Skip to main content
3. nóvember 2022

Grímur Thomsen í nýju ljósi

Grímur Thomsen í nýju ljósi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komið greinasafnið Feiknstafir: Ráðgátan Grímur Thomsen í ritstjórn Sveins Yngva Egilssonar, prófessors við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, og Þóris Óskarssonar bókmenntafræðings.

Grímur var skáld, bókmenntafræðingur, starfsmaður danska utanríkisráðuneytisins, þingmaður og bóndi á Bessastöðum. Í tilefni af tveggja alda afmæli Gríms (1820–1896) rannsakaði hópur hugvísindafólks höfundarverk, ævi og sögulegt umhverfi hans. Afraksturinn getur að líka í þessari bók sem varpar nýju ljósi á einn þekktasta fulltrúa 19. aldarinnar á Íslandi. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands fylgir bókinni úr hlaði með ávarpi en greinahöfundar eru þau Ármann Jakobsson, Erla Hulda Halldórsdóttir, Guðmundur Hálfdanarson, Gunnar Ágúst Harðarson, Gylfi Gunnlaugsson, Helgi Skúli Kjartansson, Hjalti Snær Ægisson, Kristján Jóhann Jónsson, Margrét Eggertsdóttir, Már Jónsson, Svavar Hrafn Svavarsson, Sveinn Yngvi Egilsson og Þórir Óskarsson sem einnig ritar yfirlitsgrein um ævi Gríms og störf. 

Var Grímur óþjóðlegur heimsborgari eða rammíslenskur bóndi, talsmaður nýrra viðhorfa eða fornra, einn á báti eða í samfloti með öðrum? Hvers vegna var hann ýmist í vörn eða sókn, huldi slóð sína og brá iðulega yfir sig grímu? Hvað leynist á bak við feiknstafina sem einkenna svipmót hans og skrif? Þetta eru meðal þeirra spurninga sem greinahöfundar reyna að svara í bókinni.

Útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag og er bókin prýdd mörgum myndum (412 bls., Reykjavík 2022).

Greinasafnið Feiknstafir: Ráðgátan Grímur Thomsen

Brot úr ávarpi forseta Íslands í bókinni:

„Saga Gríms er samofin sögu Bessastaða. Þar bjuggu þau Jakobína kona hans og þau hvíla undir vegg Bessastaðakirkju. Einnig er það svo að skrifstofa forseta á Bessastöðum er kennd við hann, kölluð Thomsenstofa eða bara Thomsen í daglegu tali. Þar er snotur mynd af honum á unga aldri og sömuleiðis reiðtygi úr fórum hans – ekki þó reiðtygi Sóta, uppáhaldsgæðings hans. Saga þess góðhests er merk. Þegar Grímur bjó í Danmörku keypti hann fákinn og lét senda sér út. Svo tók hann Sóta með við flutning heim og hafði á Bessastöðum.

Sóti var felldur árið 1882 og heygður með öllum reiðtygjum, norðaustan við Bessastaðastofu. Þá felldi Grímur Thomsen tár og þá sögu segir maður gjarnan við gesti í Thomsenstofu, bætir svo við að Grímur hafi setið hér við skriftir, ort sum sinna kunnu ættjarðarljóða, heimsborgari sem var kominn aftur á æskuslóðir. Svo hafi Sóti birst við gluggann, Grímur teygt sig í brauðbita og fært honum.“

Ritstjórar Feiknstafa í Thomsenstofu á Bessastöðum ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, sem fylgir bókinni úr hlaði með ávarpi um Grím. Ljósmynd: Una Sighvatsdóttir.