Skip to main content
18. júní 2019

Jákvæð áhrif skiptináms og starfsþjálfunar erlendis óumdeild

Erasmus+ Impact Study

Níu af hverjum tíu útskrifuðum háskólanemum telja að þekking og reynsla sem þau hlutu í skiptinámi eða starfsþjálfun á vegum Erasmus+ nýtist þeim í núverandi starfi. Þetta kemur m.a. fram í nýútkomnum skýrslum um áhrif Erasmus+ á háskólasamfélagið. Niðurstöðurnar styðja þannig fyrri rannsóknir sem sýna fram á jákvæð áhrif Erasmus+ á líf og starf nemenda. Þá kemur fram að Erasmus+ áætlunin efli nýsköpun og jöfn tækifæri innan háskólasamfélagsins.

Á undanförnum árum hefur fjöldi nemenda við HÍ sem fara í starfsþjálfun erlendis á vegum Erasmus+ margfaldast en fjöldi skiptinema hefur haldist nokkuð stöðugur. Í rannsókninni kemur fram að 40% nemenda sem fara í starfsþjálfun er boðin staða hjá stofnuninni sem tók á móti þeim í kjölfar þjálfunarinnar.

Rannsóknirnar byggja á svörum tæplega 77 þúsund einstaklinga með og án reynslu af áætluninni - núverandi og fyrrverandi nemenda og starfsfólks í háskólum. Annars vegar er um að ræða rannsókn á áhrifum Erasmus+ stúdenta- og starfsmannaskipta og hins vegar rannsókn á áhrifum Erasmus+ samstarfsverkefna á háskólastigi á nærumhverfið, landsvísu og Evrópu alla. Skýrslurnar má lesa í heild sinni á vef Evrópusambandsins, en helstu niðurstöðurnar eru eftirfarandi:

Erasmus+ stúdenta- og starfsmannaskipti
•    Dvöl erlendis hjálpar 70% Erasmus+ stúdenta að átta sig á hvað þau vilja starfa við í framtíðinni
•    Níu af hverjum tíu stúdentum auka færni sína við að laga sig að breyttum aðstæðum og starfa með fólki með ólíkan menningarlegan bakgrunn
•    Níu af hverjum tíu útskrifuðum háskólanemum telja að þekkingin og reynslan sem þau hlutu erlendis á vegum Erasmus+ nýtist þeim í núverandi starfi
•    40% stúdenta sem fara í Erasmus+ starfsþjálfun er boðin staða hjá stofnuninni sem tók á móti þeim í kjölfar þjálfunarinnar
•    43% háskólakennara tileinka sér nýjar kennsluaðferðir við að taka þátt í Erasmus+ kennslu eða starfsþjálfun
•    80% háskólakennara telja að Erasmus+ stuðli að nýbreytni í námskrárgerð og í náms- og kennsluaðferðum í deildinni þeirra

Erasmus+ samstarfsverkefni
•    85% Erasmus+ verkefna styðja við upplýsinga- og samskiptatækni og hjálpa háskólum við að vinna í stafrænu umhverfi
•    80% háskóla eru betur í stakk búin að takast á við þarfir vinnumarkaðarins og bjóða upp á þverfaglegt nám sem einkennist af nýsköpun og jöfnum tækifærum fyrir fjölbreyttan nemendahóp, þökk sé Erasmus+
•    Þrjú af hverjum fimm verkefnum hjálpa til við að styðja hópa með færri tækifæri í háskólasamfélaginu, og 56% háskóla telja að verkefnin styrki þá í hlutverki sínu að auka lýðræðisfærni nemenda

Erasmus+ Impact Study