Skip to main content
21. maí 2021

Háskóli Íslands leiðir Aurora-samstarfsnetið sem hyggst breyta landslagi háskóla

Háskóli Íslands leiðir Aurora-samstarfsnetið sem hyggst breyta landslagi háskóla - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (21. maí):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Háskóli Íslands leiðir nú Aurora, net virtra evrópskra háskóla sem hefur meðal annars það mikilvæga hlutverk að þróa til framtíðar fyrirkomulag háskólastarfs í álfunni. Ástæða þess að Háskóli Íslands leiðir þetta samstarfsnet með svo mikilvægt framtíðarhlutverk er ekki tilviljun. Árangur Háskólans hin síðustu ár hefur skipað honum í fremstu röð samkvæmt viðurkenndum alþjóðlegum mælingum og það hefur styrkt stöðu Háskólans verulega á alþjóðavettvangi og skapað mörg tækifæri til samstarfs.

Afar brýnt er að háskólar breytist og þróist stöðugt áfram til að mæta þörfum atvinnulífs framtíðarinnar og sífellt harðnandi alþjóðlegri samkeppni. Í þessum efnum leggur Háskóli Íslands mikilvæg lóð á vogarskálarnar. Fulltrúar á annars tugs háskóla sem taka þátt í Aurora-netinu hittust á ráðstefnu á vegum Háskóla Íslands í vikunni. Á ráðstefnunni var m.a. rætt um eflingu háskólanáms og markvissa nýsköpun og rannsóknir í takt við örar samfélagsbreytingar. Mikilvægur hluti samstarfs háskólanna í Aurora felst einnig í að styrkja leitina að lausnum á þeim viðamiklu verkefnum sem mannkynið allt glímir við. Unnið er að kortlagningu styrkleika hvers háskóla fyrir sig til að gera nemendum í framtíðinni kleift að stórefla aðgang sinn að námskeiðum og námsframboði í fjölþjóðlegu umhverfi. 

Nú fer í hönd lokaátakið í þeirri viðamiklu vinnu sem tengist mótun nýrrar heildarstefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026. Stefnan, sem verður rædd á háskólaþingi í næstu viku, hefur verið unnin í víðtæku samráði við hagaðila innan og utan háskólasamfélagsins. Stefnan fer síðan til háskólaráðs til lokaumfjöllunar og afgreiðslu. Markmiðið með stefnunni er að auka gæði á öllum sviðum í starfi skólans til hagsbóta fyrir íslenska þjóð og alþjóðlegt vísindasamfélag.

Eftir ítrekuð innbrot í byggingar Háskóla Íslands síðustu misseri, þar sem verðmætum tækjabúnaði hefur jafnan verið stolið, var leitað til sérfræðinga verkfræðistofunnar Eflu til að taka út öryggismál í byggingum skólans. Efla lagði til aukna notkun aðgangskorta í byggingum og fjölgun öryggismyndavéla. Hafist var handa um mitt síðasta ár við uppsetningu aðgangskerfis og öryggismyndavéla og miðar því starfi vel. Þegar ráðist er í framkvæmdir af þessum toga er mikilvægt að öllum reglum um persónuvernd og friðhelgi einkalífs sé fylgt í hvívetna. Tilgangurinn er að tryggja öryggi á háskólasvæðinu, ekki að safna gögnum um einstaklinga, enda er öllum gögnum eytt reglulega í samræmi við reglur um rafræna vöktun.

Skráningar í sumarnám við Háskóla Íslands fara afar vel af stað í samstarfi við íslensk stjórnvöld. Markmiðið er að mæta erfiðum aðstæðum í samfélaginu í kjölfar kórónaveirufaraldursins. Nú þegar eru komnar um 800 skráningar í um 75 námskeið sem er framar vonum. Ég hvet ykkur kæru nemendur til að kynna ykkur framboð í sumarnáminu á heimasvæði skólans. Enn eru sæti laus í flestum námskeiðum. 

Í gær lauk umsóknarfresti um fjölmörg sumarstörf fyrir námsfólk sem Háskólinn býður í tengslum við átaksverkefni stjórnvalda. Ætlunin er að fjölga tímabundnum störfum fyrir þennan hóp. Um 900 umsóknir bárust skólanum í gegnum gáttir Vinnumálastofnunar og verður nú kapp lagt á að vinna úr þeim og hefja ráðningar í framhaldinu.

Kæru nemendur og samstarfsfólk. Nú er hvítasunnuhelgin fram undan með takmarkalítilli birtu og þátttöku okkar Íslendinga í úrslitum Eurovision sem er sannarlega gleðilegt. Fyrir mjög marga verður tónlistin því í lykilhlutverki. Njótum hennar sem best við megum enda er hún eign okkar allra eins og tónskáldið og hugsuðurinn John Lennon sagði. 

Förum að öllu með gát. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Fólk fyrir utan Háskólatorg