Skip to main content
10. september 2020

Gefur út ítarlegt rit um loftslagsmál

""

Réttum 30 árum eftir að hann kynntist loftslagsmálum í fyrsta sinn hefur Júlíus Sólnes, prófessor emeritus í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands, gefið út bók þar sem fjallað er ítarlega um þetta stóra viðfangsefni samtímans. Bókin nefnist „Global Warming: Cause – Effect – Mitigation“ og kom út hjá Amazon.com fyrr á þessu ári. 

Í bókinni fer Júlíus m.a. yfir svokallað orkujafnvægi jarðkerfisins og kolefnishringrásina á jörðinni. Þá rekur hann sögu þess hvernig vísindamenn fundu eðlisfræðilegar skýringar á því hvernig sólin hitaði upp gufuhvolfið og áttuðu sig á hlutverki gróðurhúsalofttegunda, eins og koltvíoxíðs, í hlýnun andrúmsloftsins. Í bókinni er líka fjallað um þær fjölbreyttu aðferðir sem vísindamenn nota til að mæla styrk gróðurhúsalofttegunda og breytingar á loftslagi, þar á meðal loftslagslíkön, og alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga, eins og bráðnun heimskautaíss og jökla, öfgakenndar náttúru- og veðurfarsbreytingar og skógarelda. Enn fremur er komið inn á hvernig alþjóðasamfélagið hefur tekist á við loftslagsbreytingar, m.a. í gegnum ýmsa alþjóðasamninga, en jafnframt gerð grein fyrir ýmsum leiðum til þess að draga úr losun koltvíoxíðs og þannig vinna gegn loftslagsbreytingum.

Kynntist loftslagsmálum sem umhverfisráðherra

Júlíus komst í kynni við loftslagsmál þegar hann sat 2. Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Genf árið 1990 sem umhverfisráðherra, en því starfi gegndi hann fyrstur Íslendinga. „Þar kynnti nýstofnað Loftslagsráð Sameinuðu þjóðanna (IPCC) fyrstu stöðuskýrslu sína um ástand loftslags jarðar og hugsanlega hnattræna hlýnun. Ég varð þá hugfanginn af þeim margvíslegum fræðum og rannsóknum, sem efni skýrslunnar byggðist á,“ segir hann og bætir við að fyrir hvatningu frá fyrsta formanni IPCC, sænska veðurfræðingnum Bert Bohlin, hafi hann reynt að setja sig inn í loftslagsfræðin.

Síðan þá hefur hann fylgst grannt með þróun mála og bæði haldið fyrirlestra og ritað greinar um loftslagsmál og veðurfarsbreytingar. „Ég skrifaði síðan samantekt í Tímarit Verkfræðingafélagsins um allar greinarnar haustið 2016. Vinir mínir í Bandaríkjunum hvöttu mig til þess að halda áfram, skrifa bók um loftslagsmál og hlýnun jarðar á ensku og gefa hana út á Amazon-vefnum. Fyrsta ófullgerða útgáfan kom um mitt ár 2017 en það tók mig þrjú ár að fullgera bókina, þannig að lokaútgáfa hennar var ekki tilbúin fyrr en um mitt ár 2020,“ segir hann um tilurð nýju bókarinnar.

Hröð þróun þekkingar á sviðinu

Aðspurður um helstu áskoranir við vinnslu bókarinnar segir Júlíus að þegar hann hafi byrjað að skrifa textann hafi hann gert sér grein fyrir hversu lítið hann vissi í raun um loftslagsmál. „Það var því ekki annað að gera en lesa endalausar bækur og greinar til þess að ná betri tökum á viðfangsefninu,“ segir hann en þess má geta að í heimildaskrá er vísað í um fjögur hundruð greinar, bækur og ritgerðir vísindamanna um loftslagsmál.

Þá segir hann ákveðna áskorun felast í því hversu hratt þekkingin þróast á þessu sviði. „Ég reyndi að gera grein fyrir nýjustu rannsóknum á þeim sviðum, sem ég fjalla um í bókinni. Það reyndist oft erfitt. Þegar ég hafði lokið við að skrifa tiltekinn kafla og gera grein fyrir síðustu rannsóknarniðurstöðum, birtist oft ný eða nýjar greinar sem ég varð þá einnig að fjalla um,“ bætir hann við en þess má geta að flestar af teikningum og skýringarmyndum í bókinni gerði Júlíus sjálfur.

„Stóri straumurinn, 10 gígatonn af hreinu kolefni upp í andrúmsloftið, sem brennsla jarðefnaeldsneytis orsakar, er aðalvandinn. Ef ekki verður tekizt á við hann mun loftslag á jörðu breytast hratt til hins verra,“ segir Júlíus Sólnes sem heimsótti Jón Atla Benediktsson rektor á dögunum og færði honum eintak af nýju bókinni. MYND/Kristinn Ingvarsson

Brennsla jarðefnaeldsneytis í orkufrekum iðnaði aðalvandinn

Sem fyrr segir er ekki aðeins fjallað um loftslagsvandann og ástæður hans í bókinni heldur einnig mögulegar lausnir á vandanum. „Í kaflanum, sem ég nefni loftslagsverkfræði, er gerð ítarleg grein fyrir hugsanlegum mótvægisaðgerðum til þess að minnka styrk koltvíoxíðs í andrúmslofti og þannig halda aftur af hnattrænni hlýnun. Þar er komist að þeirri niðurstöðu, að eina leiðin til þess að hamla gegn miklum loftslagsbreytingum sé að hreinsa koltvíoxíð úr útblæstri orkuvera og orkufrekra verksmiðja. Tækni til þess er til og vel þekkt en kostar sitt,“ segir Júlíus.

Hann segir losunarkvóta, sem iðnríki hafa komið upp til draga úr slíkri losun, í raun ekkert skárri en syndaaflausnarbréf páfanna forðum. „Þar sem fátæku löndin geta selt losunarkvóta sína, einfaldlega vegna þess að þau þurfa ekki á þeim að halda, hefur þetta ekkert dregið úr losuninni, aðeins flutt hana til,“ bætir Júlíus við og undanskilur ekki Íslendinga í gagnrýni sinni. „Íslendingar berja sér oft á brjóst og hæla sér af stóriðjunni, sem notar græna orku og kaupir losunarkvóta, þannig að okkur þykir orkufreki iðnaður á Íslandi vera mjög umhverfisvænn og ekki hafa áhrif á loftslag með losun sinni. Staðreyndin er frekar sú að losun þeirra hefur mjög slæm áhrif og gerir aðgerðir okkar í loftslagsmálum afar máttleysislegar. Við ættum að krefjast þess að stóriðjuverin hreinsi allt koltvíoxíð úr útblæstri sínum.“ 

Þá telur hann umræðu um loftslagsmál oft vera á villigötum, ekki síst þegar rætt um er þörf á að breyta lífsstíl almennings á vesturlöndum til þess að takast á við loftslagsvána. „Ég vil strax taka fram, að ég er mjög hlynntur mörgu sem lagt hefur verið til, t.d. að borða minna kjöt, planta fleiri trjám og margt fleira í þeim dúr. Allt þetta hefur mjög jákvæð áhrif á mannlíf og umhverfi. En því miður hefur þetta framtak fólks á  Vesturlöndum sáralítil áhrif hvað loftslag jarðar áhrærir. Ég hef líkt þessu við, að þetta sé álíka og reyna að drepa fíl með því að stinga títuprjóni í hann,“ segir Júlíus.

kolefnishringurinn

Mynd sem sýnir kolefnishringinn svokallaða og hlut ólíka þátta í honum. Mynd fengin úr bók Júlíusar.

Langmestan hluta koltvíoxíðs sem valdi loftslagshlýnun, megi rekja til brennslu jarðefnaeldsneytis, aðallega í orkufrekum iðnaði og kola- og olíuorkuverum heimsins en einnig í samgöngutækjum. Hann bendir á tvær myndir úr bókinni máli sínu til stuðnings. „Stóri straumurinn, 10 gígatonn af hreinu kolefni upp í andrúmsloftið, sem brennsla jarðefnaeldsneytis orsakar, er aðalvandinn. Ef ekki verður tekizt á við hann mun loftslag á jörðu breytast hratt til hins verra,“ segir Júlíus.

Þá vísar hann í töflu sem sýnir skiptingu losunar vegna brennslu jarðefnaeldsneytis milli landa heims (sjá hér að neðan). „Þar kemur mjög skýrt fram, að stóru löndin, Kína, Bandaríkin, Indland og Rússland, eru helztu orsakavaldar hnattrænnar hlýnunar. Öll Evrópulönd innan OECD losa innan við 10% af heimslosuninni. Þótt okkur íbúum þessara landa takist að minnka losun okkar með breyttum lífsstíl og frekari aðhaldsaðgerðum dugar það engan veginn til.“

kolefnislosun landa

Losun kolefnis vegna brennslu jarðefnaeldsneytis innan og utan OECD. Mynd fengin úr bók Júlíusar.

Enginn áorkað jafnmiklu í loftslagsmálum og Greta Thunberg

Aðspurður hvernig umræðan um loftslagsmál hafi breyst á þeim 30 árum sem liðin eru síðan hann sat á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna segir Júlíus að enginn áhugi hafi verið á vandanum þá og fáir hafa viljað hlusta. „Þetta hefur smám saman breyst. Munar þar mest um Parísarráðstefnuna og þá miklu fréttaumfjöllun sem hún fékk. Þá eigum við Grétu Thunberg mikið að þakka. Hún hefur skorið upp herör meðal ungs fólks og vakið athygli þeirra á loftslagsvánni. Enginn maður hefur fengið jafnmiklu áorkað og hún í loftslagsmálum,“ segir Júlíus.

Bókina „Global Warming: Cause – Effect – Mitigation“  er hægt að kaupa á Amazon og í Eymundsson og þá er hún einnig væntanleg í Bóksölu stúdenta á næstu vikum.

Kápa bókarinnar og Júlíus Sólnes