Skip to main content
15. október 2021

Jafnrétti og fjölbreytileiki

Jafnrétti og fjölbreytileiki - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (15. október):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Það er ekki sjálfgefið að háskólar njóti trausts en árum saman hefur Háskóli Íslands mælst með efstu stofnunum samfélagsins þegar traust þeirra er metið. Sama gildir um orðspor skólans á alþjóðlegum vettvangi. Jafnrétti er ekki bara eitt af grunngildum Háskólans, það er ein af mikilvægustu undirstöðum þess trausts sem HÍ nýtur meðal íslensku þjóðarinnar. Í nýrri stefnu skólans er rík áhersla lögð á jafnrétti því án þess mun Háskólinn ekki rísa undir forystuhlutverki sínu við sköpun nýrrar þekkingar fyrir íslenskt samfélag. 

Í gær hlaut Háskóli Íslands viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, en hana geta aðeins hlotið þeir rekstraraðilar sem hafa jafnað hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar. Þetta er verulega ánægjulegt og mikilvæg varða á vegferð okkar til að treysta jafnrétti á öllum sviðum innan HÍ. Jafnrétti og fjölbreytileiki eru enda hornsteinar skólans og í raun sjálfbærs samfélags. Það var Eliza Reid sem tilkynnti að HÍ væri í hópi hartnær fjörutíu fyrirtækja, sjö sveitarfélaga og jafnmargra opinberra aðila sem hlytu þessa eftirsóttu viðurkenningu í ár en Félag kvenna í atvinnurekstri (FKA) stendur að Jafnvægisvoginni. 

Í gær var formlega vígð viðbygging við Gamla garð, elsta stúdentagarð Félagsstofnunar stúdenta, hér við Skeifuna í hjarta háskólasvæðisins. Gamli garður var ein fyrsta byggingin í sögu HÍ og hefur komið við sögu gríðarlegs fjölda stúdenta sem stundað hafa nám hér við Háskólann, allar götur frá árinu 1934 til okkar daga. 

Við athöfnina í gær afhjúpaði Isabel Alejandra Díaz, forseti Stúdentaráðs HÍ, listaverk sem tileinkað er hagsmunabaráttu stúdenta í heila öld ásamt Birni Bjarnasyni sem var einmitt formaður SHÍ þegar FS var stofnuð árið 1968. Með þessum nýja stúdentagarði eykst enn mikilvæg þjónusta við nemendur HÍ en við hönnun hússins var hugað sérstaklega að félagslegum þáttum með fjölbreyttum sameiginlegum rýmum. Fellur viðbyggingin einkar vel að upphaflegu byggingunni og sómir sér vel á þessum mikilvæga reit á háskólalóðinni. Á næstunni verður sett upp merki Háskólans á horni reitsins við Hringbraut til marks um að þarna er eitt af meginhliðum háskólasvæðisins.  

Með því að gera góðan háskóla betri aukast gæði starfsins í víðum skilningi. Ný viðhorfskönnun meðal 3. árs nemenda HÍ sýnir að 83 prósent þeirra eru ánægðir eða mjög ánægðir með námið við skólann og vex ánægjan frá síðustu könnun. Þetta er sérstaklega gleðileg niðurstaða í ljósi þeirra áskorana sem stúdentar og starfsfólk hafa glímt við í heimsfaraldri COVID-19 í tæp tvö ár. Þessi niðurstaða er okkur jafnframt hvatning til að gera enn betur. 

Á annað hundrað einstaklingar frá HÍ taka nú þátt í hinu árlega þingi Hringborðs norðurslóða eða Arctic Circle sem fram fer í Hörpu til 17. október. Þeirra á meðal eru um 80 nemendur af fjölbreyttu þjóðerni sem sótt hafa sérstakt námskeið í HÍ sem tengist ráðstefnunni. Markmiðið Hringborðs norðurslóða er að stuðla að samtali um framtíð og þróun norðurskautsins, en víst er talið að mikilvægi norðurslóða muni aukast á næstu áratugum, ekki síst vegna loftslagsbreytinga. Þetta kallast einstaklega vel á við nýja stefnu HÍ sem leggur þunga á mikilvægi loftslagsmála og úrlausnarefni sem þeim tengjast. 

Í dag fer fram hin árlega ráðstefna Menntakvika á vegum Menntavísindasviðs sem leiðir saman fjölda fagfólks og hagsmunaaðila sem láta sig menntun varða. Að þessu sinni eru haldin 280 erindi í 76 málstofum um flest það sem viðkemur uppeldis- og menntavísindum. Menntakvika er öllum opin og er hún rafræn að þessu sinni.  

Fyrir fáeinum árum stóðu Hugvísindasvið HÍ og RÚV fyrir skemmtilegri leit að fegursta orði íslenskrar tungu. Orðið „ljósmóðir“ reyndist hlutskarpast en hátt í níu þúsund manns tóku þátt í kosningunni. Orðið ljósmóðir stendur ekki nærri hjarta þjóðarinnar af ástæðulausu. Mikilvægi ljósmóðurstarfsins er gríðarlegt og menntun í ljósmóðurfræðum ásamt rannsóknum á því sviði hafa reynst afar mikilvæg undirstaða bættrar lýðheilsu. Um þessar mundir er aldarfjórðungur liðinn frá því kennsla hófst við Háskólann á sviði ljósmóðurfræða og ber að fagna því alveg sérstaklega.

Í Aldarsögu Háskóla Íslands, sem var gefin út í tilefni af 100 ára afmæli skólans, segir frá því að þegar Bjarni Pálsson landlæknir réði hina dönsku ljósmóður Margrethe Katarine Magnússen til landsins til að sjá um verklega kennslu og bauð upp á námskeið fyrir yfirsetukonur árið 1761. Tók námið aðeins einn mánuð. Í dag hafa nemendur sem ljúka námi í ljósmóðurfræði numið í heildina í tæpa tvo áratugi. Og árangurinn hefur ekki látið á sér standa því ungbarnadauði á Íslandi hefur farið úr því að vera einhver sá mesti í Evrópu í að verða einn sá minnsti í víðri veröld. Það er ánægjulegt að geta þess að á síðasta fundi háskólaráðs, sem haldinn var í Alþingishúsinu til að minnast 110 ára kennsluafmælis skólans, var samþykkt einróma að heiti Hjúkrunarfræðideildar verði breytt í Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild. 

Kæru stúdentar og samstarfsfólk. Hugum áfram að einstaklingsbundnum sóttvörnum. Þannig verjum við þann mikilvæga ávinning sem náðst hefur. 

Góða helgi. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

forseti stúdentaráðs afhjúpar listaverk