Skip to main content
26. mars 2019

Læknanemar sigruðu í heilsuhakkaþoni 

""

Kjartan Þórsson og Árni Johnsen, læknanemar á sjötta ári í Háskóla Íslands, urðu hlutskarpastir í hakkaþoninu Nordic Health Hackathon Reykjavík sem fram fór í Háskólanum í Reykjavík um liðna helgi. Þeir hafa þróað skema á netinu sem hjálpar sjúklingum, sem þurfa tímabundið á sterkum verkjalyfjum að halda, að draga úr notkun lyfjanna.

Hakkaþon er nokkurs konar nýsköpunarkeppni eða uppfinningamaraþon þar sem áherslan er á að þróa tæknilausn algjörlega frá grunni. Afurðin getur verið í formi vefsíðu, smáforrits, smátækis eða hvernig tækni sem er. Þátttakendur í hakkaþonum vinna jafnan í tveggja til fimm manna liðum í afmarkaðan tíma að lausnum sem jafnan tengjast þemum hakkaþonsins en markmiðið er alla jafna að auðvelda líf hins almenna borgara

Eins og nafnið gefur til kynna er Nordic Health Hackathon helgað leit að nýjum tæknilausnum sem tengjast heilsu og heilbrigðisvísindum. Alls tóku 18 lið þátt í keppninni í HR um liðna helgi og kynntu lausnir sínar fyrir dómnefnd. Hún mat hugmynd þeirra Árna og Kjartans, Niðurtröppun, besta og hlutu þeir tíu þúsund evrur í sigurlaun. „Við þróuðum vefsíðu sem er bæði hugsuð fyrir lækna og sjúklinga. Á síðunni geta læknar útbúið áætlun fyrir sjúklinga, sem þurfa tímabundið á sterkum verkjalyfjum að halda, um hvernig þeir geta hægt en örugglega dregið úr notkun lyfjanna. Sjúklingar, sem vilja draga úr verkjalyfjanotkun sinni, geta einnig nýtt hana sjálfir,“ segir Árni en lausnina má nálgast á nidurtroppun.is.

Hugmyndin að vefsíðunni kviknaði að sögn þeirra félaga í starfi þeirra á Landspítalanum og hefur m.a. þróast í samtali við samstarfsfélaga undanfarna mánuði. „Við höfum unnið á bæklunarskurðdeild Landspítalans og meðal annars útskrifað sjúklinga og ávísað þeim verkjalyfjum. Alla jafna fólk er sett á verkjalyf í góðum tilgangi en stundum verður það háð lyfjunum og þarf þá aðstoð við að trappa sig niður,“ segir Kjartan og segir verkefnið líka vopn í baráttunni við ópíóðafaraldurinn svokallaða sem mikið hefur verið til umræðu bæði hér á landi og annars staðar. 

„Ég lauk gráðu í eðlisfræði áður en ég hóf nám í læknisfræði og tók töluvert af valnámskeiðum í tölvunarfræði sem nýttust vel í vinnunni um helgina. Við vinnum báðir að þróun hugmynda, ég sé síðan fyrst og fremst um forritunarvinnuna en Kjartan hefur aðallega séð um kynningarvinnuna í verkefninu. Það er nefnilega ekki nóg að hafa góða hugmynd og ná að þróa hana, þú þarft líka að geta kynnt hana vel fyrir dómnefnd og áheyrendum,“ segir Árni sem er hér ásamt Kjartani á kynningu verkefnisins fyrir dómnefnd. MYND/Facebook-síða Nordic Health Hackathon

Þróun síðunnar býður upp á marga möguleika í framtíðinni
Í keppninni um helgina þróuðu þeir félagar svokallaða prótótýpu af síðunni og segjast aðspurðir ætla að þróa hana frekar á næstunni. „Við viljum bæði fjölga þeim tungumálum sem hægt er að nota innan kerfisins þannig að hún nýtist bæði íslensku-, ensku- og pólskumælandi hér á landi og sömuleiðis fleira fólki víðar um heiminn. Þá höfum við ákveðnar hugmyndir um að víkka efni síðunnar frekar út þannig að hún nái einnig til annarra ávanabindandi lyfja, t.d. Benzódíazepin-lyfja eins og sobril, sem eru róandi eða kvíðastillandi lyf. Þau eru góð til síns gagns en fólk getur einnig ánetjast þeim eins og ópíóðunum og þarf þá aðstoð við að draga hægt og rólega úr notkuninni,“ segir Kjartan enn fremur. 

Árni og Kjartan ljúka báðir kandídatsprófi í læknisfræði í vor en í hakkaþonum reynir töluvert á forritunarhæfileika. Því kviknar spurningin hvernig þeir hafi staðið gagnvart keppinautum sínum á því sviði um helgina. „Ég lauk gráðu í eðlisfræði áður en ég hóf nám í læknisfræði og tók töluvert af valnámskeiðum í tölvunarfræði sem nýttust vel í vinnunni um helgina. Við vinnum báðir að þróun hugmynda, ég sé síðan fyrst og fremst um forritunarvinnuna en Kjartan hefur aðallega séð um kynningarvinnuna í verkefninu. Það er nefnilega ekki nóg að hafa góða hugmynd og ná að þróa hana, þú þarft líka að geta kynnt hana vel fyrir dómnefnd og áheyrendum,“ segir Árni enn fremur.

Þeir félagar láta ekki staðar numið hér því þeir heru á leið til Helsinki um næstu helgi til þess að taka þátt í öðru hakkaþoni á vegum Nordic Health Hackathon. „Þar ætlum við að útfæra aðra hugmynd sem snýst um bætt upplýsingaflæði til inniliggjandi sjúklinga á spítala,“ segja þeir að endingu.

Háskóli Íslands óskar þeim Kjartani og Árna til hamingju með sigurinn um liðna helgi og velgengni á Nordic Health Hackathon Helsinki um næstu helgi.

Árni Johnsen og Kjartan Þórsson