Skip to main content
27. apríl 2023

Hvernig breytist tungutak okkar við ólíkar aðstæður?

Hvernig breytist tungutak okkar við ólíkar aðstæður? - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Þegar við tölum má segja að við séum að markaðssetja okkur og það hvernig við breytum máli okkar eftir því í hvaða stöðu við erum, viljum vera í eða bara hvernig við viljum að aðrir sjái okkur segir okkur heilmikið um tungumálið sjálft,“ segir Lilja Björk Stefánsdóttir, doktorsnemi í íslenskri málfræði, sem kortleggur hvernig fólk breytir máli sínu á lífsleiðinni og hvaða félagslegu þættir hafa áhrif á það. Í rannsókninni nýtir hún máltækni til að fara í gegnum gríðarmikil gögn sem til eru um mál íslenskra þingmanna. 

Þessi gögn eru til í svokallaðri Risamálheild sem hefur að geyma gífurlegt magn textasafna, þar á meðal málgögn um þingmenn. „Tilvist þessara gagna veitir rannsókninni minni þá sérstöðu að geta byggt á afar hárri tímaupplausn en með tímaupplausn á ég við fjölda aflestra á tímaás sem rannsóknin byggist á. Það er algengt að sambærilegar rannsóknir byggist á aðeins tveimur til þremur tímabilum í lífi einstaklingsins en þökk sé Risamálheildinni og nýjustu framförum í máltækni get ég byggt rannsóknina mína á margfalt ítarlegri málgögnum en almennt hefur tíðkast,“ bendir hún á.

Rýnt í breytingar á máli Steingríms J. og Helga Hrafns pírata

Lilja segist lengi hafa haft áhuga á félagslegri hlið tungumálsins. „Áhugi minn liggur fyrst og fremst á sviði félagsmálvísinda og því að skilja hvernig viðhorf til tungumáls mótar það hvernig fólk talar. Inn í þetta blandast flest svið málvísinda, s.s. rannsóknir á málbreytingum, mál- og setningafræði og þróun tungumála,“ segir Lilja.

Sjónir Lilju beindust að máli þingmanna strax í BA-námi í íslensku því lokaverkefni sínu rannsakaði hún breytingar í framburði Helga Hrafns Gunnarssonar, þáverandi þingmanns Pírata. „Ég greindi áhugaverðar breytingar í framburði hans sem ég setti í samhengi við breytingar á félagslegri stöðu Helga Hrafns,“ segir Lilja.

Aðalkveikjan að doktorsrannsókninni var hins vegar verkefni sem hún vann ásamt leiðbeinanda sínum, Antoni Karli Ingasyni, dósent í íslenskri málfræði og máltækni, á breytingum í máli Steingríms J. Sigfússonar, fyrrverandi alþingismanns, ráðherra og forseta Alþingis. „Í þeirri rannsókn notuðum við svipaðar aðferðir og ég nota núna og það má í rauninni segja að doktorsrannsóknin sé framhald af þeirri rannsókn og mun stærri í sniðum, eðli málsins samkvæmt,“ útskýrir Lilja en auk Antons eru þau Laurel MacKenzie, dósent í félagsmálvísindum við New York University, Einar Freyr Sigurðsson, rannsóknarlektor hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Ásgrímur Angantýsson, prófessor í íslenskri málfræði, í doktorsnefnd hennar. 

Steingrímur formlegri í ráðherraembætti en stjórnarandstöðu

En í hverju skyldi rannsóknin felast? „Líkt og tíðkast í rannsóknum á málbreytingum og tilbrigðum í máli einblíni ég á tilteknar málfræðilegar breytur, þ.e. málfræðileg atriði þar sem hægt er að segja það sama á tvo vegu. Breyturnar sem eru til rannsóknar eru stílfærsla og frásagnarumröðun en þessar breytur eru oft notaðar í formlegu máli og tengjast þannig muninum á formlegu og óformlegu máli. Í rannsókninni legg ég áherslu á svonefnda stílhliðrun (e. style-shift) sem vísar til þess þegar einstaklingur breytir máli sínu í átt að formlegra málsniði við ákveðnar aðstæður,“ segir Lilja. Hún nefnir sem dæmi að ýmist sé hægt að segja „fólk sem er til rannsóknar“ eða „fólk sem til rannsóknar er“ en hið síðarnefnda er formlegra og þar með dæmi um stílhliðrun.

Í rannsókninni hyggst Lilja kortlegga notkun þessara breytna hjá hverjum og einum þátttakanda en það veitir upplýsingar um hvernig mál viðkomandi hefur þróast á lífsleiðinni. „Eins og áður segir nota ég aðferðir úr máltækni við að sækja kerfisbundið þau dæmi úr Risamálheildinni sem ég vinn með í greiningu og þetta mun gefa skýra mynd af þeim breytingum sem verða í máli þeirra sem ég rannsaka frá ári til árs. Ég notast einnig við eigindlegar rannsóknaraðferðir til að ná fram eigindlegri dýpt af hverjum og einum málhafa,“ segir Lilja. Í því felst að taka viðtöl við þau sem eru til rannsóknar ásamt því að gera ítarlega greiningu á stjórnmálaferli þeirra enda ganga eigindlegar rannsóknaraðferðir út á að reyna að fá dýpri skilning á t.d. ástæðum tiltekinnar hegðunar.

Gagnaöflun og greining gagna stendur enn yfir og því liggja niðurstöður doktorsrannsóknarinnar ekki fyrir en Lilja bendir á að í fyrrnefndri rannsókn á máli Steingríms J. Sigfússonar hafi komið fram tengsl milli breytinga á félagslegri stöðu og breytinga í málnotkun hjá þingmanninum fyrrverandi. „Í tilfelli Steingríms jókst tíðni formlegra tilbrigða þegar hann gegndi ráðherrastöðu og lækkaði svo aftur þegar hann var í stjórnarandstöðu. Það verður því fróðlegt að sjá hvernig breytingar, hvað varða t.d. ábyrgðarhlutverk, koma fram í máli annarra þingmanna,“ bætir Lilja við.

En hvaða þýðingu hafa rannsóknir sem þessar fyrir okkur? Lilja bendir á að því meira sem við vitum um tungumálið, því betra. „Rannsóknir á tungumálinu snúast ekki bara um að þekkja hvaða villur eru algengastar og af hverju fólk gerir þær heldur líka að vita hvernig við mótum tungumálið, t.d. út frá viðhorfum annarra. Málfarslegir fordómar eru verulegt vandamál víða um heim og á Íslandi er þetta líka vandamál. Ef við vitum hvernig fólk aðlagar mál sitt þegar það vill hljóma „fínt“ eða þegar það er að tala sig inn í ákveðið hlutverk vitum við um leið hvað þykir ekki eins fínt. Ég vil varpa ljósi á þessa hluti og um leið reyna að skilja hvers vegna við myndum okkur skoðanir um fólk út frá því hvernig það talar,“ segir Lilja.

Lilja Björk Stefánsdóttir