Skip to main content
26. janúar 2023

HÍ mun að óbreyttu ekki geta skilað hallalausum rekstri í ár

HÍ mun að óbreyttu ekki geta skilað hallalausum rekstri í ár - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vegna niðurskurðar og erfiðs rekstrarumhverfis húsnæðismála er ljóst að Háskóli Íslands mun ekki að óbreyttu ná að skila hallalausum rekstraráætlunum árið 2023 heldur mun þurfa að nýta sér uppsafnaðan afgang af rekstri skólans. Þetta kemur fram í bókun sem háskólaráð Háskóla Íslands samþykkti á fundi sínum fyrr í mánuðinum. Ráðið hvetur stjórnvöld enn fremur til þess að hraða endurskoðun á reiknilíkani fyrir háskóla og tryggja að fjármögnun háskólastigsins sé í takti við þá framtíðarsýn sem finna má í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Fjárlög ársins 2023 og tillaga fjármálanefndar háskólaráðs að skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands var til umræðu á fundi ráðsins þann 12. janúar síðastliðinn. Þar lagði fjármálanefnd m.a. til ýmsar aðhaldsaðgerðir sem grípa yrði til vegna niðurskurðar á fjárframlögum til skólans. Meðal þess sem lagt er til eru miklar takmarkanir á nýráðningum innan skólans, að dregið skuli úr kennslu á fræðasviðum sem eiga ekki afgang til að mæta hallarekstri, endurskoðun fastlaunasamninga og aukin samnýting starfa í stjórnsýslu og stoðþjónustu auk þess sem aðhalds verði gætt í kostnaði vegna ferða starfsfólks.

Ráðið samþykkti umræddar tillögur fjármálanefndar og lagði um leið fram eftirfarandi bókun: 

„Á fundi háskólaráðs 12. janúar 2023 voru samþykktar tillögur fjármálanefndar ráðsins um skiptingu fjárveitinga árið 2023. Vegna niðurskurðar og erfiðs rekstrarumhverfis húsnæðismála er ljóst að Háskóli Íslands mun ekki að óbreyttu ná að skila hallalausum rekstraráætlunum árið 2023 heldur mun þurfa að nýta sér uppsafnaðan afgang af rekstri skólans.

Þessi niðurstaða er mikið áhyggjuefni og ekki síst vegna þess að fjárveitingar til Háskóla Íslands endurspegla ekki þá sýn stjórnvalda sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar, að stefna að sambærilegri fjármögnun háskóla á Íslandi og þekkist á hinum Norðurlöndunum, sbr. áætlanir Vísinda- og tækniráðs.

Háskólaráð hvetur stjórnvöld eindregið að hraða endurskoðun á reiknilíkani háskóla og vinna að þeirri framtíðarsýn sem er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um fjármögnun háskólastigsins á Íslandi. Háskóli Íslands er sem fyrr reiðubúinn til samstarfs um það.“

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ræddi stöðu skólans í fréttum Stöðvar 2 í gær. „Við höfum verið að leggja upp áætlun fyrir þetta ár og sjáum að það vantar allt að milljarð til að endar nái saman,” sagði Jón Atli og benti á að Heilbrigðisvísindasvið skólans stæði verst. „Það er nú einmitt verið að kalla eftir fleiri nemendum inn í heilbrigðisvísindin og það þarf virkilega að efla það og við höfum átt í samtali við stjórnvöld um það. Þar er hallinn upp á um 240 milljónir og það eru aðgerðir þar í gangi, gengið á uppsafnaðan afgang frá fyrri árum.“  Rektor nefndi að Menntavísindasvið stæði heldur ekki vel en þar hefur nememdum fjölgað mikið á undanförnum árum.

Rektor sagði horfurnar ekki góðar. „Þess vegna hef ég verulegar áhyggjur, ekki bara af þessu ári heldur 2024 vegna þess að í fjármálaáætluninni eins og hún er núna er verið að tala um enn meiri niðurskurð, held ég upp á 2,2% hjá Háskóla Íslands og þetta gildir yfir allt kerfið, svo að við þurfum að snúa bökum saman og efla fjármögnun háskólastigsins,” sagði rektor enn fremur

Fundargerð háskólaráðs 12. janúar 2023
 

Jón Atli Benediktsson