Skip to main content
26. nóvember 2019

Hin kvenlæga rödd í sjónvarpsþáttum samtímans

""

Eyrún Lóa Eiríksdóttir, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði, rannsakar í verkefni sínu stöðu nútímakonunnar í tengslum við birtingarmyndir hennar á streymisveitunni Netflix. Í rannsókninni er eldri konum gefinn gaumur, framsetning þeirra rannsökuð og hinn aldni líkami eins og hann kemur fyrir. „Ég er að skoða nýjar áherslur þegar kemur að kvenhlutverkum og hvernig söguþráður virðist hafa tekið breytingum í takt við jafnréttiskröfur.“ 

Að sögn Eyrúnar Lóu hefur Netflix lagt sitt að mörkum til að vinna gegn kynjahalla Hollywood og framleiðir efni sem telst til skörunar femínisma (e. Intersectional Feminism) en það skilar sér einna helst í því að fleiri og fjölbreyttari raddir heyrast. Netflix-streymisveitan er leiðandi í persónulegri dagskrá en svokallað algrím reiknar út smekk hvers og eins og setur fram efni sem gæti fallið í kramið. Sjónvarpsþættir hafa mikla útbreiðslu og hafa oft áhrif á ákvarðanir áhorfenda og viðhorf sem eru merkingarbær ef haft er í huga að ríflega helmingur íslenskra heimila er í áskrift.

Eyrún Lóa hefur lokið við að skrifa fyrsta kaflann en hann fjallar um eldri konur eins og þær birtast í sjónvarpsþættinum Grace & Frankie, en þar er kastljósinu beint að tilverurétti kvenna á áttræðisaldri og málefnum tengdum þeim sem ekki endilega hafa átt upp á pallborðið í meginstraumssjónvarpsþáttum. „Það eru atriði eins og atvinnuþátttaka eldri kvenna, vinskapur og sambýli á efri árum, kynlíf/hjálpartæki ástarlífsins sem henta eldri konum og ákvörðunarréttur yfir eigin líkama, búsetu og mat á eigin færni,“ segir hún.

„Ég er að skoða nýjar áherslur þegar kemur að kvenhlutverkum og hvernig söguþráður virðist hafa tekið breytingum í takt við jafnréttiskröfur,“ segir doktorsneminn Eyrún Lóa Eiríksdóttir. 

Meginboðskapur þáttanna er sá að það getur verið heilmikið ævintýr að vera á áttræðisaldri, lífið er auðvitað stundum erfitt en það getur líka verið skemmtilegt og gefandi, sérstaklega þegar maður á góða vinkonu sem stendur með manni og tekur þátt í ævintýrunum. „Ég er einna helst að rannsaka sýnileika hins aldna líkama, beðmál (h)eldri borgara, kynjamun, vinskap eldri kvenna, reiði, aldursfordóma og póstfemíniska eftirlitið svokallaða (konurnar eru vaktaðar í því skyni að koma auga á öldrunarummerki),“ segir Eyrún Lóa. Hún telur ákveðna breytingu hafa orðið eftir að þættirnir Grace & Frankie  slógu í gegn. Efnistök og birtingarmyndir eldri kvenna séu að breytast og þær séu að fá aukin tækifæri.

Endanlegar niðurstöður liggja ekki fyrir þar sem doktorsritgerðin er enn í smíðum en Eyrún Lóa segir að tilfinning sín sé sú að áherslur séu að breytast þegar kemur að hinni kvenlægu rödd í sjónvarpsefni samtímans. Með þátttöku fleiri kvenna, handritshöfunda, framleiðenda og leikstjóra og leikkvenna á öllrum aldri fáist aukin breidd í þær sögur sem sagðar eru, e.t.v. færri staðalímyndir og sem flestar birtingarmyndir sem hinn almenni áhorfandi nýtur góðs af. „Með því að setja sig í spor annarra skiljum við aðra eða eins og Michelle Obama sagði: „Fyrir svo marga eru sjónvarp og kvikmyndir eina leiðin til að skilja fólk sem er ekki eins og það sjálft,“ segir Eyrún Lóa að lokum.

Leiðbeinandi Eyrúnar Lóu er Alda Björk Valdimarsdóttir, dósent við Íslensku- og menningardeild.

Eyrún í Netflix-umhverfi