Skip to main content
19. ágúst 2020

Háskóli Íslands áfram einn íslenskra háskóla á Shanghai-listanum

Háskóli Íslands er í 501.-600. sæti á glænýjum lista samtakanna ShanghaiRanking Consultancy yfir bestu háskóla heims 2020. Hann er sem fyrr eini íslenski háskólinn sem kemst á listann.

Formlegt nafn listans er Academic Ranking of World Universities (ARWU) en hann gengur alla jafna undir nafninu Shanghai-listinn og hefur verið birtur frá árinu 2003. Við vinnslu listans horfir ShanghaiRanking Consultancy til heildarárangurs skóla í alþjóðlegum samanburði og miðar þar við nokkra mælikvarða: birtingu vísindagreina í virtum fræðitímaritum, fjölda tilvitnana annarra vísindamanna í rannsóknir á vegum hvers skóla, frammistöðu háskóla út frá starfsmannafjölda og fjölda starfsmanna sem hjóta vísindaverðlaun fyrir framlag sitt innan einstakra fræðagreina. Alls rýna samtökin hátt í 2.000 háskóla og birta í framhaldinu lista yfir þá 1.000 bestu. 

Sem fyrr segir er Háskóli Íslands í sæti 501-600 í ár en skólinn hefur verið á Shanghai-listanum frá árinu 2017.

Fyrr í sumar birti ShanghaiRanking Consultancy lista yfir fremstu háskóla heims á afmörkuðum vísinda- og fræðasviðum. Samkvæmt þeim var Háskóli Íslands sá sjötti besti í heiminum á sviði fjarkönnunar en hún felst m.a. í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum og gervitunglum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar. Þá var Háskólinn í 40. sæti yfir þá fremstu á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði, í hópi 150 bestu á sviði jarðvísinda og hjúkrunarfræði, í sæti 151-200 á sviði lífvísinda, í 200.-300. sæti innan landfræði, líffræði mannsins, stjórnmálafræði og ferðamálafræði og í 301.-400. sæti á sviði loftslagsvísinda, lýðheilsuvísinda og klínískrar læknisfræði. Enn fremur skilar frammistaða skólans honum í hóp 500 bestu á sviði vistfræði, sálfræði og hagfræði en þetta er í fyrsta sinn sem skólinn kemst á lista í síðarnefndu greininni.

Shanghai-listinn er annar af tveimur virtustu og áhrifamestu matslistunum yfir bestu skóla heims. Hinn er Times Higher Education World University Rankings og hefur Háskóli Íslands verið á honum í hátt í áratug.

Nýjan Shanghai-lista yfir bestu háskóla heims er að finna á vefsíðu samtakanna.
 

Aðalbygging speglast í gluggum Háskólatorgs