Skip to main content
21. apríl 2023

Fyrstu tillögur að hönnun í Sögu kynntar fyrir starfsfólki 8. maí

 Fyrstu tillögur að hönnun í Sögu kynntar fyrir starfsfólki 8. maí - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hönnun og skipulag á Menntavísindasviði í Sögu er í fullum gangi og vinna við útboð í undirbúningi, staða á framkvæmdum og framtíð húsnæðis Háskóla Íslands í Stakkahlíð er til umfjöllunar í fréttabréfi mánaðarins um Sögu.

Hönnun innandyra í Sögu 

Í upphafi maí mun starfshópur um húsnæðismál rýna í tillögur um hönnun og staðsetningu kennslu og náms á hæðum 0 til 2. Sú vinna byggir á þarfagreiningu Menntavísindasviðs og á húsrýmislýsingum sem unnar voru í fyrra. Þá mun arkitekt funda á næstu dögum með fulltrúum deilda og námsbrauta varðandi þarfir kennslu- og námsaðstöðu. Einnig mun vinnuhópur sem rýnt hefur í mögulega samlegð og ávinning af staðsetningu Vísindaheima, Mixtúru og FABLAB í Sögu funda með samráðshópi í byrjun maí. Fyrstu tillögur að hönnun rýma verða kynntar starfsfólki á opnum fundi mánudaginn 8. maí. Að því loknu gefst deildum, stjórnsýslu og notendahópum kostur á að rýna tillögurnar og skila ábendingum. Þá er stefnt að því að bjóða starfsfólki Menntavísindasviðs að fara í heimsóknir í Sögu  í maí. Þann 31.maí fer sviðsþing Menntavísindasviðs fram og vonir standa til að þá verði hægt að kynna raunhæfa sviðsmynd á hönnun starfsemi MVS í Sögu.

Staða framkvæmda í Sögu 

Verið er að ljúka við framkvæmdir á norðurálmu hússins. Skipt verður um álglugga á syðri hluta 1. og 2. hæðar suðurálmu en búið var að skipta um á nyrðri hluta álmunnar. Vinna er að hefjast við viðgerðir á Grillinu þar sem skipta þarf um glugga og endurnýja ytra byrði fyrir ofan þá auk þess að lagfæra þak. Áætlað er að viðgerðum utanhúss verði lokið í haust. Verið er að rífa niður veggi í kjallara en búið er að hreinsa út úr 5. – 7. hæð og verið er að undirbúa útboð sem felur í sér að undirbúa hæðirnar fyrir innréttingar og milliveggi. Framkvæmdir eru að hefjast við endurbætur á 2. hæð. Unnið er að breytingum á tólf gistirýmum HÍ á 3. hæð norðanmegin þannig að hægt sé að leigja út allt að 27 eins herbergja rými eða opna á milli og útbúa 6 tveggja herbergja rými auk 15 eins herbergja rýma. Verkfræðistofan Efla hefur verið ráðin til að halda utan um útboð á framkvæmdum við frágang innahúss á efri hæðum byggingarinnar. Vonast er til að vinna við útboðsgögn gangi hratt og vel fyrir sig og að hægt verði að bjóða verkið út á næstu vikum.

Skólahúsið fagra við Stakkahlíð 27. apríl

Skólahúsið fagra við Stakkahlíð, er yfirskrift viðburðar sem haldinn verður fimmtudaginn 27. apríl kl. 16.30 þar sem fjallað verður um sögu og menningu skólahússins við Stakkahlíð 1, núverandi húsnæði Menntavísindasviðs. Haldin verður málstofa og kynning á kennaraskólahúsinu við Stakkahlíð sem tekið var í notkun fyrir rúmum 60 árum. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs ávarpa samkomuna. Pétur Ármannsson arkitekt ræðir um höfunda og listræn sérkenni skólahússins á Rauðarárholti ásamt stöðu þess og samhengi í skipulagi Reykjavíkur. Málfríður Kristjánsdóttir arkitekt segir frá Steinari Guðmundssyni, aðalarkitekt skólahússins. Ólafur Proppé fyrrverandi rektor Kennaraháskólans fjallar um listaverkin í skólahúsinu. Að lokum verður farin skoðunarferð um skólahúsið. Í ljósi flutnings sviðsins úr Stakkahlíð velta mörg fyrir sér hvaða starfsemi muni eiga sér stað í húsnæðinu í framtíðinni. Stefnt er að því að Listaháskóli Íslands flytji að minnsta kosti tímabundið inn i Hamar í Stakkahlíð haustið 2024 auk þess hefur Barna- og menntamálaráðuneytið lýst yfir áhuga á að nýta húsnæðið í Stakkahlíð til lengri eða skemmri tíma. Nánari upplýsingar um viðburðinn hér

 

Saga - hús menntunar og vísinda