Skip to main content
26. janúar 2021

Íþróttakonur undir miklu álagi vona að þær slasist

Íþróttakonur undir miklu álagi vona að þær slasist - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Yfir helmingurinn af stelpunum sem ég hef tekið viðtal við hefur upplifað augnablik þar sem þær vonuðust til að slasast til þess að losna undan pressunni. Ein sem sleit krossband fagnaði því vegna þess að þá var loksins eitthvað að. Það var búið að pína hana til þess að keppa þrátt fyrir að hún væri að kvarta undan hnénu,“ segir Anna Soffía Víkingsdóttir, félagsfræðingur hjá rannsóknamiðstöðinni við Háskólann á Akureyri og stundakennari þar. Hún vinnur að doktorsritgerð við Háskóla Íslands um kynferðislegt, líkamlegt og andlegt ofbeldi í keppnisíþróttum kvenna, bæði hóp- og einstaklingsíþróttagreinum. 

Anna Soffía fjallar vítt og breitt um reynslu íþróttakvenna og segir að samkvæmt viðtölunum taki íþróttadeildir og sérsambönd ekki nægilega vel á málum þegar þjálfarar hafa farið offari. Flestar kvennanna sem hún hefur rætt við hafa verið í landsliðinu í sinni íþrótt og hafa skarað fram úr vegna þess að þær leggja á sig mikla vinnu til að ná langt. Þær hafa þó margar upplifað þá pressu að æfa og/eða keppa meiddar. Um leið hafa þær þá verið undir það miklu andlegu og líkamlegu álagi í íþróttinni að þær hafa jafnvel orðið fegnar þegar þær hafa meiðst.

Kvennaliðin fá verri þjálfara og dómara og minni bónusa

Anna Soffía hefur þegar rætt við 15 afrekskonur af u.þ.b. 25 sem hún hyggst tala við og miðað við það sem kemur fram í þeim samtölum virðist vera meira um kynjaójafnrétti í hópíþróttum en einstaklingsíþróttum. Konurnar fái skilaboð um að þær þurfi að vera betri en karlar til að standa jafnfætis þeim í raun. Samkvæmt viðtölunum fá konur enn þá verri þjálfara, þurfa að vinna meiri sjálfboðavinnu, fá minni peninga og bónusa og lakari dómarar eru fengnir til að dæma leiki þeirra. 

Kveikjan að rannsókn Önnu Soffíu var #MeToo-bylgjan sem reið yfir samfélagið fyrir nokkrum misserum en þar lýstu konur á ýmsum sviðum samfélagsins því ofbeldi og áreitni sem þær hafa orðið fyrir. Í hópi á Facebook fann Anna Soffía sína fyrstu viðmælendur sem svo bentu henni á fleiri konur. Hún lagði upp með kenningu um fleiri viðfangsefni en #MeToo, ákvað að taka viðtöl og sjá hvert það leiddi hana. Næstum allir viðmælendur hennar hafa upplifað kynferðislega áreitni, allt frá óvelkominni snertingu yfir í nauðgun, andlegt og/eða líkamlegt ofbeldi. Misnotkun valds getur þannig leitt til kynferðislegs ofbeldis.

Anna Soffía bendir á að munur se á hóp- og einstaklingsíþróttum þar sem heilt lið getur haft eitthvert vald gegn þjálfara í krafti fjöldans en einstaklingurinn á erfiðara uppdráttar þegar þjálfari misbeitir valdi sínu. 

Þarf að kenna þjálfurum að fara með vald

Markmiðið með rannsókninni er að niðurstöðurnar nýtist ekki síst þjálfurum til að bæta sig. „Þjálfarar þurfa að átta sig á því mikla valdi sem þeir hafa yfir íþróttamanninum. Eitt það versta við þetta er að þjálfarar átta sig ekki á því áhrifavaldi sem þeir hafa og ég held að það þurfi hreinlega að kenna þeim hvernig þeir eiga að fara með þetta vald. Rannsóknir sýna að þegar um afreksíþróttamann er að ræða sem vill ná árangri leggur hann allt sitt í hendurnar á þjálfaranum,“ segir Anna Soffía. Hún bendir enn fremur á að þjálfarinn sé oftast karlkyns og sé þá eins og pabbi íþróttakvennanna eða stóri bróðir og konurnar treysti honum til að breyta rétt. Stjórnir hjá íþróttafélögum og sérsamböndum beri jafnframt ábyrgð en oft vanti upp á að þær taki á vandamálunum sem upp koma.

Anna Soffía hyggst einnig ræða við þjálfara í rannsókninni. „Mig grunar að vald þeirra sé of mikið sem skapar þá hættuna á misnotkun,“ segir hún. Þá bendir hún á að eitt af vandamálunum hér á landi sé smæðin á Íslandi. Stjórnir velji þjálfara sem einhver hafi mælt með en þegar íþróttakonurnar kvarti hafi stjórnirnar tekið þannig á því að samningur við þjálfara er ekki endurnýjaður en hann ekki rekinn. Afleiðingin verður sú að þjálfarinn er ráðinn skömmu síðar til annars félags. 

Anna Soffía er þakklát íþróttakonunum fyrir að hafa treyst sér til að tala um þessi mál við hana. Hún gerir sér vonir um að þegar rannsóknin verði fullunnin verði stjórnir og þjálfarar og ekki síst iðkendur sjálfir með verkfæri til að sporna gegn þeirri óæskilegu menningu sem getur myndast innan íþrótta. 

Höfundur greinar: Berglind Steinsdóttir, nemi í blaða- og fréttamennsku.

Anna Soffía Víkingsdóttir