Skip to main content
30. ágúst 2022

Hvernig vegnar nýútskrifuðum konum í kennslu í starfi?

Hvernig vegnar nýútskrifuðum konum í kennslu í starfi? - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Það eru áhyggjur í samfélaginu af brotthvarfi kennara úr starfi og meðal annars því að ungir kennarar staldri stutt við. Stundum færist umræðan út í að hafa meiri áhyggjur af því að það vanti karla en konur í kennslu en það er auðvitað þannig að ef það vantar kennara er lítið spurt um kyn eða aldur – heldur hvort þú getir unnið með börnunum eða unglingunum sem vantar kennara,“ segir Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Deild menntunar og margbreytileika. Hann rannsakar ásamt samstarfskonum sínum hvernig nýútskrifuðum konum vegnar fyrstu tvö árin í starfi sem grunnskólakennarar og að hvaða leyti reynsla þeirra í grunnskólum er tengd hugmyndum samfélagsins um kyn og kynhlutverk.

„Grunnskólakennarastarf gerir faglegar kröfur af margvíslegum toga, til dæmis að geta sinnt margvíslegum verkefnum sem fela í sér umhyggju fyrir nemendum. Ég lít svo á að umhyggja sé faglegt gildi og að kennarar af hvaða kyni sem er þurfi að búa yfir vinnubrögðum sem umhyggjan krefur þau um. Nokkuð rík tilhneiging er til þess í orðræðu um skólastarfið að segja að umhyggjusemi sé eðlislægur eiginleiki kvenna og þær því betur til þess fallnar að kenna ungum börnum. Við munum svolítið fara yfir þetta í rannsókninni,“ útskýrir Ingólfur.

Sambærileg rannsókn hefur áður verið gerð þar sem sjö nýbrautskráðum körlum í kennslu var fylgt eftir í tvö ár með fimm viðtölum og hafa birst um þá rannsókn þrjár fræðigreinar auk fjölmargra erinda. „Viðtalsrannsóknin við nýjar konur í kennslu er hliðstæð þeirri fyrri í því að fylgja þeim í tvö skólaár. Með henni eru sameinuð tvö svið: Kenningar um kyngervi og kenningar um nýliða og nýliðun í kennarastarfi og hér er verið, eins og í rannsókninni um karla í kennslu, að styðjast við báðar tegundir kenninga og rannsókna sem er nokkur nýlunda í nýliðarannsóknum,“ bendir Ingólfur á.

Konum á nokkrum stöðum fylgt eftir

Rannsóknin hefur hlotið þriggja ára styrk frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Auk Ingólfs koma þær Valgerður S. Bjarnadóttir, lektor við Menntavísindasvið, Maríanna Jónsdóttir Maríudóttir, grunnskólakennari við Urriðaholtsskóla, og Aðalheiður Anna Erlingsdóttir, kennaranemi við Háskólann á Akureyri, að rannsókninni, en sú síðastnefnda mun nota hluta af viðtölunum sem gögn við meistararannsókn sína.

Rannsóknin hófst haustið 2021 og gert er ráð fyrir að henni ljúki vorið 2023. Hún spannar því tvö skólaár og á því tímabili verða tekin viðtöl við ungar og nýlega brautskráðar konur í kennslu á nokkurra mánaða fresti. „Ellefu konur mættu í fyrsta viðtal sem ýmist fór fram í skólanum þeirra eða utan skólans, eða TEAMS-forritið var notað. Þessar konur starfa á nokkrum svæðum á landinu í fjölbreyttum tegundum skóla,“ segir Ingólfur og bætir við að fyrstu niðurstaðna rannsóknarinnar megi vænta á ráðstefnunni Menntakviku í byrjun október. „Frekari niðurstöður verða svo birtar á ráðstefnum og í vísindagreinum og notaðar í kennaramenntunarnámskeiðum.“

Hvernig er stutt við nýliða í skólum?

Aðspurður um þýðingu rannsóknarinnar bendir Ingólfur á að aðstandendur hennar telji að með ítarlegum og endurteknum viðtölum megi öðlast betri skilning á hvað í starfinu er hvetjandi fyrir unga kennara og hvað það er sem mætti laga – hvort sem það er almenns eðlis eða hvort það er hindrun sem sérstaklega stendur í vegi ungu kvennanna. 

„Eitt af því sem við skoðum sérstaklega er hvernig leiðsögn og stuðningur við nýliðana fer fram í skólunum. Ætlunin er að nýir kennarar hafi sérstakan leiðsagnarkennara. Í fyrri rannsókn með nýju körlunum í kennslu kom fram að fæstir þeirra höfðu leiðsagnarkennara og í öðrum rannsóknum hefur komið fram að það er staðið að því með ólíkum hætti. Og í þeim tilvikum þar sem er formlegur leiðsagnarkennari er líka ástæða til að rannsaka hver er árangurinn af leiðsögninni og hvernig hann má bæta,“ segir Ingólfur.

Fjölbreytt rannsóknareynsla

Ingólfur hefur bæði starfað sem prófessor við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri og hefur bæði doktorspróf í menntavísindum og cand.mag.-próf í sagnfræði. Rannsóknir hans spanna fjölbreytt svið menntavísinda, en þær snerta m.a. menntastefnu, menntaumbætur, námskrár, kennsluaðferðir í framhaldsskólum, skólasögu og einnig orðræðu um náttúruvernd og útivist.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson