Grein um lundarannsóknir HÍ með þeim bestu í tímaritinu JEB | Háskóli Íslands Skip to main content
22. desember 2020

Grein um lundarannsóknir HÍ með þeim bestu í tímaritinu JEB

Grein um lundarannsóknir HÍ með þeim bestu í tímaritinu JEB - á vefsíðu Háskóla Íslands

Grein um rannsókn á áhrifum mannanna hljóða á lundann er talin með þeim allra bestu sem birtust í tímaritinu Journal of Experimental of Biology á árinu 2020. Greinin er birt í háskerpuyfirliti þeirra greina sem mesta athygli hafa vakið að mati tímaritsins á árinu. 

Greinin byggist á rannsóknum sem unnar eru hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Húsavík en Bandaríkjamaðurinn Adam Smith vinnur að verkefninu undir stjórn Marianne Rasmussen sem er forstöðumaður setursins. 

„Þetta er í raun frábært afrek og heiður. Við erum öll mjög ánægð með þessa athygli hér við rannsóknasetrið,“ segir Marianne Rasmussen en rannsóknin sjálf snýst um það hvernig lundar og sjófuglar hagnýta sér hljóð. Þetta felur í sér að kanna hvað fuglarnir heyra, hvaða hljóð þeir mynda, hvaða hljóð eru í náttúrulegu umhverfi þeirra og hvernig manngerð hljóð hafa áhrif á líf þeirra og hegðun.

„Ég hef verið að rannsaka náttúrulegar hljóðmyndir á varpsvæði lundans. Hugtakið hljóðmynd,“ segir Adam Smith, „vísar til allra þeirra ólíku fyrirbæra sem mynda hljóð og skapa það hljóðmynstur sem finna má á tilteknu svæði. Á landi geta hljóð t.d. stafað af vindi, regni, öldum og röddum fugla eða frá bílum sem ekið er eftir vegi. Í vatni koma hljóð m.a. frá vindi og öldum á yfirborðinu og auk þess frá hvölum, fiskum og bátum sem eiga leið hjá.“ 

Hljóðmyndir gegna mikilvægu hlutverki í hegðun fugla

Adam segir að á undanförnum árum hafi vísindamenn uppgötvað að þessar hljóðmyndir geta gegnt mikilvægu hlutverki í hegðun og lífi dýra. „Þegar hljóðmyndir náttúrunnar breytast vegna mannsins getur það haft neikvæði áhrif. Við leitumst við að skilja náttúruleg hljóðmynstur í kringum varpsvæði lunda, hvaða þættir eru mikilvægastir í þeim, og síðan að meta hvort manngerð hljóð breyta þessum mynstrum og hvaða áhrif það kann að hafa á lundann.“  
 

„Ég hef verið að rannsaka náttúrulegar hljóðmyndir á varpsvæði lundans. Hugtakið hljóðmynd,“ segir Adam Smith, „vísar til allra þeirra ólíku fyrirbæra sem mynda hljóð og skapa það hljóðmynstur sem finna má á tilteknu svæði. Á landi geta hljóð t.d. stafað af vindi, regni, öldum og röddum fugla eða frá bílum sem ekið er eftir vegi. Í vatni koma hljóð m.a. frá vindi og öldum á yfirborðinu og auk þess frá hvölum, fiskum og bátum sem eiga leið hjá.“ MYND/Jón Örn Guðbjartsson

Adam segir að rannsóknaraðferðin sé kölluð óvirk hljóðskönnun sem felist í því að setja upp hljóðupptökutæki á landi og í sjó á svæðinu umhverfis varpsvæði lundans. „Síðan eru þessi tæki skilin eftir og þau taka upp hljóðin í umhverfinu sumarlangt á meðan lundarnir eru á svæðinu. Upptökunum er svo safnað saman og þær greindar á rannsóknarstofu.“

Adam segir að þessi aðferð skili miklu því með henni sé unnt taka upp hljóð yfir mjög löng tímabil allan sólarhringinn „og að auki gefur það okkur möguleika á að taka upp náttúruleg hljóð lundanna þegar engin mannvera er nálæg.“ 

Auk rannsókna á hljóðmyndum á varpsvæðum lundans rannsakar Adam fjölmargt annað varðandi lundann, t.a.m. heyrn fuglsins, lífeðlisfræði hlustunarfæra og hvernig fuglarnir bregðast við manngerðum hljóðum í rannsóknarstofum.

Niðurstöðurnar mikilvægar til verndar

Adam segir að niðurstöður rannsókna sinna muni verða mikilvægar til að reglur um náttúruferðamennsku og vernd lundastofnsins á Íslandi verði byggðar á traustum grunni. „Jafnframt þessu er hægt að vinna að öruggri áætlun út frá niðurstöðunum til að vernda og endurreisa lundastofna á Íslandi og um heim allan. Þótt lundar séu viðfangsefni mitt má gera ráð fyrir að niðurstöðurnar gagnist varðandi áhrif hljóðmengunar á aðra sjófugla.“

Verkefnið er fjölþjóðlegt og er partur af breiðu rannsóknarsamstarfi milli vísindamanna við Háskóla Íslands, Woods Hole Oceanographic Institution í Bandaríkjunum og SDU í Danmörku.

Adam Smith