Skip to main content
2. desember 2019

Ísland í Eyjahafinu

Út er komin bókin Ísland í Eyjahafinu eftir Svein Yngva Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Í sjálfstæðisbaráttunni þurftu Íslendingar að ná máli sem fullgild menningarþjóð. Þeir litu þá ekki síst til sögufrægra þjóða eins og Forn-Grikkja um fyrirmyndir. Sigurður Guðmundsson málari setti á svið atriði úr eddukvæðum og fornsögum sem sýndu hetjur í hellenskum stíl. Benedikt Gröndal blandaði saman grískum og íslenskum minnum í skrifum sínum og félagar í Kvöldfélaginu æfðu klassíska mælskulist í kappræðum um þjóðmál. Íslendingar lærðu einnig af öðrum þjóðum að lofsyngja landið í ættjarðarljóðum sem urðu að æðstu tjáningu íslensks þjóðernis. Þannig reynist hið þjóðlega oft vera af alþjóðlegum rótum runnið. Í bókinni er fjallað um þessa og aðra þætti í menningarviðleitni Íslendinga frá 18. og fram á 20. öld.

Hið íslenska bókmenntafélag gefur bókina út.

Sveinn Yngvi Egilsson er höfundur bókarinnar Ísland í Eyjahafinu