Skip to main content
21. október 2020

Kortleggur jarðvá á Reykjanesi

Ármann Höskuldsson er með þekktari jarðvísindamönnum landsins og í hópi þeirra sem oftast er rætt við í fjölmiðlum þegar jörð opnast í eldgosum eða þegar hræringar eiga sér stað í jarðskorpunni. Jarðskjálftar eru alvarlegt fyrirbæri og því mikilvægt að vakta þá stöðugt. Þeir eru nefnilega ekki bara hættulegir einir og sér því þeir eru stundum undanfari eldgosa. 

Undanfarin misseri hefur jörð skolfið á Reykjanesi langt ufram það sem gerist venjulega og fáir staðir á landinu hafa verið jafnvel vaktaðir. Mest hefur jörð skolfið og risið í kringum fjallið Þorbjörn við Grindavík og nú síðast kröftuglega nærri Krýsuvík. Eðlilegt er að fólk sé uggandi yfir jarðhræringum á þessum slóðum. Nærri eru þéttbýlisstaðir, hafnir, iðnaðarmannvirki og samgönguæðar auk stærsta flugvallar landsins sem tryggir langmesta flugumferð til og frá landinu. 

Markmið vöktunar á Reykjanesi og annars staðar er m.a. að mæla hreyfingar á misgengjum og flekaskilum, sem þurfa ekki endilega að tengjast hugsanlegum jarðeldum. Í þessum mælingum er líka metin söfnun á bergkviku í rótum eldstöðva. Af þeim er urmull á Reykjanesi þótt fæstar þeirra hafi bært á sér á síðastliðin árhundruð – þó eru mikil hraun á Reykjanesi sem hafa runnið skömmu eftir landnám. 

Ýmis tækni nýtt til að fylgjast með hættu á Reykjanesi

Ármann, sem er vísindamaður og rannsóknarprófessor við Háskóla Íslands, vinnur nú að rannsókn ásamt samstarfsteymi þar sem metin er áhætta af völdum jarðhræringa á Reykjanesi, ekki síst þar sem þær eru merki um kvikusöfnun fyrir eldgos. Jarðvísindamenn hafa ýmis vopn í sínum fórum til að mæla slíkt og meta. Þannig styðjast þeir t.d. við jarðskjálftamæla sem við heyrum oft talað um í fréttum, jarðskorpuhreyfingar eins og landris og svo eldfjallagas sem getur sagt til um innstreymi kviku í jarðskorpunni. Alls kyns tæki eru tiltæk í þetta en nýtt er að styðjast við fjarkönnun og mæla breytingar og landris með gervitunglum. 

Annað sem er alveg nýtt er að hagnýta sér alls kyns upplýsingar og smíða hermilíkön í tölvum sem eru svo fóðruð með þessum upplýsingum sem fengnar eru úr sífelldri vöktun auk talna úr jarðsögulegum rannsóknum. Ármann Höskuldsson og rannsóknahópur hans hagnýta sér þannig upplýsingatæknilega nálgun í verkefninu þar sem brotakennd gögn greinast áfram í heilsteyptar og áreiðanlegar spámyndir. 

„Við vinnum eftir aðferðum sem geta lagt tölfræðilegt mat á atburði út frá jarðfræðilegum gögnum,“ segir Ármann. „Þannig er hægt að fá út líklegustu svæði hvar eldur getur komið upp. Frá þeim gögnum er síðan notast við hermilíkön til að meta hvert gosefni fara helst út frá gossprungum framtíðar. Þannig fást út helstu bráðaáhættusvæði á Reykjanesi.“

Gríðarlega mikilvægar rannsóknir

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þessara rannsókna því ef unnt er að kortleggja mestu bráðasvæðin aukast líkur á að unnt sé að bjarga mannvirkjum og treysta öryggi manna og bústofns. Einnig gefa niðurstöður mynd af því hvar eigi að byggja og hvar ekki. „Niðurstöður verkefnisins voru notaðar til að greina helstu vásvæði síðastliðinn vetur þegar jarðhræringar hófust við Grindavík,“ segir Ármann og bætir því við að niðurstöður lofi góðu og sýni fram á gagnsemi aðferðarfræðinnar. „Eftir að grunnmat hefur farið fram í fyrsta sinn er það notað samfara nýjum upplýsingum til að meta helstu uppkomusvæði á hrauni svo að dæmi sé tekið.“

Ármann kann vel við sig á Reykjanesi enda segir hann þar nærtækan efnivið og stutt að fara fyrir vísindamenn úr Reykjavík til að staðfæra og ganga úr skugga um tæknimál á hverjum tíma. „Þá er Reykjanesið einnig þéttbýlasta eldfjallasvæði landsins.“

Ármann segir að þessi aðferð sé þó alls ekki bundin við Reykjanesið því sambærileg tækni sé í notkun í Vestmannaeyjum sem er eini þéttbýlisstaður landsins þar sem jörð hefur opnast í eldgosi en það var árið 1973.

Kveikjuna að rannsókninni má rekja áratug aftur í tímann þegar vinna hófst við mat á eldfjallavá á Hengilssvæðinu. „Hins vegar fór hugsunin virkilega af stað,“ segir Ármann, „með Evrópuverkefnum sem nefndust Vetools árið 2013 og EVE þremur árum síðar. Þá loksins varð aðferðarfræðin skýrari og tölvutæknin megnug þess að leysa málin.“

Ármann Höskuldsson hefur sinnt rannsóknum víða á landinu og leiddi t.d. vettvangsrannsóknir í eldgosunum í Heklu aldamótaárið, í Eyjafjallajökli árið 2010 og Grímsvötnum ári síðar. Þá stóð hann vaktina í Holuhrauni árið 2014 til 2015. Hér er hann við rannsóknir í hinu heimsfræga gosi í Eyjafjallajökli. MYND/RAX

Vill þekkja landið betur og þess dynti

Það er stórskemmtilegt að spjalla við Ármann um jarðvísindi því hann persónugerir flest allt í umhverfi sínu og færir oft viðfangsefni sín í lifandi myndir. Þess vegna er hann vinsæll og góður kennari. Hann talar um vísindi á mannamáli. „Hvaða gildi hefur þessi rannsókn fyrir vísindin almennt og samfélagið í heild,“ segir hann og endurtekur spurningu sem að honum er beint. „Nú auðvitað að þekkja betur landið sitt og þess dynti, það hefur klárlega gildi fyrir samfélagið. Hvað vísindasamfélagið varðar hjálpar þetta okkur til að skilja betur virkni flekamótanna sem liggja þvert yfir landið okkar og gefur okkar annað sjónarhorn á eldvirkni landsins.“

Stóð vaktina í Holuhrauni

Ármann er fæddur árið 1960 og hefur doktorsgráðu í eldfjallafræði, jarðefnafræði og bergfræði frá Universite Blaise Pascal, Clermont-Ferrand í Frakklandi. Hann hefur rannsakað fjölmörg eldgos og ekki síður aðdraganda þeirra. „Ég hef áhuga á eldvirkni almennt og ég vil öðlast skilning á þróun Íslands í samhengi við opnun Atlantshafsins. Þegar maður býr á Íslandi getur maður ekki aðskilið þessa tvo þætti. Betri skilningur á þessu tvennu hjálpar okkur líka til að skilja betur þá áhættu sem við búum við dags daglega í þessu landi.“

Ármann leiddi vettvangsrannsóknir í eldgosunum í Heklu aldamótaárið, í Eyjafjallajökli árið 2010, Grímsvötnum ári síðar og hann stóð svo vaktina í Holuhrauni árið 2014 til 2015. Þar biðu margir með öndina í hálsinum af ótta við að Bárðarbunga, ein stærsta eldstöð í heimi, tæki upp á því að gjósa með fargið Vatnajökul í sjálfri gígöskjunni. Sem betur fór gaus þá „einungis hrauni“ á besta stað en ekki sprengigosi með miklum ofsaflóðum, hrikalegum sprengingum og öskufalli á mælikvarða sem við vart þekkjum. 

„Eldgosið í Holuhrauni var dæmigerður gliðnunaratburður, þar sem kvika leitar upp til yfirborðs og fyllir í sprungur sem myndast í efsta hluta skorpunnar og gott betur, myndar hraun á yfirborði. Merkilegt í þeim atburði var að sjá hvernig kvikan leitaði fyrst upp austan Bárðarbungu og fylgdi síðan eftir gliðnun skorðunnar til norðurs. Skorpan rifnaði eins og pappírsörk,“ segir Ármann. Af þessu lærðu vísindamenn mikið og auðvitað er það helgasta markmið Ármanns og annarra jarðvísindamanna að nýta lærdóma af viðburðum í fortíðinni til að treysta almannaöryggi í landinu í framtíðinni. 

„Við viljum ekkert frekar en að hjálpa við alla ákvarðanatöku þegar til jarðhræringa og eldgosa kemur.“ 

Meira um Ármann Höskuldsson á Vísindavefnum.

Ármann Höskuldsson