Skip to main content
10. mars 2022

Guðbjörg verður prófessor við Högskolen i Innlandet

Guðbjörg verður prófessor við Högskolen i Innlandet - á vefsíðu Háskóla Íslands

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands, var nýverið ráðin prófessor við Högskolen i Innlandet í Noregi. Hún mun því framvegis vera í hlutastarfi prófessors við báða háskólana. 

Háskólinn í Innlandet kallast á ensku Innland Norway University of Applied Sciences. Þrettán þúsund nemendur stunda þar nám og skólinn teygir anga sína í sex ólík bæjarfélög. Námsbrautin í náms- og starfsráðgjöf, þar sem Guðbjörg starfar, er í Heilsu- og félagsvísindadeild skólans og staðsett í Lillehammer. 

Guðbjörg er mikilvirkur fræðimaður og hefur í rannsóknum sínum m.a. beint sjónum að félagslegum áhrifum á náms- og starfsval, viðhorfum lítt menntaðra ungmenna til starfa, mati á náms- og starfsfræðslu, aðlögunarhæfni á náms- og starfsferli og frásagnarráðgjöf. Aðspurð um aðdragandann að ráðningunni í Noregi segir Guðbjörg að hún hafi í haust verið aðalfyrirlesari á ráðstefnu í Bergen og erindi hennar hafi vakið athygli fræðimanna við Högskolen i Innlandet. „Í framhaldi af því hafði Tristram Hooley, sem er prófessor við Háskólann í Innlandet, samband við mig og bauð mér þessa stöðu og þremur mánuðum síðar skrifaði ég undir ráðningarsamning,“ segir Guðbjörg.

Hún bætir við að margir nýir kennarar hafi hafið störf við námsbraut í náms- og starfsráðgjöf við Högskolen i Innlandet og þar á bæ hafi fólk áhuga á að styrkja rannsóknargetu sína. „Mitt hlutverk verður m.a. að styðja við rannsóknir yngri kennaranna og vinna að umsóknum um rannsóknarstyrki. Ég held líka að það hafi haft sitt að segja að ég er og hef verið virk í alþjóðlegu samstarfi, er t.d. varaforseti Alþjóðlegu náms- og starfsráðgjafarsamtakanna (International Association of Educational and Vocational Guidance) og er í alþjóðlegu netverki á vegum UNESCO um rannsóknir á sviði náms- og starfsráðgjafar. Tengsl sem þessi þykja eftirsóknarverð,“ segir Guðbjörg enn fremur um ráðninguna.

Guðbjörg hefur stundað kennslu og rannsóknir í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands í um þrjá áratugi og státar því af afar yfirgripsmikilli reynslu á sínu sviði. Aðspurð hvaða þýðingu þessi ráðning hafi fyrir hana segir Guðbjörg að þetta sé sannarlega viðurkenning fyrir hana sem rannsakanda. „Það verður gaman að nýta þá vísindaþekkingu í nýju samhengi. Það er mín reynsla bæði sem rannsakanda og ráðgjafa að það skiptir mjög miklu máli að vera opinn fyrir umhverfi sínu, taka inn nýjar upplýsingar og breyta sjónarhorninu á rannsóknarefnið. Þarna gefst tækifæri til þess og það kemur örugglega eitthvað skemmtilegt út úr því,“ segir hún að endingu.
 

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir