Skip to main content
30. maí 2016

Hlutu styrki til rannsókna og náms í Bandaríkjunum

Tveir fræðimenn og fjórir fyrrverandi nemendur Háskóla Íslands  eru meðal þeirra sem hlutu styrki frá Fulbright-stofnuninni á Íslandi til rannsóknastarfa og náms í Bandaríkjunum. Móttaka var haldin til heiðurs styrkþegunum þann 20. maí í bandaríska sendiráðinu. 

Fulbright-stofnunin á Íslandi veitir á ári hverju styrki til íslenskra og bandarískra náms- og fræðimanna og hlutu átta styrki fyrir skólaárið 2016-2017. Sex þeirra tengjast Háskóla Íslands:

Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og prófessor við Íslensku- og menningardeild, hlaut styrk til rannsóknarstarfa á sviði miðaldabókmennta við Kaliforníuháskóla í Berkeley.

Helga Rut Guðmundsdóttir, dósent við Menntavísindasvið, hlaut styrk til rannsóknarstarfa á sviði tónlistarkennslufræða við Columbia-háskóla og Suður-Kaliforníuháskóla.

Sólveig Ásta Sigurðardóttir, sem lauk MA-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 2015, hlaut styrk til doktorsnáms í bókmenntafræði við Rice-háskóla.

Helga Guðmundsdóttir, sem lauk mag.jur prófi  frá Háskóla Íslands í fyrra, hlaut bæði Fulbright-styrk og Frank Boas styrk til LL.M náms í alþjóðalögum við Harvard-háskóla.

Anna Marsibil Clausen, sem lauk BA-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 2015, hlaut  styrk til meistaranáms í fjölmiðlafræði við Kaliforníuháskóla í Berkeley. 

Víðir Þór Rúnarsson, sem lauk BS-prófi í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2015, hlaut styrk til meistaranáms í stjórnunarverkfræði við Columbia-háskóla. 

Þá hlaut Vigdís Bergsdóttir, nemandi í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands, styrk til þátttöku í sumarnámsstefnu á sviði umhverfismála við Oregon-háskóla.

Háskóli Íslands óskar styrkhöfum innilega til hamingju.

Styrkþegar Fulbright á Íslandi og fulltrúar þeirra ásamt sendiherra Bandaríkjanna og fulltrúum Fulbright.
Styrkþegar Fulbright á Íslandi og fulltrúar þeirra ásamt sendiherra Bandaríkjanna og fulltrúum Fulbright.