Skip to main content
19. desember 2019

Híbýli handritanna og íslenskra fræða 50 ára

„Árnagarður hefur leyst mikinn vanda, jafnvel alveg komið í veg fyrir það vandræðaástand, að prófessorar þurfi í byrjun kennslustundar að arka um skólann með nemendur sína í leit að kennslustofu.“ Svona hljómaði hluti af Háskólaannál Stúdentablaðsins í desembermánuði 1969 um höfuðvígi íslenskunnar, Árnagarð, sem fagnar um þessar mundir hálfrar aldar afmæli. Haldið verður upp á afmælið með veglegri dagskrá í stofu 201 í byggingunni föstudaginn 20. desember um leið og ný tvímála útgáfa á safni ljóða eftir Stephan G. Stephansson verður kynnt.

Byggingarsaga Árnagarðs teygir sig aftur til upphafs sjöunda áratugarins. Þá voru sett sérstök lög um Handritastofnun Íslands sem sýsla átti með hin fornu íslensku handrit sem samið hafði verið um að Danir myndu afhenda Íslendingum. Handritastofnun var fyrst um sinn til húsa á Landsbókasafni en þegar kom að því að finna varanlegt húsnæði fyrir stofnunina komu fram ýmsar hugmyndir. Ein þeirra snerist um að bæta viðbyggingum við Aðalbyggingu undir stofnunina og þá var einnig skoðað hvort reisa ætti byggingu á milli Aðalbyggingar og Nýja Garðs, þar sem Lögberg stendur nú. 

Að endingu var húsinu fyrir handritin valinn staður syðst á háskólasvæðinu og fékk það nafnið Árnagarður eftir Árna Magnússyni handirtasafnara, en stærstur hluti handritanna sem geymd eru í húsinu kom úr safni hans. Kjartan Sigurðsson arkitekt teiknaði bygginguna í náinni samvinnu við Hörð Bjarnason, húsameistara ríkisins, og var það reist á árunum 1967-1969 og formlega vígt sunnudaginn 21. desember 1969. 

Vígi íslenskra fræða

Byggingunni var ekki aðeins ætlað að geyma dýrmætasta menningararf þjóðarinnar, íslensku miðaldahandritin, heldur einnig skapa betri aðstæður til kennslu og rannsókna í íslenskum fræðum. Eins og fram kemur í Stúdentablaðinu 1969 breytti húsið miklu í þeim efnum. „Herbergi kennara voru stór með töflu til að skrifa á svo að þeir gátu kennt þar, allt að fimm nemendum í einu, með sæmilegu móti. Kennarar sem kenndu á kandídatsstigi nýttu sér þetta og það skapaði vissa nánd milli kennara og stúdenta,“ segir Helgi Þoláksson, prófessor emeritus í sagnfræði, sem var nemandi við skólann þegar húsið var tekið í gagnið og starfaði í því í um 20 ára skeið. Hann er meðal þeirra sem taka munu til máls á afmælishátíðinni á föstudag og mun fjalla um lífið í húsinu sem átti að verða vígi íslenskra fræða. „Fáir vita núna hvað það er, átt er við íslenskar bókmenntir, íslenska málfræði og Íslandssögu. Þetta var einu sinni þríein grein,“ segir Helgi.

Helgi hyggst einnig fjalla um smíði hússins og innréttingar, en ýmislegt var hannað sérstaklega inn í bygginguna, eins og húsgögn með íslenskum salúnsvefnaði. „Það var lagt allmikið fé í frágang innan dyra og unnið við þetta eftir að húsið var tekið í notkun, handrið, lyftu og fleira. Þetta olli röskun en mestri röskun olli að tilkomumikið loftræstikerfi í stórum stokkum starfaði ekki sem skyldi, ýmist var of heitt eða of kalt og gekk illa að finna lausn á þessu,“ segir Helgi þegar hann er beðinn um að rifja upp eftirminnileg atvik á fyrstu árum hússins.

Helgi thorlaksson

Breytti miklu fyrir félagslíf nemenda

Húsið breytti líka miklu fyrir félagslíf nemenda. „Nemendafélagið Mímir í íslenskum fræðum hafði nýtt vonda kjallaraholu í íþróttahúsi Háskólans fyrir stjórnarstarf og gagnageymslu en fékk núna inni í Árnagarði, að vísu eftir baráttu. Þá var innréttuð kaffistofa stúdenta í kjallara, líka eftir baráttu stúdenta, og hún skipti öllu máli fyrir félagslífið,“ bætir Helgi við en kaffistofan í Árnagarði hefur m.a. fóstrað marga af þekktustu rithöfundum landsins og bæði núverandi forseta og forsætisráðherra þjóðarinnar. 

Helgi bendir á að áhersla hafi verið á að reisa hús fyrir handritin og Árnastofnun en kennsla í íslensku og sögu hafi ekki verið sett efst á blað á þeim tíma, hvað þá félagslíf stúdenta. Þeir hafi hins vegar, undir áhrifum frá stúdentaóeirðum og -baráttu erlendis frá, látið vel í sér heyra. 

Stúdentar voru einnig í aðalhlutverki í sögulegum atburði tengdum Árnagarði árið 1972. Þá hugðist William Rogers, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsækja Árnagarð til þess að berja þar augum þau íslensku handrit sem þá hafði nýverið komið fyrir í húsinu. Stúdentar mættu honum með fánum og flöggum með slagorðum fyrir utan húsið og vildu með því mótmæla Víetnamsstríðinu og stuðningi íslenskra stjórnvalda við veru Bandaríkjanna í Víetnam. Vörnuðu stúdentar því að ráðherrann gæti skoðað handritin, eins og lesa má um í gömlum dagblöðum. 

Árnagarður er ekki síður þekktur fyrir stjörnusjónauka og hvolfþak á þaki hússins. Hvort tveggja var sett upp árið 1995 og var aðstaðan hugsuð fyrir nemendur í stjörnufræði við Háskóla Íslands. „Hvolfþakið hafði verið keypt tuttugu árum fyrr eða á sama tíma og hvolfþakið á Valhúsaskóla þar sem Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness hefur aðsetur. Sjónaukinn var einnig keyptur nokkrum árum áður en hann var settur upp,“ segir m.a. í svari á Vísindavefnum um sjónaukanna. Hann hefur hins vegar lítið verið notaður undanfarin ár, ekki síst vegna ljósmengunar í borginni.
 

Íslensku miðaldahandritin hafa átt sinn sess í Árnagarði í nærri hálfa öld en ein af forsendum Dana fyrir því að afhenda Íslendingum þau var sú að þeim yrði fundinn öruggur geymslustaður. Æ síðan hefur verið gestkvæmt á Árnagarði þar sem bæði skólahópar og erlendir leiðtogar hafa borið þessi djásn Íslendinga augum.

Öruggur varðveislustaður fyrir handritin

Þekktastur er Árnagarður hins vegar sem varðveislustaður fyrir handritin en Danir afhentu Íslendingum þau fyrstu árið 1971, tæpum tveimur árum eftir að húsið var tekið í notkun. Að sögn Guðrúnar Nordal, forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og prófessors í íslenskum bókmenntum fyrri alda,  var það ein forsendan fyrir því að handritin voru afhent að að þeim yrði tryggður öruggur geymslustaður og húsnæði fyrir Handritastofnunina, sem er forveri Árnastofnunar. Rúmur aldarfjórðungur leið svo þar til síðustu handritin voru afhent en flest eru þau geymd í sérstökum handritageymslum í kjallara Árnagarðs sem í hugum margra hafa yfir sér ákveðinn ævintýrablæ sem nokkurs konar fjársjóðskista. Guðrún hyggst einmitt rekja sögu og byggingu hússins sem híbýlis handritanna og í tengslum við handritamálið á afmælishátíðinni á föstudag. 

Gudrun Nordal

Sjálf kom hún fyrst í Árnagarð haustið 1976 þegar stytta af afa hennar, Sigurði Nordal, fyrrverandi prófessor í íslenskum miðaldabókmenntum, var afhjúpuð. „Ég byrjaði svo í námi í íslensku haustið 1979 var þá í tímum í Árnagarði. Þar var ég alveg fram til 1982 þegar ég fór utan til náms. Ég kom svo heim haustið 1993 og síðan hefur Árnagarður verið vinnustaður minn,“ segir hún. 

Verkefni Guðrúnar og samstarfsfélaga hjá Stofnun Árna Magnússonar er ekki aðeins að rannsaka og varðveita handritin því þar er fengist við íslenskuna frá ýmsum hliðum, svo sem málrækt, orðfræði, þjóðfræði og örnefnum. Nú liggur hins vegar fyrir að handritin og starfsemi stofnunarinnar ásamt kennslu í Íslensku- og menningardeild mun flytjast í nýtt Hús íslenskunnar vestan Suðurgötu innan nokkurra ára. Þar munu handritin fá enn veglegri sess en áður og þeim loks skapaður sá sýningarrammi sem þarf til þess að öll þjóðin öll og gestir hennar geti notið þeirra. 

En hvað skyldi þá verða um Árnagarð? Sagnfræðikennarar skólans verða áfram þar til húsa og þar verður án efa kennsla í bæði sagnfræði og fleiri greinum enda stækkar skólinn sífellt og þörfin fyrir kennslurými verður engu minni en árið 1969 þegar Árnagarður var vígður með mikilli viðhöfn.

Afmælishátíðin í Árnagarði föstudaginn 20. desember hefst kl. 16 og er öllum opin. Dagskrá hennar má sjá á viðburðadagatali skólans.

Árnagarður