Skip to main content
10. júní 2021

Hjóluðu nærri 1800 km í vinnuna

Hjóluðu nærri 1800 km í vinnuna - á vefsíðu Háskóla Íslands

Liðið Hagi – klikkaðir kílómetrar kom, sá og sigraði í innanhúskeppni Háskóla Íslands sem haldin var í tengslum við átakið Hjólað í vinnuna í maímánuði. 

Átakið fór fram dagana 5.-25. maí í ár en markmið þess er að hvetja fólk til þess að nota umhverfisvænan samgöngumáta á leið til vinnu. 

Líkt og undanfarin ár skráði Háskóli Íslands sig til leiks og efndi jafnframt til sérstakrar keppni milli liða innan skólans en 3-10 keppendur gátu verið í hverju liði. Alls tóku tæplega 100 starfsmenn skólans þátt að þessu sinni í 13 liðum. Þau lögðu samtals að baki hátt í 9.000 kílómetra þær þrjár vikur sem keppnin stóð yfir en það jafngildir rúmlega sex hringum í kringum landið. Þessi árangur skilaði Háskóla Íslands í fjórða sæti í keppni vinnustaða með fleiri en 800 starfsmenn. 

Í innanhúskeppni Háskólans voru veitt verðlaun til þess liðs sem hjólaði hlutfallslega flesta kílómetra í vinnuna miðað við fjölda þátttakenda. Þriggja manna liðið Hagi – klikkaðir kílómetrar reyndist þar í sérflokki en það lagði að baki rúma 1768 kílómetra þá daga sem keppnin stóð yfir. Liðið skipa þau Elín Valgerður Magnúsdóttir, Haraldur Halldórsson og Björn Þorgilsson, sem starfa öll á Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði í Haga, en þess má geta að þau sigruðu einnig í innanhússkeppninni í fyrra. Meðalvegalengd hvers liðsmanns reyndist um 588 kílómetrar og þessi gríðargóði árangur skilaði liðinu fjórða sæti í kílómetrakeppni Hjólað í vinnuna.  
 

lín Valgerður Magnúsdóttir, Haraldur Halldórsson og Björn Þorgilsso