Skip to main content
16. nóvember 2020

Íslensku menntaverðlaunin afhent

Íslensku menntaverðlaunin afhent - á vefsíðu Háskóla Íslands

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Hildi Jóhannesdóttur, skólastjóra Dalskóla, Íslensku menntaverðlaunin á Bessastöðum föstudaginn 13. nóvember síðastliðinn. Dalskóli fékk verðlaun í flokknum framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur og var tilefndur fyrir þróun þverfaglegra skapandi kennsluhátta, meðal annars í svokölluðum smiðjum og starfsþróunarverkefni þar sem kennarar rannsaka eigið starf. 

Menntaverðlaununum er ætlað að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á vönduðu skóla- og frístundastarfi. Verðlaunin voru veitt í þremur aðalflokkum auk hvatningarverðlauna og bárust fjölmargar tilnefningar að þessu sinni. Viðurkenningarráð valdi úr tilnefningum og kynnti forval sitt á alþjóðlegum degi kennara í byrjun október. 

Handhafar Íslensku menntaverðlaunanna árið 2020

Verðlaun sem framúrskarandi kennari hlaut Birte Harksen kennari við Heilsuleikskólann Urðarhól í Kópavogi fyrir framúrskarandi kennslu og frumkvæði við að efla skapandi og leikmiðaða starfshætti í leikskólum með vefsvæðunum Börn og tónlist, Leik að bókum og Stafagaldri.

Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni hlaut þróunarverkefnið Smiðjur í Langholtsskóla í Reykjavík sem hefur það markmið að auka veg þverfaglegra viðfangsefna með áherslu á sköpun, lykilhæfni og nýtingu upplýsingatækni í námi.

Hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna hlutu Ingvi Hrannar Ómarsson kennari og frumkvöðull og Utís-hópurinn, sem er lærdómssamfélag brautryðjenda í kennsluháttum, fyrir framúrskarandi stuðning við starfsþróun íslenskra kennara með miðlun framsækinna hugmynda um skapandi skólastarf, nýsköpun og upplýsingatækni þar sem nemandinn er í brennidepli.

Verðlaunafhendingin var með óvenjulegum hætti þetta árið vegna kórónuveirufaraldursins en afhendingin var kvikmynduð. Áhugasamir geta hlýtt á viðtöl við verðlaunahafa í myndbandinu hér að neðan. 

Um Íslensku menntaverðlaunin

Að Íslensku menntaverðlaununum standa embætti forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild), Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. Formaður viðurkenningarráðs verðlaunanna er Gerður Kristný Guðjónsdóttir rithöfundur.

Ráðgert er að opna fyrir tilnefningar til menntaverðlaunanna 2021 í mars á næsta ári. Sjá nánari upplýsingar um verðlaunin á vef Samtök áhugafólks um skólaþróun. 

"Íslensku menntaverðlaunin voru afhent 13. nóvember síðastliðinn. Verðlaunin voru veitt í þremur aðalflokkum auk hvatningarverðlauna og bárust fjölmargar tilnefningar að þessu sinni. MYND/ Kristinn Ingvarsson"