Háskólinn bakhjarl broskallarafmyntar | Háskóli Íslands Skip to main content
12. mars 2019

Háskólinn bakhjarl broskallarafmyntar

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Gunnar Stefánsson, prófessor við Raunvísindadeild skólans, undirrituðu á dögunum samkomulag um að Háskóli Íslands verði bakhjarl rafmyntarinnar Broskalla (Smileycoin) sem nýtt er sem umbun í kennslukerfi í stærðfræði á netinu sem Gunnar og samstarfsfólk hafa þróað.

Kennslukerfið nefnist tutor-web og hefur að geyma kennsluefni, m.a. í stærðfræði, tölfræði og tölvunarfræði ásamt æfingum sem gerir nemendum kleift að kanna hvort þeir hafi tileinkað sér námsefnið. Kerfið hefur um árabil verið notað í kennslu bæði í Háskóla Íslands og í framhaldsskólum með góðum árangri og er það opið öllum áhugasömum á vefnum tutor-web.net.

Gunnar og samstarfsfólk hafa innleitt umbunarkerfi inn í tutor-web, m.a. í samstarfi við fyrirtækin Air Iceland Connect og Origo, þannig að þátttakendur fá Broskalla með því að standa sig vel í verkefnum í kerfinu. Broskallarnir eru rafmynt, eins og Bitcoin og Auroracoin, sem hægt geyma í rafrænu veski á síma eða tölvu. Þá má nýta til þess að kaupa afsláttarkóða Air Iceland Connect eða Origo sem tryggir notendum afslátt af vörum fyrirtækjanna. Þá hafa notendur kerfisins einnig getað keypt bíómiða fyrir Broskalla. Styrktaraðilar tutor-web eru, auk Háskóla Íslands, ýmsir sjóðir, s.s. á vegum Evrópusambandsins, Rannís og utanríkisráðuneytisins.

Samkvæmt samningnum sem undirritaður var á dögunum mun skrifstofa rektors Háskóla Íslands eiga fulltrúa í stjórn Broskallasjóðs (Smileycoin Fund), en í sjóðnum eru í upphafi ríflega 15 milljarðar Broskalla að markaðsvirði um 20 milljón krónur við undirritun samningsins. Fjórir fulltrúar eru í stjórn sjóðsins en henni er falið að  fjalla um styrkumsóknir og veita styrki til verkefna sem uppfylla skilyrði þau sem stjórninni eru sett. Verkefnið má vera (1) kennslukerfi þar sem ætlunin er að umbuna nemendum fyrir frammistöðu, (2) þróunarverkefni á skyldu sviði eða (3) þróunarverkefni til þess fallið að styrkja Broskalla, en að auki eru takmarkanir settar á umfang styrkja.

Kennslukerfið tutor-web er á ensku og ekki aðeins nýtt hér á landi því það er einnig í notkun í nokkrum skólum í Kenía í gegnum sérstakt verkefni, Education in a Suitcase, sem Gunnar og Anna Helga Jónsdóttir, dósent og samstarfskona hans, komu á fót í samstarfi við keníska starfsbræður. Education in a Suitcase safnar fyrir spjaldtölvum fyrir nemendur og þjónum (servers) sem geyma námsefnið, með hópfjármögnun og styrkjum, m.a. frá utanríkisráðuneytinu.

Gunnar Stefánsson, prófessor við Raunvísindadeild, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands,