HÍ tekur þátt í alþjóðlegu verkefni um kynjajafnrétti  | Háskóli Íslands Skip to main content

HÍ tekur þátt í alþjóðlegu verkefni um kynjajafnrétti 

2. maí 2018

Þorgerður J. Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, og alþjóðlegir samstarfsfélagar hennar hafa fengið rúmlega 365 milljóna króna styrk úr Horizon 2020 Rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB til verkefnis um kynjajafnrétti í vísindasamfélaginu. 

Verkefnið ber heitið ACT (Communities of Practice for Accelerating Gender Equality and Institutional Change in Research and Innovation across Europe). Því er ætlað að stuðla að kynjajafnrétti í vísindasamfélaginu með því að efla innviði þekkingarsköpunar og þekkingarmiðlunar í þágu kerfislægra breytinga. Verkefnið hófst 1. maí, er til þriggja ára og stjórnandi þess er dr. Jörg Müller við rannsóknarstofnunina Internet Interdisciplinary Institute (IN3) við Universitat Oberta de Catalunya á Spáni. Rannsóknarhópurinn samanstendur af fræðafólki frá 17 stofnunum í tíu Evrópuríkjum og Argentínu. Af heildarstyrk til verkefnisins koma 26 milljónir króna í hlut Háskóla Íslands.   

Í verkefninu er sjónum beint að kynjaskekkju á þremur sviðum: starfsmannamálum, ákvarðanatöku og inntaki rannsókna og kennslu á háskólastigi. Þrátt fyrir margvíslegan árangur á þessu sviði síðastliðinn áratug er þekking og reynsla dreifð sem kemur í veg fyrir skipulegar og markvissar aðgerðir. Í verkefninu verður komið upp þekkingarsetrum fyrir jafnréttisstarf í þeim tilgangi m.a. að deila þekkingu, skipuleggja aðgerðir, málþing og ráðstefnur þar sem í senn verður tekið mið af margbreytileika þátttökulandanna og aðstæðum á hverjum stað. Þekkingarsetrin verða rafræn og vistuð á vefgáttinni GenPORT sem þegar er starfrækt innan Evrópusambandsins.

Markmið verkefnisins eru:
1.    Að auka þverþjóðlega þekkingu á kynjajafnrétti í stofnunum sem vinna að rannsóknum og nýsköpun.  
2.    Að auka sérfræðiþekkingu á kynjajafnrétti og hvernig kyn hefur áhrif á gæði rannsókna og nýsköpunar. 
3.    Að bæta viðmið um hvað teljast framúrskarandi vísindi með því að taka mið af kynjajafnrétti þegar gæði og árangur eru metin.
4.    Að stuðla að skipulegri og kerfisbundinni nýtingu á verkfærum og aðferðum sem reynst hafa árangursrík í framkvæmd jafnréttisstarfs.

Þorgerður Einarsdóttir

Netspjall