Skip to main content
19. febrúar 2020

Hernaðarlist Meistara Sun í íslenskri þýðingu

Hernaðarlist Meistara Sun í íslenskri þýðingu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hernaðarlist Meistara Sun, eða á frummálinu Sunzi bingfa 孫子兵法, er komin út í íslenskri þýðingu Geirs Sigurðssonar, prófessors í kínverskum fræðum við Mála- og mennindardeild Háskóla Íslands. Þýðingin er fyrsta íslenska þýðingin á bókinni úr fornkínversku og er frumtextinn birtur við hlið þýðingarinnar. Með þýðingunni eru birtar fjölmargar skýringar og Geir ritar ítarlegan inngang sem setur ritið í sögulegt samhengi og gerir grein fyrir heimspekinni sem bæði birtist og leynist í textanum.

Hernaðarlist Meistara Sun er eitt rómaðasta og víðlesnasta fornrit Kínverja. Bein áhrif þess á hernaðartækni Kínverja og þjóðanna í kring í tímanna rás verða vart ofmetin. Inntak ritsins endurspeglar einnig almennari „strategíska“ hugsun Kínverja sem beitt hefur verið á fjölmörgum sviðum daglegs lífs, til dæmis í stjórnmálum, viðskiptum og jafnvel kænskubrögðum sem tengjast ástum.

Þýðingin er styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta og gefin út af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskólaútgáfunni. Ritnefnd Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum skipa Ásdís R. Magnúsdóttir og Rebekka Þráinsdóttir en sú síðarnefnda var ritstjóri bókarinnar. 

Útgáfu Hernaðarlistar Meistara Sun og bókarinnar Raddir frá Spáni – sögur eftir spænskar konur ásamt rafrænni útgáfu af tímaritinu Milli mála 2019 verður fagnað í Veröld – húsi Vigdísar, fimmtudaginn 20. febrúar kl. 16:30. 

Rætt var við Geir Sigurðsson í Hugvarpi - hlaðvarpi Hugvísindasviðs. Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér að neðan en einnig er hægt að gerast áskrifandi að hlaðvarpsþáttum Hugvísindasviðs á SpotifyHugvarpi á iTunes og öðrum hlaðvarpsveitum.

"Hernaðarlist Meistara Sun er komin út í íslenskri þýðingu Geirs Sigurðssonar, prófessors í kínverskum fræðum við Mála- og mennindardeild Háskóla Íslands."