Skip to main content
9. júlí 2018

Kvik kerfislíkön í háskerpu

Kvik kerfislíkön í háskerpu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands heldur í sumar þá stærstu alþjóðlegu ráðstefnu sem haldin hefur verið í heiminum á sviði kvikra kerfislíkana. Ráðstefnan verður haldin í Háskólabíói dagana 6. til 10. ágúst nk. Flestir spyrja sig sjálfsagt að því hvað kvik kerfislíkön séu og að hvaða haldi þau komi í okkar veruleika. Svarið er einfalt.

„Kvik kerfislíkön eru öflugt tæki sem auðvelda mat á flóknum viðfangsefnum, t.d. mat á verklegum framkvæmdum þar sem ófyrirsjáanleg seinkun á einum framkvæmdalið getur í framhaldi haft áhrif á alla framkvæmdina,“ segir Anna Hulda Ólafsdóttir, lektor í verkfræði við Háskóla Íslands en hún er helmingur af tvíeyki sem helgar sig nú undirbúningi ráðstefnunnar. Hinn aðilinn er Harald Sverdrup, prófessor við Háskóla Íslands.

Anna Hulda hefur sinnt rannsóknum með kvikum kerfislíkönum á síðustu árum í tengslum við auðlindir, matvælakeðjur, lífeldsneyti, sjálfbærni o.fl. Doktorsverkefni hennar var alfarið helgað gæðamálum í mannvirkjagerð ásamt kvikum kerfislíkönum. Fyrir liggur að drjúgur hluti af þjóðarauði Íslendinga er bundinn í mannvirkjum.  Því skiptir miklu að vel sé vandað til allra ferla við byggingu þeirra svo þau standi sem best af sér álag tímans. Gæðastjórnun við gerð mannvirkja er þannig gríðarlega mikilvæg enda ljóst að vönduð vinna frá upphafi til loka framkvæmda leiðir af sér lægri viðhaldskostnað og minni líkur á göllum að mati Önnu Huldu.

Ráðstefnan í sumar er haldin í samstarfi við alþjóðasamtök sérfræðinga á sviði kvikra kerfislíkana, eða „System Dynamics Society“ en aðkoma Háskólans er fyrir tilstuðlan íslensks arms þeirra samtaka.

Mikilvægt fyrir alla – Opið almenningi og ókeypis

„Kvik kerfislíkön eru að mínu mati afar falleg aðferð til að herma og rannsaka kerfi,“ segir Anna Hulda og af svip hennar má ráða að hún meinar það sem hún segir. Verkfræðin getur enda haft yfir sér brag fegurðar og nákvæmni á sama tíma.  „Aðferðafræðin heillar flesta sem gefa sér smá tíma til að skoða hana og því verðum við með nýjung þetta árið í von um að kynna þessi fræði sem víðast. Við bjóðum t.d. almenningi að hlýða á tvo af fremstu vísindamönnum heims á þessu sviði, þá Jorgen Randers, prófessor emeritus við BI Norwegian Business School og einn af höfundum bókarinnar „The limits to Growth,” og Peter Senge, prófessor við MIT og stofnanda „Society for Organizational Learning. Hann er einnig vel þekktur sem höfundur bókarinnar „The Fifth discipline: The Art and Practice of the learning Organisation.“  Þeir Randers og Senge munu standa á stóra sviðinu í Háskólabíói þann 8. ágúst milli kl. 8:50 og 10:30. Það er frítt inn á þennan viðburð og því hvet ég alla til að nýta sér þetta tækifæri og mæta.“

Anna Hulda segir að þeir Randers og Senge komi til með að fjalla um heimsvandamál og hvernig unnt sé að nota aðferðafræðina í kvikum kerfislíkönum til þess að sjá hlutina í víðara samhengi.

Sumarskóli í kvikum kerfislíkönum

Anna Hulda segir að auk ráðstefnunnar verði starfræktur sérstakur sumarskóli við Háskóla Íslands með áherslu á þetta viðfangsefni dagana áður en ráðstefnan sjálf hefjist. Sumarskólinn verður dagana 3. til 5. ágúst.

„Hægt er að velja milli tveggja leiða í skólanum, bæði fyrir þá sem eru að taka sín fyrstu skref í aðferðafræðinni og fyrir þá sem eru lengra komnir.“

Þegar Anna Hulda víkur aftur talinu að kvikum kerfislíkönum segir hún að mjög gagnlegt sé að nota þau við mat á flestum flóknum vandamálum eins og þeir Randers og Senge muni reyndar benda á í sínum erindum.„Kvik kerfislíkön hafa reynst vel við rannsóknir á flóknum vandamálum en aðferðafræðin felur í sér að vandamál eru skoðuð í stóru samhengi þar sem leitast er við að ná fram réttum orsakatengslum milli allra þátta.“

Anna Hulda segir að kennarateymið í sumarskólanum sé saman sett af miklu reynslufólki og fræðimönnum sem getið hafi sér gott orð alþjóðlega fyrir rannsóknir sínar á þessum vettvangi.

Hópurinn samanstandi af þeim Harald Sverdrup, prófessor við Háskóla Íslands, Herði V. Haraldssyni, sem starfi við Háskóla Íslands auk þess að vinna við skrifstofu umhverfisverndar í Svíþjóð, Robert Cavana frá Victoria háskóla í Nýja Sjálandi og Erik Pruyt frá Háskólanum í Delft í Hollandi. Anna Hulda kennir einnig sjálf í skólanum.

Kennsla fyrir kennara

Anna Hulda segir að ráðstefna af þessum toga sé frábær vettvangur til að kynna verkefni unnin á Íslandi og af íslenskum fræðimönnum og einnig til að kanna hvað aðrir séu að gera í þessum fræðum.

„Einnig er þetta kjörið tækifæri til að víkka tengslanetið. Ég tel að svona viðburður hafi áhrif á rannsóknir innan Háskóla Íslands þar sem að margir erlendir fræðimenn komi til með að sjá Ísland og Háskóla Íslands í fyrsta skipti og mögulega sækjast eftir samstarfi í sínum rannsóknum eftir ráðstefnuna.“

Anna Hulda segir að þarna gefist líka grunnskóla- og framhaldsskólakennurum frábært tækifæri. Á ráðstefnunni verður sérstakur dagur helgaður fræðslu fyrir kennara en henni stýrir Diana M. Fisher frá VP Pre-college Education. „Diana mun sýna kennurum af þessum skólastigum hvernig unnt er að nota aðferðarfræði kvikra kerfislíkana í kennslu. Þetta er líka alveg ókeypis.“

Tenglar og ítarefni

Anna Hulda Ólafsdóttir