Skip to main content
27. ágúst 2021

Hermundur nýr prófessor við Menntavísindasvið 

Hermundur nýr prófessor við Menntavísindasvið  - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Starfið leggst mjög vel í mig. Á komandi vetri bíða mín skemmtilegar áskoranir til að takast á við hvað varðar rannsóknir, kennslu, miðlun og við leiðsögn nemenda. Ég sé mörg sóknafæri við að efla menntun og mannauð í íslensku samfélagi og hlakka til að vinna að því mikilvæga verkefni með nýju samstarfsfólki innan Háskóla Íslands. Það er ekki ofsögum sagt að menntun sé lykill að framtíðinni,“ segir Hermundur Sigmundsson, nýr prófessor í sálfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.  

Hermundur hóf störf hinn 1. ágúst síðastliðinn og mun hann starfa við nýstofnað Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar, samhliða stöðu prófessors við Norska tækni- og vís­inda­há­skól­ann í Þrándheimi. Rannsóknir á vegum setursins munu beinast að grunnfærni í læsi og lestri, stærðfræði og náttúrufræði. Einnig verður lögð áhersla á rannsóknir á tengslum hreyfingar og vitsmunastarfsemi og á mikilvægi ástríðu, gróskuhugarfars og flæðis í skólaumhverfinu. Sérstök áhersla er á að efla samstarf við atvinnulíf, sveitarfélög og skóla á landsbyggðinni. Þá mun samstarf fræðimanna og nemenda Háskólans vera í öndvegi í starfsemi seturisns. 

„Í vetur mun rannsóknarsetrið leggja megináherslu á tvö rannsókna- og þróunarverkefni. Það eru verkefnin Kveikjum neistann! og Gróskuhugarfar. Í því fyrra er kannaður árangur og líðan nemenda í Vestmannaeyjum með breyttu skipulagi skóladagsins og er þetta verkefni unnið í samstarfi við öflugt skólasamfélag í Vestmannaeyjum og hópi fræðimanna innan Menntavísindasviðs. Seinna verkefnið sem er í undirbúningi er unnið í samstarfi við Hafnarfjarðarbær með það að markmiði að efla gróskuhugarfar, þrautseigju, ástríðu og tilgang hjá starfsfólki og nemendum í leik- og grunnskólum.“ 

Rannsóknarsvið Hermundar eru læsi og lestrarnám, hreyfing, hugarfar og bættur námsárangur og eftir hann fjölmargar ritrýndar greinar í alþjóðlegum tímaritum. Þá hefur hann reglulega ritað pistla um læsi, lestrarnám, menntun og hugarfar sem birst hafa í íslenskum fjölmiðlum.  

Hermundur lauk doktorsprófi í lífeðlislegri sálfræði frá Norska tækni- og vís­inda­há­skól­anum í Þrándheimi árið 1998 og hóf störf sem lektor og síðar prófessor við sömu stofnun. Á árunum 2014-2021 var hann gestaprófessor við Háskólann í Reykjavík. Í gegnum tíðina hefur Hermundur leiðbeint fjölda framhaldsnema og komið að kennsluþróun á háskólastigi.  

Menntavísindasvið býður Hermund innilega velkominn til starfa. 

Hermundur Sigmundsson er nýr prófessor í sálfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.  MYND/ Aðsend