Gagnvirkt Íslendingasagnakort hlaut Hagnýtingarverðlaun | Háskóli Íslands Skip to main content
19. nóvember 2015

Gagnvirkt Íslendingasagnakort hlaut Hagnýtingarverðlaun

""

Landakort á netinu, sem hefur að geyma kortlagningu allra staða sem koma fyrir í Íslendingasögunum, varð hlutskarpast í samkeppni um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands 2015 sem afhent voru í dag. Tvö önnur verkefni voru verðlaunuð en þau snúa annars vegar að þróun aðferðar við ræktun þörunga sem nýtast til framleiðslu á andoxunarefnum og hins vegar þróun stuðnings- og meðferðarþjónustu fyrir foreldra sem glíma við erfiða líðan vegna þeirra breytinga sem barneignir hafa í för með sér. Verðlaunafé í keppninni hefur aldrei verið hærra en það nam samtals 3,5 milljónum króna. 

Samkeppni um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands hefur verið haldin með einum eða öðrum hætti í nærri tvo áratugi og er markmið hennar að hvetja starfsmenn og stúdenta til að þróa áfram hugmyndir og rannsóknarniðurstöður sem hagnýta má samfélaginu til góða. Að þessu sinni bárust tólf hugmyndir í samkeppnina frá flestum fræðasviðum skólans. Þrenn verðlaun voru veitt að þessu sinni, en verðlaunafé í samkeppninni var tvöfalt meira en á síðasta ári.

Fyrstu verðlaun að upphæð tvær milljónir króna hlaut verkefnið „Icelandic Saga Map“. Það er hugarfóstur Emily Diönu Lethbridge, nýdoktors við Miðaldastofu Háskóla Íslands, en ásamt henni hafa þau Trausti Dagsson þjóðfræðingur, forritari og hönnuður, Hjördís Erna Sigurðardóttir, meistaranemi í sagnfræði við Háskóla Íslands og aðstoðarmaður við Stofnun Árna Magnússonar, Gísli Pálsson, doktorsnemi í fornleifafræði við Háskólann í Umeå og starfsmaður Fornleifastofnunar Íslands, og Logi Ragnarsson, forritari hjá Qlik, unnið að verkefninu. 

Um er að ræða rafrænt kort sem öllum er aðgengilegt á netinu þar sem textar allra Íslendingasagnanna eru kortlagðir, hnitsettir og tengdir landakorti. Kortið er afrakstur fimm ára rannsóknarvinnu á miðaldabókmenntasögu Íslands. Reynt er að tengja bókmenntir við raunverulegt landslag eða staði og rök færð fyrir því að landslagið sjálft geti stuðlað að varðveislu sagna. Dómnefndin í samkeppninni telur verkefnið sýna ótvírætt hversu miklir hagnýtingarmöguleikar liggi í að virkja menningararf þjóðarinnar, hvort heldur er til fræðslu eða afþreyingar. Í verkefninu felist endurnýjun lífdaga hinna fornu Íslendingasagna fyrir bæði Íslendinga og þá sem sækja landið heim. 

Önnur verðlaun hlýtur verkefnið „Aðferð við að þróa seltukæra þörunga til vaxtar í sjó og aukinnar framleiðslu á andoxunarefnum“. Verðlaunafé nemur einni milljón króna. Að baki verkefninu standa Sigurður Brynjólfsson, prófessor í vélaverkfræði við Háskóla Íslands, Weiqi Fu, gestadósent við Háskóla Íslands og rannsóknavísindamaður við New York háskóla í Abu Dhabi, Freyr Sverrisson, BS í verkfræðilegri eðlisfræði, og Kristófer Þór Magnússon, BS í vélaverkfræði.  

Verkefnið felst í því að þróa seltukæra þörunga þannig að þeir geti vaxið í vatni með lægra seltuinnihaldi en venjulega, þ.e. í sjó.  Með því móti er hægt að draga úr kostnaði og losun óæskilegs úrgangs við framleiðsluna. Þörungar hafa verið nýttir sem matur, fóður og áburður í langan tíma og eru þeir, eða hlutar þeirra, notaðir til að framleiða þykkiefni til matvælaiðnaðar og annars iðnaðar, í snyrtivörur, sem fæðubótarefni auk heilsubaða, svo nokkuð sé nefnt. Notagildi þeirra hefur vaxið mikið síðustu áratugi og er mikil eftirspurn eftir þeim á alþjóðamarkaði. Lúteín er andoxunarefni sem verndar frumur líkamans gegn skemmdum af völdum sindurefna en það eru skaðleg náttúruleg efni sem ráðast á frumurnar og valda þeim tjóni. Með þessari nýju aðferð er framleiðsla lúteíns mun hraðari en eldri aðferðir. „Dómnefndin telur verkefnið vera spennandi og glæsilegt dæmi um hvernig hægt er að hagnýta góðar rannsóknir sem stundaðar eru innan háskólans. Í þessu verkefni er komið til móts við kröfur markaðar um aukna framleiðslu og samtímis er svarað kalli samfélagsins um græna orku og sjálfbærni. Stofnun sprotafyrirtækis er fyrirhuguð og eru markaðsmöguleikar miklir,“ segir í umsögn dómnefndar. 

Þriðju verðlaun að upphæð hálf milljón króna hlaut verkefnið „Barneignir og erfiðar áskoranir. Þróun meðferðarþjónustu fyrir ungt fólk er tekst á við lífsbreytingar og erfiðar áskoranir vegna barneignareynslu“. Að verkefninu stendur Hildur Sigurðardóttir, lektor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og ljósmóðir hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi.

Hildur vinnur að þróun mælitækja sem kanna annars vegar viðhorf kvenna til brjóstagjafar og hins vegar til fæðingarinnar sjálfrar, svo sem fæðingarótta og áfallastreitueinkenna. Auk þess er unnið að mælitæki til að meta lífsgæði foreldra sem takast á við ófrjósemi og meðferð sem tengist henni. Jafnhliða þróun á mælitækjunum er þróuð stuðnings- og meðferðarþjónusta fyrir mæður og foreldra sem glíma við erfiða líðan vegna þeirra lífsbreytinga sem barneignir hafa í för með sér. Með því að nýta mælitækin er vonast til að unnt verði að grípa fyrr inn í og veita þeim foreldrum sem þurfa á að halda stuðning og jafnvel vinna gegn þróun alvarlegri geðrænna vandamála. Í umsögn dómnefndar segir m.a. að verkefnið hafi mikinn samfélagslegan ávinning, sé mjög hagnýtt og langt á veg komið og með skýra fyrirhugaða framvindu um að treysta samstarf og aðkomu ólíkra aðila sem sinna þjónustu sem tengist verkefninu. 

Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands eru samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Árnason|Faktor og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands en síðastnefndu aðilarnir leggja sigurvegurum m.a. til sérfræðiráðgjöf auk þess að taka þátt í dómnefndarstörfum.

Verðlaunahafar ásamt formanni dómnefndar og rektor. Frá vinstri: Kristinn Andersen, formaður dómefndar, Freyr Sverrisson, Sigurður Brynjólfsson, Emily Diana Lethbrigde, Hjördís Erna Sigurðardóttir, Hildur Sigurðardóttir, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Verðlaunahafar ásamt formanni dómnefndar og rektor. Frá vinstri: Kristinn Andersen, formaður dómefndar, Freyr Sverrisson, Sigurður Brynjólfsson, Emily Diana Lethbrigde, Hjördís Erna Sigurðardóttir, Hildur Sigurðardóttir, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.