Skip to main content
28. september 2020

Hljóta stóran styrk til rannsókna á kæfisvefni

""

Rannsóknahópur við Landspítalann og Háskóla Íslands með Þórarinn Gíslason, prófessor við Háskóla Íslands og yfirlækni svefndeildar Landspítala, og Bryndísi Benediktssdóttur, prófessor og lækni, í fararbroddi hefur rannsakað kæfisvefn síðustu 20 ár í samvinnu við teymi bandarískra vísindamanna við háskólasjúkrahúsið í Fíladelfíu sem Allan I. Pack prófessor leiðir. Nýverið hlaut þessi hópur 200 milljóna króna styrk frá bandarísku heilbrigðisstofnuninni (National Institute of Health) til nýrrar rannsóknar sem hefur vinnuheitið MOSA (metabolomics of obstructive sleep apnea). Rannsóknin felst í að meta hvort greina megi kæfisvefn með blóðsýni og hvort á sama hátt megi segja til um einkenni og fylgikvilla sjúkdómsins.  Að minnsta kosti 11.000 manns hafa greinst með kæfisvefn á Íslandi og notar meirihluti þeirra svefnöndunartæki að staðaldri. Líklega eru fleiri kæfisvefnssjúklingar ógreindir en þeir sem hafa fengið greiningu að sögn Þórarins og biðlistar eftir því að komast í rannsókn eru langir. 

Með „metabolomics“, sem útleggja mætti sem efnaskiptasameindamynstur, er átt við mælingar á svokölluðu mRNA (messenger RNA) sem endurspegla einstaklingsbundin viðbrögð við ýmiss konar breytingum og jafnvel umhverfisáhrifum. Að sögn Þórarins gefa rannsóknir undanfarinna ára vissar vísbendingar um að slíkar mælingar geti sagt fyrir um sjúkdóma, til dæmis í hjarta- og æðakerfinu einnig hafi mælingar verið nýttar í krabbameinsrannsóknum.  Þórarinn segir að nýlegar minni rannsóknir gefi til kynna að metabolomics endurspegli súrefnisskort, líkindi við einkenni kæfisvefns, til dæmis íþyngjandi dagsyfju, og jafnvel einnig líkur þess að fá fylgikvilla líkt og háþrýsting sem sumir kæfisvefnssjúklingar glíma við.   

250 einstaklingum á Íslandi verður boðið til þátttöku í rannsókninni, körlum og konum á aldrinum 18-90 ára sem hafa nýverið verið greind með kæfisvefn á meðalháu eða háu stigi. Um er að ræða grunnmat áður en meðferð við kæfisvefni hefst. Svefnrannsókn verður endurtekin hjá öllum þátttakendum með mun nákvæmari mælibúnaði en yfirleitt er notaður við greiningu kæfisvefns.  

Við núverandi aðstæður þarf að gera mælingu heila nótt og veitir sú niðurstaða samt sem áður stundum ófullkomnar upplýsingar. Vonast er til þess að í framtíðinni dugi það fjölmörgum sjúklingum að koma í einfalda blóðtöku til þess að meta kæfisvefn og líkur á fylgikvillum en einnig til að fylgja eftir meðferð. Að sögn Þórarins yrði það gjörbylting frá þeim aðstæðum sem eru í dag enda þótt hefðbundnar svefnrannsóknir þurfi áfram í einhverjum mæli.

Sívaxandi fjöldi greinist með kæfisvefn

Samkeppnin um styrki frá bandarísku heilbrigðisstofnuninni er mjög mikil að sögn Þórarins og segir hann hlutfall þeirra umsækjenda sem hljóti styrk sé innan við 5%. „Styrkleiki okkar á Íslandi er orðspor sem m.a. byggist á góðri þátttöku Íslendinga og ekki síst vilja þátttakenda til eftirfylgni. Ekki spillir að Íslensk erfðagreining hefur í tvo áratugi verið leiðandi í heiminum í erfðarannsóknir og nýtur mikillar virðingar. Þá njótum við einnig hróðurs NOX Medical sem er leiðandi á heimsvísu í þróun svefngreiningarbúnaðar,“ segir Þórarinn.

Hann segir mikla þörf á nýjum og einföldum greiningaraðferðum. „Kæfisvefn er í raun og veru samheiti til að lýsa einstaklingum með endurtekin öndunarstopp að næturlagi og oftast fylgikvilla að degi til í formi syfju og þreytu, en í ljós hefur komið að kæfisvefnshópurinn er að mörgu leyti mjög ólíkur innbyrðis. Sumir þola mjög illa röskun á svefni vegna öndunartruflana og lýsa fyrst og fremst svefnleysi, aðrir eru mjög syfjaðir á daginn og þriðji hópurinn glímir við afleiðingar kæfisvefns á hjarta- og æðakerfi, t.d.  háþrýsting, hjartasjúkdóma, gáttaflökt og fleira. Þegar greining og meðferð kæfisvefns hófst um miðjan áttunda áratuginn þá bentu fyrstu rannsóknir til þess að um fátíðan sjúkdóm væri að ræða. Fljótlega kom í ljós að endurteknar öndunartruflanir, súrefnisskortur og svefntruflun eru meðal algengustu langvinnra sjúkdóma sem hrjá bæði börn og fullorðna og bæði kyn. Sívaxandi fjöldi hefur greinst með kæfisvefn,“ segir Þórarinn. 

Bryndís Benedikstdóttir, prófessor og læknir, leiðir ásamt Þórarni íslenska vísindateymið sem samanstendur af íslenskum og bandarískum vísindamönnum sem hafa unnið að þessum rannsóknum síðastliðna tvo áratugi. Styrkurinn sem hópurinn fær frá NIH nú nær yfir 4 ára tímabil en fyrsta 5 ára styrkinn frá stofnuninni hlaut hópurinn í samvinnu við háskólasjúkrahúsið í Fíladelfíu upp úr aldamótum. Hann hefur haft nær samfellda styrki frá stofnuninni síðan þá, eða að jafnaði um 40 milljónir á ári síðastliðin 20 ár. 

Auk svefnrannsókna hefur Þórarinn leitt stór alþjóðaverkefni hér á landi á sviði umhverfis og heilsu og fengið styrki frá Rannís, Nordforsk, Horizion 2020, Evrópusambandinu og í gegnum norrænt samstarf. Hópurinn hefur birt mörg hundruð vísindagreinar í alþjóðlegum, ritrýndum tímaritum, en Þórarinn er meðal höfunda á fjórða hundrað vísindagreina sem talsvert hefur verið vitnað til í skrifum annarra.

Rannsóknarhópur Þórarins Gíslasonar og Bryndísar Benediktsdóttur.