Skip to main content
4. júlí 2019

Hnúfubakurinn er hér allt árið öfugt við það sem ætlað var

""

Hvalurinn hefur líklega alltaf heillað manninn sökum stærðar sinnar og lífsins í myrkum undirdjúpum og jafnvel sökum óvenjulegrar greindar. Þessir þættir hafa meðal annars fært hvalinn á stall í ferðaþjónustu og ekki síður í skáldskapnum. Margir hafa notið þess að lesa um Moby Dick, risahvalinn hvíta sem dró þá sem ætluðu sér að drepa hann djúpt niður í sjávardjúpin.

En hvalir höfða líka til vísindamanna og er Edda Elísabet Magnúsdóttir, aðjunkt við Háskóla Íslands, í hópi þeirra. Rannsóknir hennar snúast um atferli dýranna en vísindamenn skoða hvali frá býsna ólíkum sjónarhornum. Hvalir hafa án efa verið í hafinu við Ísland í þúsundir ára en þeir hafa verið taldir til hlunninda á Íslandi frá landnámi. Líklegt er að landnámsmenn hafi getað skutlað hval enda talsvert vikið að hvalnum í fornum heimildum. Í sautján Íslendingasögum eru lýsingar á samskiptum manna og hvala á fyrstu árum byggðar. Orðið hvalreki er enn notað um góðan feng en til forna þýddi það í raun að heilt búr af mat hefði rekið á land. Til forna skipti því afar miklu hvernig menn höguðu nýtingu hvalrekans en í lögbókinni Jónsbók frá árinu 1281 er svokallaður Rekabálkur þar sem meðal annars er fjallað um hvalreka. Það er magnað að þessi fornu ákvæði Rekabálks um hvalreka séu enn grundvöllur gildandi laga á Íslandi.

Spendýr sem hafa aðlagast lífi í sjó
Hvalir eru spendýr sem hafa aðlagast lífinu í sjónum gríðarvel en þeir skiptast í skíðishvali og tannhvali. Hvalategundir eru um áttatíu og vísindamenn telja líklegast að þær séu komnar af sameiginlegum forföður sem leitaði aftur í sjó fyrir um 55 milljónum ára.  Hvalir geta verið frá tæplega einum og hálfum metra og ríflega 50 kílóum upp í allt að 34 metra löng og 190 tonna ferlíki eins og steypireyður sem er stærsta dýr jarðarinnar. 

Hnúfubakurinn, sem Edda Elísabet Magnúsdóttir rannsakar, er ekki heldur nein smásmíði frá náttúrunnar hendi. Hnúfubakurinn er gjarnan um og yfir þrettán metra langur, kvendýrin vega allt að 48 tonn og karldýrin er sýnu léttari en samt allt að 35 tonn. Hnúfubakurinn skákar okkur manninum einnig hvað lífslíkur varðar en hann getur orðið hartnær hundrað ára gamall og hefur samt engan aðgang að lyfjum.

Hnúfubakurinn er við Ísland allt árið
„Rannsóknin mín snýr að atferlisvistfræði hnúfubaka með tilliti til lífsögu þeirra í Norður-Atlantshafi,“ segir Edda Elísabet. „Í rannsókninni mun ég leita svara við því hvers vegna hnúfubakar dvelja við Ísland að því er virðist allan ársins hring, hvað þeir gera í vetrarmyrkrinu, hvert líkamsástand þeirra er á þessum árstíma og á öðrum, ég mun reyna að svara því hvort þeir geti mögulega æxlast hér og úr hvaða fæðuþrepi þeir sæki helst fæðu sína.“

Hnúfubakur hefur verið skilgreindur sem fardýr enda útbreiddur um öll heimsins höf, allt frá hitabeltinu að ísjaðrinum á heimskautasvæðunum báðum. Hann hættir sér þó ekki undir ísinn því hann þarf að koma upp til að draga andann eins og flestir vita. Samkvæmt kenningum fræðimanna á hnúfubakurinn að halda sig á köldum hafsvæðum eins og við Ísland við fæðunám að sumarlagi en ferðast eins og farfuglarnir til hlýrri svæða síðla hausts eða í byrjun vetrar til að æxlast. Edda Elísabet hefur aðra og spennandi sögu að segja.

„Farhegðun hnúfubaka, sem sjást við Ísland, stangast á við það sem fræðin hafa haldið fram um þessa tegund og virðist sem um breytt atferli sé að ræða,“ segir hún. „Þessi þekking mun spila veigamikinn þátt í skilningi okkar á kænsku stórhvela til að aðlaga sig að breyttum umhverfisaðstæðum sem og þætti þeirra í vistkerfi Íslenskra hafsvæða á ársgrundvelli.“

Uppgötvaði breytta hegðun hnúfubaka í doktorsnáminu
Í doktorsnáminu hóf Edda Elísabet rannsókn á viðveru hvala við Norðausturland yfir allt árið með notkun hljóðupptökutækja. „Á upptökum frá þeim þremur vetrum sem rannsóknin stóð yfir, uppgötvaði ég að yfir háveturinn höfðust hnúfubakar hér við, syngjandi dag og nótt. Hnúfubakstarfar syngja á æxlunartíma að vetri til á suðrænun æxlunarstöðvum og því hefur þessi hljóðhegðun verið tengd við æxlunaratferli,“ segir Edda Elísabet.  

Doktorsverkefnð tók því nýja stefnu og snerist nú alfarið um sönghegðun hnúfubaka á búsvæði þeirra við Ísland. „Það sem vantaði upp á var nánari könnun á því hvað annað þeir væru að gera en að syngja. Spurningar eins og hvaða einstaklingar eru þetta, eru þeir kynþroska, eru kvendýr á meðal söngvaranna og hafa þeir þá möguleika á að makast. Er Ísland æxlunarstöð? Það varð ljóst að þessum spurningum yrði að svara enda bentu niðurstöður doktorsverkefnisins til annarrar lífsögu en við höfum þekkt meðal hnúfubaka.“
 

„Þessi rannsókn sem ég vinn nú að veitir nýja þekkingu á atferlisvistfræði stórhvela sem snýr að aðlögun hegðunar að breyttum umhverfisskilyrðum. Þessi þekking gefur okkur betri innsýn í möguleika stórhvela almennt til að aðlaga æxlunar- og fæðuöflunarstrategíu sína að umhverfinu. Rannsóknin veitir jafnframt mun betri þekkingu á hlutverki hnúfubaka í vistkerfum Íslands og þeim fæðuvenjum sem tilheyra okkar hafsvæði. Þessi þekking er verulega gagnleg fyrir sjávarútveginn en jafnframt ferðaþjónustu í hvalaskoðun enda byggir hún á því á að efla þekkingu ferðamanna á þessum einstöku sjávarspendýrum við Ísland,“ segir Edda Elísabet.

Óbilandi áhugi á hvölum
„Áhugi minn á líffræði hvala er vissulega óbilandi en þekking okkar, þá sér í lagi hér við Ísland, er afskaplega takmörkuð og því brýnt að auka hana. Hvalir eru krefjandi viðfangsefni og alls ekki auðveldustu dýrin til að rannsaka. En tækninni fleytir fram sem gerir okkur kleift að gera meira í þeim efnum núna en fyrir nokkrum árum. Í doktorsverkefni mínu komumst við á sporið varðandi nýja þekkingu á hvalategund sem síðustu ár hefur orðið æ meira áberandi við landið. Líklega er hnúfubökum að fjölga við Ísland og því brýnt að skilja þessa tegund vel og hlutverk hennar í vistkerfi íslenskra hafsvæða.“

Edda Elísabet segir að rannsóknin sín sé nýlega hafin og gagnaöflun því rétt að byrja. Verið er að safna lífssýnum úr hnúfubökum frá fjórum árstíðum, frá vetri, vori, sumri og hausti. „Lífsýnin, húð og fita, munu segja til um kyn, frjósemisstöðu hvalanna, hvort þeir séu undir líkamlegu álagi og hvað þeir éta,“ segir Edda Elísabet.

Í vetur verða festir sérstakir ritar á hvalina með sogskál sem hangir á dýrinu í sólarhring eða svo en fellur svo af. „Þessi riti, sem einnig er hljóðupptökutæki, skráir allar hreyfingar og hljóðmyndun merktra einstaklinga í sólahring í senn. Einnig er fylgst með atferli hvalanna frá yfirborðinu og teknar myndir af sporði og bakugga sem gerir okkur kleift að þekkja þá sjónrænt í sundur. Með þessu móti munum við dýpka skilning okkar á atferlisvistfræði þessara hvala svo um munar.“

Afkastamikill vísindamaður sem unnir náttúrunni
Þrátt fyrir ungan aldur er Edda Elísabet gríðarlega afkastamikill vísindamaður og vinsæll kennari og vísindamiðlari til barna. Hún hefur kennt í mörg ár í Háskóla unga fólksins og í Háskólalestinni sem fer vítt og breytt um landið með fjör og fræði. Auk fjölbreyttra rannsókna á sjávarspendýrum er hún einnig frumkvöðull og hefur unnið við nýsköpunarverkefni sem miða að því að miðla upplýsingum um hvalahljóð til ferðamanna í formi hljóðbókar. 

„Þessi rannsókn sem ég vinn nú að veitir nýja þekkingu á atferlisvistfræði stórhvela sem snýr að aðlögun hegðunar að breyttum umhverfisskilyrðum. Þessi þekking gefur okkur betri innsýn í möguleika stórhvela almennt til að aðlaga æxlunar- og fæðuöflunarstrategíu sína að umhverfinu. Rannsóknin veitir jafnframt mun betri þekkingu á hlutverki hnúfubaka í vistkerfum Íslands og þeim fæðuvenjum sem tilheyra okkar hafsvæði. Þessi þekking er verulega gagnleg fyrir sjávarútveginn en jafnframt ferðaþjónustu í hvalaskoðun enda byggir hún á því á að efla þekkingu ferðamanna á þessum einstöku sjávarspendýrum við Ísland,“ segir Edda Elísabet og bætir því við að allar rannsóknir séu undirstaða samfélaga. 

„Þá gildir einu hvort rannsóknir eru á sviði náttúruvísinda, félagsvísinda, raunvísinda, hugvísinda, lista eða annarra greina. Með rannsóknum eflum við nýsköpun og aukum verðmæti en bætum jafnframt skilning okkar á öllum þeim viðfangsefnum sem tekin eru fyrir.“

Edda Elísabet segir að þegar komi að rannsóknum á náttúrunni safnist saman mikilvæg þekking sem geri okkur betur kleift að meðhöndla náttúruna á sífellt skynsamlegri máta. „Það hefur sjaldan verið jafn brýnt og nú,“ segir hún og hleypir í brýnnar. „Við höfum gengið á auðlindir jarðar og valdið lífríkinu gífurlegum skaða, m.a. í formi mengunar, búsvæðaeyðingar, með innflutningi á ágengum tegundum og hækkandi hitastigi jarðar. Við sjáum afleiðingarnar í formi útdauðabylgju tegunda sem er sú sjötta frá upphafi lífs á jörðu. Rannsóknir hjálpa okkur að vitkast enn frekar og gera okkur hæfari. Þannig eigum við möguleika á að snúa vörn í sókn gegn keðjuverkun skaðans sem nú ríður yfir jörðina.“ 

hnúfubakur