Skip to main content
28. ágúst 2020

Kveðja til starfsfólks og stúdenta / Sóttvarnahólf á Háskólatorgi

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi skilaboð til starfsfólks og stúdenta í dag (28. ágúst 2020):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Starf Háskóla Íslands fer vel af stað þetta haustið við mjög óvenjulegar og erfiðar aðstæður. Við fögnum því að taka á móti ykkur, kæru nemendur, og ekki síst nýnemum sem hafa sjaldan eða aldrei verið fleiri. Á mánudag verður kennsla hafin að fullu á öllum fræðasviðum Háskólans. Við höldum áfram að gera okkar ítrasta til að starfsemin sé eins eðlileg og nokkur er kostur, en til þess að það takist þurfum við öll að gæta áfram að sóttvörnum og halda 1 metra nándarreglu. Allir verða að leggjast á eitt hvað þetta varðar og kynna sér gildandi tilmæli.

Til að tryggja að mikilvæg þjónusta á Háskólatorgi haldist opin er nauðsynlegt að setja frekari takmarkanir á aðgengi að torginu og uppfylla þannig kröfur sóttvarnayfirvalda. Því er eindregið mælst til þess að starfsfólk og nemendur komi ekki að óþörfu í Háskólatorg og haldi sig sem mest í sinni „heimabyggingu“ á matmálstímum. Hvatt er til þess að nemendur og starfsfólk mæti með nesti og noti einungis kaffi- eða mataraðstöðu Félagsstofnunar stúdenta (FS) í viðkomandi byggingu eða sem næst henni. Kappkostað verður að hafa fjölbreytt framboð á mat í öðrum byggingum en Háskólatorgi á meðan á þessari ráðstöfun stendur.

Varðandi Háskólatorg taka eftirfarandi ráðstafanir gildi mánudaginn 31. ágúst:

  • Sett verða upp ný sóttvarnahólf, öll með sérinngangi. Hér er kort af nýju hólfunum.
  • Fólk noti undantekningarlaust þann inngang að Háskólatorgi sem veitir aðgang að þeirri einingu sem það ætlar til. Í næstu viku mun starfsfólk skólans vera á staðnum til að leiðbeina um val á réttum inngangi.
  • Fólk er eindregið hvatt til að fara ekki milli hólfa nema nauðsyn krefji og gæta þess að þvo eða spritta hendur vandlega sé það gert, en slíkt gildir reyndar alltaf þegar farið er á milli hólfa.
  • Einungis einn inngangur er að veitingasvæði á Háskólatorgi, þ.e. aðalinngangur að austanverðu gegnt Lögbergi. Þeim inngangi verður lokað ef fjöldi á svæðinu fer yfir viðmiðunarmörk.
  • Inngangur að Háskólatorgi að vestanverðu við Suðurgötu er fyrir þau sem eiga erindi á þriðju hæð hússins.
  • Ekki er unnt að fara á milli fyrstu og annarrar hæðar (um stóra hringstigann á miðju torginu).
  • Kennslustofum á fyrstu hæð er skipt í þrjú hólf (A, B, C) með sérinngangi í hvert hólf.

Á fundi neyðarstjórnar í gær var hvatt til þess að skipta starfsfólki innan hverrar einingar upp í tvo eða fleiri hópa til að tryggja samfellda þjónustu innan skólans ef upp kemur smit eða einhver þarf að fara í sóttkví. Stjórnendur útfæri það vinnufyrirkomulag sem hentar hverri einingu til að draga úr líkum á að þjónustufall verði. Mannauðssvið skólans er til leiðbeiningar um útfærslu.

Í þeim tilfellum þar sem nemandi eða starfsmaður finnur til lasleika skal viðkomandi undantekningarlaust vera heima. Reynist smitpróf hjá nemanda eða starfsmanni jákvætt ákveður smitrakningarteymið framhaldið. 

Ég hvet ykkur öll, kæru nemendur og samstarfsfólk, til að kynna ykkur reglulega efni á COVID-19-síðu Háskóla Íslands og nýta ykkur rafræn þjónustuúrræði sem eru til staðar á heimasíðunni undir Netspjall.

Ég veit að þetta eru talsverðar hömlur en ég vona að framangreindar ráðstafanir mæti góðum skilningi. Markmiðið er að draga úr blöndun stórra hópa og að gera smitrakningu auðveldari ef upp kemur smit. 

Höldum ótrauð áfram. Upplýst ábyrgð er sterkasta vopn okkar gegn veirunni. Með sameiginlegu átaki tekst okkur að halda afar mikilvægu starfi Háskóla Íslands gangandi og verum minnug þess að þetta eru einungis tímabundnar ráðstafanir. 

Njótið helgarinnar. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Meðfylgjandi er kveðja rektors til nemenda og starfsfólks
 

Fólk fyrir utan Háskólatorg