Háskóli Íslands einn íslenskra háskóla á báðum virtustu matslistum heims | Háskóli Íslands Skip to main content
11. september 2019

Háskóli Íslands einn íslenskra háskóla á báðum virtustu matslistum heims

Háskóli Íslands er eini háskóli landsins sem kemst á báða virtustu lista heims yfir þá skóla sem hæst eru metnir á alþjóðavettvangi. Háskólinn er í sæti 401-500 á lista ShanghaiRanking Consultancy yfir bestu háskóla heims og í sæti 351-400 á listanum Times Higher Education World University Rankings sem birtur var í dag. Báðir listar taka til rannsókna, kennslu og áhrifa í alþjóðlegu vísindasamfélagi. Háskóli Íslands er í hópi þeirra bestu á lista Times Higher Education níunda árið í röð.  

„Það er mjög ánægjulegt að sjá að Háskóli Íslands er í fremstu röð á tveimur virtustu alþjóðlegu matslistum háskóla,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. „Á undanförnum misserum hafa jafnframt ítrekað komið fram niðurstöður um að fræðasvið skólans og einstakar greinar raðast meðal þeirra bestu í heiminum á alþjóðlegum matslistum háskóla. Háskóli Íslands er eini alhliða háskóli landsins og starfar á fimm fræðasviðum og er afar ánægjulegt að sjá á hversu breiðum grunni árangur skólans mælist.“ 

Háskóli Íslands hefur komist á fleiri eftirsótta lista á þessu ári sem meta þá háskóla sem skara fram úr á fjölbreyttum sviðum. Fyrr á þessu ári tilkynnti t.a.m. U-Multirank, sem er óháður matsaðili, að Háskóli Íslands væri í hópi þeirra 25 háskóla sem standa fremst á alþjóðavísu í samstarfi við atvinnulíf og erlenda háskóla um rannsóknir. Þá sýndi annar listi á vegum tímaritsins Times Higher Education, sem nefnist University Impact Rankings og var birtur í fyrsta sinn á vormánuðum, að Háskóli Íslands er í sæti 101-200 yfir þá háskóla í heiminum sem hafa mest samfélagsleg og efnahagsleg áhrif út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Til viðbótar þessu raðast Háskóli Íslands, einn íslenskra háskóla, á lista NTU-ranking þar sem áhersla er á gæði rannsókna og vísindabirtingar. Þar raðast Háskólinn í sæti 435 en á sviði jarðvísinda er hann í 161. sæti og í 121. sæti á sviði sameindalíffræði og erfðafræði. 

Vísindamenn Háskóla Íslands í allra fremstu röð

Vísindamenn Háskólans hafa ennfremur hlotið miklar viðurkenningar á síðustu mánuðum og misserum. Þeir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskólans og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, og Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor við Jarðvísindadeild, bættust t.d. á dögunum í hóp vísindamanna við Háskóla Íslands sem fengið hafa inngöngu í Evrópsku vísindaakademíuna en þangað komast einungis allra fremstu vísindamenn veraldar á sínu fagsviði. Þeir Jón Atli og Magnús Tumi verða formlega teknir inn Evrópsku vísindaakademíuna á ársfundi hennar núna í október. 

Háskóli Íslands á núna fimm vísindamenn í akademíunni, langflesta af íslenskum háskólunum, og að auki átta vísindamenn, sem ýmist eru prófessorar við Háskóla Íslands eða starfa í nánum tengslum við skólann, í hópi áhrifamestu vísindamanna heims samkvæmt mati Clarivate Analytics. Listinn nær til þess eins prósents vísindamanna innan hverrar fræðigreinar sem mest er vitnað til í vísindagreinum sem birtast í alþjóðlegum vísindatímaritum.

Háskóli Íslands skarar fram úr á báðum listum

ShanghaiRanking Consultancy birti fyrir skemmstu lista yfir bestu háskóla heims innan rösklega fimmtíu fræðigreina. Þar raðast Háskóli Íslands í 6. sæti yfir þá sem fremstir standa í fjarkönnun sem felst í því að vinna úr ljósmyndum hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar. Háskólinn er í 76.-100. sæti á sviði jarðvísinda og í 100.-150. sæti innan hjúkrunarfræði. Enn fremur raðast skólinn í sæti 151-200 innan lífvísinda og í hóp 300 bestu á sviði landfræði, 400 bestu á sviði líffræði mannsins, loftslagsvísinda, klínískrar læknisfræði og lýðheilsuvísinda og á lista 500 bestu innan eðlisfræði og vistfræði. Listi ShanghaiRanking Consultancys, betur þekktur undir nafninu Shanghai-listinn, tekur til náttúruvísinda, lífvísinda, læknavísinda, verkfræði og félagsvísinda. 

Samkvæmt mati Times Higher Education hefur Háskóli Íslands einnig skarað fram úr á flestum fræðasviðum undanfarin ár. Hefur Háskólinn verið á alls sex listum tímaritsins yfir bestu skóla heims á afmörkuðum fræðasviðum. Enginn annar íslenskur háskóli komst á þessa lista sem undirstrikar alhliða styrk skólans hér heima og á alþjóðavettvangi. 

Aðalbygging Háskóla Íslands