Skip to main content
17. febrúar 2020

Hátt í hundrað háskólanemar tóku þátt í Reboot Hack

""

Hugmyndin Auðtré, sem snýst um að hvetja fólk til að spara fé og um leið leggja sitt af mörkum til umhverfismála með gróðursetningu trjáa, varð hlutskörpust í nýsköpunarkeppninni Reboot Hack sem fram fór í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, helgina 14.-16. febrúar.

Þetta var í annað sinn sem keppnin var haldin en hún er hugarfóstur þriggja kvenna úr tölvunarfræði við Háskóla Íslands og jafnframt fyrsta háskólanemadrifna hakkaþonið á Íslandi. Hakkaþon er nokkurs konar uppfinningamaraþon eða nýsköpunarkeppni þar sem þátttakendur með fjölbreyttan bakgrunn vinna saman í teymum í sólarhring að lausn að raunverulegum áskorunum sem ákveðnar eru fyrir fram.

Áskoranirnar í ár tengdust starfi átta samstarfsfyrirtækja og -stofnana keppninnar en þau voru Auður, Origo, KPMG, Vörður, AwareGo, Listaháskóli Íslands, Byggðastofnun og Ölgerðin. Áskoranirnar voru mjög fjölbreyttar, allt frá því hvernig hægt væri að leikjavæða sparnað til þess hvernig stuðla megi að fjölgun starfa án staðsetningar og hvernig tækni gæti aukið starfsánægju á vinnustöðum. Þátttakendur unnu að lausnum alla helgina í samráði við fyrirtækin og mættu jafnframt á vinnustofur til að fræðast um allt frá markaðssetningu og verkefnastjórnunnar til “low-coding” og appforritunar. 

Nýsköpunarkeppnin Rebook Hack var nú haldin í annað sinn en hún er hugarfóstur þriggja kvenna úr tölvunarfræði við Háskóla Íslands og jafnframt fyrsta háskólanemadrifna hakkaþonið á Íslandi. Hakkaþon er nokkurs konar uppfinningamaraþon eða nýsköpunarkeppni þar sem þátttakendur með fjölbreyttan bakgrunn vinna saman í teymum í sólarhring að lausn að raunverulegum áskorunum sem ákveðnar eru fyrir fram.

Alls skráðu nærri hundrað stúdentar víða að úr heiminum sig til leiks um helgina og unnu þau í 24 teymum sem sum hver glímdu við fleiri en eina áskorun. Teymin fengu öll tækifæri til að kynna lausnir sínar fyrir dómnefnd sem veitti bæði verðlaun fyrir bestu lausn í hverri og einni áskorun og völdu fimm teymi til úrslita. Þau voru

-Kast
-Krúna
-Auðtré
-Carbon Calc
-Sett

Aðstandendum þeirra gafst tækifæri til að kynna hugmynd sína nánar fyrir dómnefnd og gestum. Í framhaldinu valdi dómnefndin sigurvegara keppninnar og gestir á staðnum völdu lausn fólksins. Verkefnið Krúna var valin lausn fólksins en lausnin Auðtré reyndist sigurvegari Reboot Hack 2020. Auðtré gengur út á að brjóta niður sparnaðarmarkmið í smærri einingar þar sem notandinn er verðlaunaður með því að fá gróðursett tré í sínu nafni á þriggja mánaða fresti, nái hann markmiðum sínum. 

Óhætt er að segja að helgin hafi gengið afar vel, þökk sé aðkomu stórs hóps fólks, bæði skipuleggjenda úr hópi nemenda í Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Listaháskólanum, og mentora, starfsmanna fyrirtækja, sjálfboðaliða og annarra velunnara.

Verkefnastjórn keppninnar er í skýjunum með árangur helgarinnar og mun vinna að því á næstu dögum og vikum að tengja teymin við fyrirtækin og stofnanirnar sem lögðu fram áskoranirnar.

Myndir frá Reboot Hack má finna á myndasafni Háskólans.

Þáttakendur í Reboot Hack