Háskóli Íslands styrkir vísindamenn til samfélagsvirkni  | Háskóli Íslands Skip to main content
11. maí 2020

Háskóli Íslands styrkir vísindamenn til samfélagsvirkni 

""

Háskóli Íslands styður akademísk starfsfólk skólans til virkrar þátttöku í samfélaginu í krafti rannsókna þess og sérþekkingar og veitir nú í fyrsta sinn styrki til verkefna á því sviði.

Ákvörðunin tengist endurskoðun vinnumatskerfis akademísks starfsfólks og ákvæðum í stefnu háskólans um virka þátttöku í samfélagi og atvinnulífi. Með þessu vill skólinn sýna í verki að virkni og samstarf við aðila í samfélaginu sé mikilvægur þáttur í starfsemi Háskólans og að skapa þurfi starfsfólki aukið svigrúm til að sinna slíkum störfum í tengslum við rannsóknir sínar og þekkingarmiðlun. Einnig er með þessu móti stuðlað að því að rannsóknir og sérþekking starfsfólks nýtist við stefnumarkandi ákvarðanir í samfélaginu. 

Virk þátttaka í samfélagi og atvinnulífi er einn af lykilþáttum núverandi stefnu Háskóla Íslands, HÍ21, þar sem markmiðið er að starf skólans hafi víðtæk áhrif. Skólinn hefur um árabil lagt áherslu á að vekja athygli almennings á bæði niðurstöðum rannsókna og nýsköpunar og mikilvægi vísinda fyrir samfélagið í gegnum verkefni fyrir alla aldurshópa. Með þessu nýja framtaki vill skólinn stuðla að því að sérfræðiþekking starfsmanna hans gagnist enn betur til að takast á við áskoranir samtímans og í umræðu um brýn samfélagsmál.

Akademískt starfsfólk í fullu starfi með rannsóknaskyldu á öllum fimm fræðasviðum skólans getur sótt um styrki til verkefna á þessu sviði og gilda meðal annars eftirfarandi viðmið um styrkhæf verkefni:

•    Nefndarstörf fyrir stjórnvöld og fagaðila um tímabundið og afmarkað verkefni.
•    Ráðgjöf eða vinna við stefnumótun fyrir stjórnvöld, fagfélög eða félagasamtök.
•    Viðamikil miðlun fræðslu- eða upplýsingaefnis fyrir almenning í ljósvakamiðlum eða sem gefið er út í prentuðu eða stafrænu formi.
•    Undirbúningur og skipulagning hvers konar viðburða sem leiða saman ólíka hagsmunaaðila á tilteknu fagsviði.

Styrkupphæð getur numið á bilinu 500 þúsund til 1,5 milljónir króna.

Styrkjum verður að jafnaði úthlutað einu sinni á ári og í fyrsta sinn nú í sumar.

Umsóknarfrestur um styrkinn er til 29. maí næstkomandi.

Frekari upplýsingar um styrkina er að finna á innri vef skólans: https://ugla.hi.is/kerfi/view/page.php?sid=5077  
 

""