Skip to main content
1. júní 2023

Hyggst bjóða upp á námskeið og ráðgjöf við matvendni barna

Hyggst bjóða upp á námskeið og ráðgjöf við matvendni barna - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Í dag er sífellt meiri áhersla lögð á samfélagslegt gildi rannsókna, hvort sem litið er til styrkjaumhverfisins eða stefnu háskóla, þar á meðal Háskóla Íslands. Það er því mikilvægt að rannsóknarniðurstöður og þróunarstarf tengt rannsóknum skili sér í hagnýtingu á einhvern hátt samfélaginu til góða,“ segir Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringafræði á Menntavísindasviði. Hún hlaut á dögunum fyrstu verðlaun í frumkvöðlahraðlinum AWE fyrir verkefni sitt Bragðlaukaþjálfun sem hún hyggst nú færa á næsta stig og bjóða bæði fagfólki og fjölskyldum upp á námskeið og ráðgjöf til að vinna gegn matvendni.

Anna Sigga, eins og hún er alltaf kölluð, hefur undanfarin sex ár unnið að verkefninu en það byggist á rannsóknum hennar og samstarfsfólks á nýjum leiðum til að takast á við matvendni. „Bragðlaukaþjálfun byggist á því að nýta öll skynfæri, leiki og heimaverkefni til að upplifa og læra að njóta fjölbreytts matar. Upphaflega verkefnið fólst í íhlutun í skólaumhverfi og þjálfun fyrir foreldra. Þar tókst okkur að sýna góðan árangur af meðferðinni fyrir börn með og án taugaþroskaraskana, svo sem raskanir á einhverfurófi og ADHD, og fjölskyldur þeirra. Það dró úr matvendni til skemmri og lengri tíma auk þess sem börn samþykktu fleiri fæðutegundir, m.a. grænmeti, og streita og vandi í kringum máltíðir minnkaði. Þá voru vísbendingar um að ánægjan af mat hefði aukist en það er áhrifaþáttur í tengslum við hollustu sem hefur fyrst nýlega fengið aukna athygli í rannsóknum,“ segir Anna Sigga um niðurstöður rannsókna hennar og Sigrúnar Þorsteinsdóttur, sem vann að verkefninu í doktorsnámi sínu. 

Anna Sigga

Fá fjölda beiðna um hjálp frá ráðþrota fólki

Anna Sigga og samstarfsfólk hefur því þegar hjálpað stórum hópi fólks í gegnum rannsóknir en hún segir að reglulega fái þær beiðnir um aðstoð frá ráðþrota fjölskyldum, heilbrigðisstarfsfólki og skólum. „Þegar ég sá AWE-frumkvöðlahraðalinn auglýstan vakti það strax áhuga minn þar sem ég sá tækifæri til að vinna að lausn til að bjóða þjónustu byggða á rannsóknunum og fá þar til þess þau verkfæri og stuðning sem mig vantaði. Mér finnst bæði gaman og nauðsynlegt að bæta við mig færni og þekkingu og netnámskeiðið og vinnuloturnar í AWE buðu sannarlega upp á það,“ segir Anna Sigga, aðspurð um það hvers vegna hún tók þátt í hraðlinum.

AWE-hraðallinn, sem er stytting á Academy for Women Entrepreneurs og er í boði víða um heim á vegum bandarískra stjórnvalda, er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi. Markmið hans er að styðja konur í að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar og fyrirtæki og auka hlut þeirra innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans. 

Hraðallinn stóð algjörlega undir væntingum

Hraðallinn var nú í boði í þriðja sinn og alls voru yfir 20 konur valdar til þátttöku að þessu sinni. Allir þátttakendur luku Dreambuilder, vefnámskeiði á vegum Arizona State háskólans í Bandaríkjunum, og tóku jafnframt þátt í vinnulotum sem Háskóli Íslands stóð fyrir í samvinnu við reynslumiklar konur úr íslensku atvinnu- og nýsköpunargeira.

„Ætlunin er að bjóða upp á námskeið og þjálfun fyrir kennara og heilbrigðisstarfsfólk sem vill nýta aðferðirnar í sínu starfi auk þess að geta boðið fjölskyldum námskeið og persónulega ráðgjöf,“ segir Anna Sigga sem er hér ásamt öðrum verðlaunahöfum í AWE-hraðlinum. MYND/Gunnar Sverrisson

Anna Sigga segir að AWE-hraðalinn hafi algjörlega staðið undir hennar væntingum. „Í hraðlinum vann ég að viðskiptaáætlun sem ég ætla að hrinda í framkvæmd nú í sumar. Það var flottur stígandi í námskeiðinu þar sem netnámskeiðið Dreambuilder frá Arizona-háskóla er þannig uppbyggt að í hverri námslotu bætist við áætlunina út frá þeim námsþætti sem tekinn er fyrir hverju sinni. Þá voru vinnuloturnar á vegum HÍ enn frekar til þess fallnar að hvetja mig áfram, ekki síst af samtalinu við aðrar konur sem tóku þátt með sínar fjölbreyttu og flottu hugmyndir – samfélagið og tengslanetið sem byggist upp er mjög verðmætt. Þá má ekki gleyma ómetanlegu framlagi kvennanna sem héldu utan um hraðalinn og hvöttu okkur áfram. Auk þess að miðla af sinni þekkingu og reynslu tengdu þær okkur við sitt net reynslumikilla kvenna í nýsköpun þar sem boðið var upp á handleiðslu og samtöl. Ég fer því reynslunni ríkari inn í áframhaldandi vinnu og veit að ég get áfram leitað stuðnings og hvatningar í tengslanetinu,“ segir Anna Sigga um þátttöku sína. 

Matvendni og fæðuuppeldi miklu flóknara en ætla mætti

Sem fyrr segir hlaut Anna Sigga fyrstu verðlaun fyrir viðskiptahugmyndina í kringum Bragðlaukaþjálfun í hraðlinum. Aðspurð hvernig hún sjái Bragðlaukaþjálfunina þróast áfram segist Anna Sigga vilja byggja upp þjónustu byggða á þverfaglegri og gagnreyndri þekkingu sem rannóknateymið hennar hefur þegar lagt grundvöll að auk þess að stuðla að þróun í þekkingaöflun með áframhaldandi rannsóknum. Einn liður í frekari rannsóknum tengist doktorsverkefni sem Berglind Lilja Guðlaugsdóttir vinnur nú undir leiðsögn Önnu Siggu og miðar að því að vinna gegn matvendni meðal leikskólabarna. Verkefnið verður unnið í nánu samstarfi við leikskóla víða um land.

graenmeti

„Matvendni og fæðuuppeldi er miklu flóknara fyrirbæri en ætla mætti við fyrstu sýn og það getur skipt sköpum hvernig við nálgumst vandann enda er matur rauður þráður í lífi fólks og hefur ekki síður áhrif á andlega líðan og félagslegt gildi máltíða umfram þá beinu skírskotun sem næringin hefur fyrir líkamlegt heilsufar. Ætlunin er að bjóða upp á námskeið og þjálfun fyrir kennara og heilbrigðisstarfsfólk sem vill nýta aðferðirnar í sínu starfi auk þess að geta boðið fjölskyldum námskeið og persónulega ráðgjöf. Af fjölda fyrirspurna og athygli sem rannsóknir okkar og námskeið þeim tengd hafa fengið, bæði frá almenningi og fagfólki hérlendis og á alþjóðavettvangi, er ljóst að áhugi og eftirspurn er mikil. Ég er svo heppin að með mér er starfandi þverfaglegt og reynslumikið teymi sem brennur fyrir verkefninu. Fram undan eru því spennandi tímar,“ segir Anna Sigga full tilhlökkunar.

Finna verði rannsóknarniðurstöðum farveg í samfélagi

Anna Sigga er ekki aðeins afar afkastamikill vísindamaður og frumkvöðull heldur hefur hún alla tíð lagt mikla áherslu á miðlun sinna rannsókna, m.a. í gegnum sjónvarpsþáttaröðina Nærumst og njótum sem sýnd var á RÚV í fyrra og með reglulegum innkomum og pistlum í fjölmiðlum. 

Hún undirstrikar að mikilvægt sé að afrakstur rannsókna nýtist samfélaginu með einhverjum hætti. „Þetta hlutverk er í raun sérlega vel orðað í stefnu HÍ þar sem segir: „Þekkingarsköpun við skólann styður samfélagið við að takast á við margvíslegar áskoranir, allt frá umhverfisbreytingum, náttúruvá og örum tæknibreytingum til margvíslegrar ógnar við heilsu og velferð fólks“. Það er kostnaðarsamt að stunda rannsóknir en auk þess fer í það mikill tími, elja og ástríða að hálfu rannsakenda. Rannsóknarniðurstöður mega því ekki verða endapunktar í formi ritrýndra birtinga heldur þarf að finna þeim farveg svo þær séu nýttar áfram,“ segir hún að endingu.

Anna Sigríður Ólafsdóttir