Skip to main content
30. ágúst 2019

Háskólanemar með útvarpsþætti á Rás 1 í allan vetur

Bókmenntir, stjórnarskrár, umhverfið, sjávarútvegur og gervigreind eru meðal viðfangsefna í útvarpsþáttunum Fólk og fræði sem nemendur við Háskóla Íslands hafa unnið og verða fluttir á Rás 1 í vetur. 

Þættirnir eru liðir í námskeiðinu „Þáttagerð fyrir útvarp – Vinnsla fræðilegs efnis fyrir útvarp“ á vegum Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands en námskeiðið er unnið í samvinnu við starfsmenn RÚV og kennt þar. Nemendur af ólíkum fræðasviðum og deildum Háskóla Íslands hafa tekið þátt í námskeiðinu og hefur hver og einn sett saman útvarpsþátt þar sem hann miðlar efni af fræðasviði sínu.

„Þetta eru ólíkir þættir sem endurspegla hinn fjölbreytta nemendahóp í námskeiðinu en meðal efnis má nefna þætti um bókmenntir, stjórnarskrár, umhverfið, sjávarútveg og gervigreind,“ segir dr. Ásdís Emilsdóttir Petersen, kennari í námskeiðinu. 

Rúmlega 30 útvarpsþáttum nemenda verður útvarpað á sunnudagskvöldum kl. 21.30 á Rás 1 í vetur. Þá er hægt að hlusta á endurflutning á laugardagskvöldum og alltaf á vefnum eftir útsendingu. 

Í fyrsta þætti, sem verður sunnudagskvöldið 1. september, verður fjallað um miðlun erfðaupplýsinga og hvernig upplifun það er að greinast með skaðlega stökkbreytingu. 

Nemendur og kennarar í námskeiðinu fólk og fræði