðurlandi byrjuðum að telja mófugla fyrir um áratug. Það eru tvær tegundir sem vegnar mjög vel, skógarþröstur og hrossagaukur, sem eru tegundir sem sækja í hávaxnari gróður og líður vel í návist mannsins að einhverju leyti, en stóru stofnarnir af þessum algengustu mófuglum, heiðlóa, lóuþræll, spói, stelkur og þúfutittlingur, sýna mjög neikvæða tilhneigingu á þessu tímabili,“ segir Tómas. Hann undirstrikar að þótt vöktunartími sé tiltölulega stuttur megi sjá mjög sterkar vísbendingar um breytingar á þessum stofnum sem tengjast breyttri landnýtingu.

Yfirlit um áhrif landnotkunar á mófugla og tillögur til úrbóta

Að vefnum moi.hi.is koma auk Tómasar koma þær Lilja Jóhannesdóttir og Aldís Erna Pálsdóttir sem báðar hafa lokið doktorsprófi frá Háskóla Íslands og stunduðu rannsóknir sínar við Rannsóknasetur HÍ á Suðurlandi. Þá leggja þau Jennifer A. Gill, prófessor við háskólann í East Anglia í Bretlandi, José A. Alves, vísindamaður við háskólann í Aveiro í Portúgal, og Böðvar Þórisson, sérfræðingur við rannsóknasetrið, einnig til efni á vefinn.

Með þessu framtaki vilja þau leggja sitt af mörkum til að stuðla að vexti og viðgangi mófuglastofna um leið og þar má finna ýmsan fróðleik um þennan hóp fugla. „Á síðunni má nálgast þær upplýsingar sem eru til um tengsl mófugla almennt við landnotkun og ýmsar tillögur til úrbóta. Þetta er okkar framlag til þess að reyna að auðvelda þeim, sem vilja koma að því að vernda líffræðilega fjölbreytni, að leggja sitt af mörkum,“ útskýrir Tómas og bætir við að í þeim hópi sé m.a. fólk kemur að skipulagsgerð, bændur, landeigendur, stjórnvöld og annað áhugasamt fólk um vernd mófugla.

„Við höfum nú þegar raskað yfir 90% af öllu votlendi á láglendi landsins en votlendi gegnir mjög mikilvægu hlutverki fyrir mófugla og alla aðra fugla og marga aðra þætti líffræðilegrar fjölbreytni. Sennilega er varðveisla og endurheimt votlendis sú aðgerð sem hefur mest samlegðaráhrif hvað varðar viðbrögð við loftslagsbreytingum og vernd líffræðilegrar fjölbreytni,“ segir Tómas Grétar Gunnarsson sem fræðir hér gesti í farfuglagöngu HÍ. MYND/Kristinn Ingvarsson

Tugþúsundir mófugla tapa búsvæðum sínum með sumarhúsauppbyggingu

Á vefnum er farið yfir það hvaða þættir landnotkunar hafa áhrif á afkomu mófugla, bæði út frá rannsóknum hérlendis og erlendis. Þar má nefna vegagerð, skógrækt, uppbyggingu sumarhúsa og vindorkuver. Tekið er dæmi af því hvaða áhrif það hefur á mófuglastofna að byggja eitt sumarhús á 12,5 ha svæði í dæmigerðu sumarhúsalandi, en við það tapast t.d. strax um 75% af heiðlóum sem verpa á svæðinu. „Það er búið að samþykkja skipulag fyrir um 7.000 sumarhús og ef þau verða öll byggð, miðað við mjög varfærnar forsendur, hefur Aldís Erna Pálsdóttir reiknað það út að þá munu tugþúsundir mófugla tapa búsvæðum sínum til viðbótar,” bendir hann á.

loa

Tekið er dæmi af því á vefnfum hvaða áhrif það hefur á mófuglastofna að byggja eitt sumarhús á 12,5 ha svæði í dæmigerðu sumarhúsalandi, en við það tapast t.d. strax um 75% af heiðlóum sem verpa á svæðinu. Mynd/Tómas Grétar Gunnarsson

Þá hafi rannsóknir sýnt að vegagerð og skógrækt hafi áhrif töluvert út fyrir það svæði sem fer beint undir slíka landnotkun. „Skógarnir ýta fuglum í burtu, við töpum búsvæði sem fer undir skóginnn og líka í grennd við hann. Þetta á bæði við um stóra skóga og litla. Við getum lágmarkað þessi áhrif með því að planta færri og stærri skógum en styrkjakerfið hér á landi er þannig að það styðjur við marga, litla skóga á mörgum stöðum sem er nánast eins og sérhannað til þess að hámarka neikvæð áhrif á mófugla,“ segir Tómas.

Vindorkuver ógna mófuglum

Vindorkuver hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu og Tómas bendir á að áhrif þeirra á mófugla hafi verið rannsökuð talsvert erlendis, m.a. í Skotlandi þar sem finna má sömu tegundir mófugla við hliðstæðar aðstæður og hér. Mest hafi verið rætt um hættuna á því að fuglarnir fljúgi á spaða vindmylla en jafnframt gildir það sama og um vegi og skógrækt, þéttleiki varps minnkar í og við vindorkuver. „Af þessum ástæðum væri eflaust skynsamlegra að jafnaði að staðsetja vindorkuver frekar á ógrónu landi en á grónum heiðum sem standa undir heimsklassaþéttleika af mófuglum,“ segir Tómas.

Á vefnum eru enn fremur lagðar fram ýmsar tillögur að aðgerðum sem hægt er að ráðst í til að vernda mófuglastofna og stuðla þannig að varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi þannig að þessar fuglategundir megi áfram þrífast í landslagi íslenskra sveita, eins og Tómas orðar það. Ábendingar um aðgerðir snerta m.a. landbúnað, s.s. ræktun lands og slátt, og betri umhirðu um votlendi. „Við höfum nú þegar raskað yfir 90% af öllu votlendi á láglendi landsins en votlendi gegnir mjög mikilvægu hlutverki fyrir mófugla og alla aðra fugla og marga aðra þætti líffræðilegrar fjölbreytni. Sennilega er varðveisla og endurheimt votlendis sú aðgerð sem hefur mest samlegðaráhrif hvað varðar viðbrögð við loftslagsbreytingum og vernd líffræðilegrar fjölbreytni,“ segir Tómas að endingu. 

Upptöku af ársfundi Stofnunar rannsóknasetra HÍ má finna á YouTube-rás HÍ

Ársskýrslu stofnunarinnar má enn fremur finna á vef HÍ
 

Spói á skilti