Fyrstu kynni Íslendinga og Inúíta á sýningu í Veröld | Háskóli Íslands Skip to main content
16. janúar 2019

Fyrstu kynni Íslendinga og Inúíta á sýningu í Veröld

„Það sem er óvenjulegt við þessa heimsókn er að hér er í raun um að ræða fyrstu samvistir Íslendinga og Inúíta þó að stöku dæmi séu um fyrri kynni. Inúítar frá Grænlandi höfðu vart nokkru sinni sést á Íslandi þó að einungis séu um 300 kílómetrar á milli landanna þar sem styst er,“ segir Sumarliði Ísleifsson, lektor í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands og höfundur sýningar um heimsókn nærri 90 Grænlendinga til Ísafjarðar í ágúst árið 1925. Sýningin verður opnuð fimmtudaginn 17. janúar kl. 16 í sýningarsal Veraldar – húss Vigdísar en hún verður þar og í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni fram til 30. júní nk.

Sýningin samanstendur af ljósmyndum Martinusar Simson frá heimsókninni og textum um heimsóknina. „Kjarni sýningarinnar er menningarsamskipti og hér er fjallað um hvenær samskipti á milli Inúíta í Grænlandi og Íslendinga hófust, hvernig stóð á þeim og af hverju þau einkenndust. Hér koma ýmis hugtök við sögu, t.d. nýlendustefna, fordómar og samhygð,“ segir Sumarliði.

Skelltu sér í bíó og sýndu listir sínar á kajökum

Það vakti mikla athygli á sínum tíma þegar danska skipið Gustav Holm kom til Ísafjarðar með á annað hundrað manns. Ekki var óvenjulegt að skip kæmi á höfnina en þessir gestir voru sjaldséðir þó þeir væru nágrannar. Um borð í Gustav Holm voru 89 Grænlendingar auk danskrar áhafnar. Flestir þeirra voru frá Austur-Grænlandi, nánar tiltekið frá Ammassalik og svæðinu þar í kring. Á annan tug kom þó frá Vestur-Grænlandi. 

Sumarliði segir heimsókn Grænlendinganna mega rekja til þess að Norðmenn hafi ásælst Austur-Grænland eða hluta þess á þessum tíma. „Dönsk stjórnvöld svara með því að flytja hóp Grænlendinga frá heimkynnum sínum á Ammassalik-svæðinu um 800 km í norður til Scoresbysunds. Það var þessi hópur sem kom til Ísafjarðar,“ segir Sumarliði.

Sem von er vakti heimsókn svo stórs hóps mikla athygli á sínum tíma og var að sögn Sumarliða aðalfréttaefnið í ágúst 1925. „Aðalerindi hópsins var af tvennum toga. Annars vegar þurfti að vígja prest fyrir hina nýju byggð í Scoresbysundi, Sejer Abelsen, en meiri fyrirhöfn var að gera það í Grænlandi. Hitt erindið var að taka vistir sem höfðu verið fluttar til Ísafjarðar og áttu að fara áfram norður á bóginn,“ segir Sumarliði og bætir við: „Heimsóknin stóð í fjóra daga frá 25. ágúst 1925. Ýmislegt var í boði. Hluti Grænlendinganna var við vígsluathöfnina í kirkjunni fimmtudaginn 27. ágúst og sungu þar við undirleik. Þá var boðið upp á bíltúra á vörubíl með sætum á pallinum og fólk rölti um bæinn. Einnig var boðið í bíó og sýnd kvikmyndin „Stóra Grænlandskvikmyndin“ frá 1922 þar sem dansk-grænlenski heimskautafarinn Knud Rasmussen kom mikið við sögu. Líka var söngskemmtan. Síðar var farið á útivistarsvæði Ísfirðinga í Tunguskógi og boðið upp á veitingar. Grænlendingarnir svöruðu fyrir sig með því að sýna listir sínar á kajökum við höfnina á Ísafirði við góðar undirtektir og mikla aðdáun.“

„Heimsóknin átti mikinn þátt í að glæða skilning á milli þjóðanna tveggja. Sögulega séð voru miklir fordómar í garð Grænlendinga hérlendis og þeir taldir standa Íslendingum langt að baki. Þessi viðhorf má rekja allt aftur til miðalda. Þess vegna er athyglisvert að sjá hversu fordómalaus samskipti gestgjafa og gesta voru í fyrstu heimsókn Grænlendinga til Íslands,“ segir Sumarliði Ísleifsson, lektor í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands og höfundur sýningar um heimsókn nærri 90 Grænlendinga til Ísafjarðar í ágúst árið 1925. 

Heimsóknin sló á fordóma gegn Grænlendingum
Spurður hvort heimsóknin hafi haft einhver áhrif á samskipti Grænlands og Íslands segir Sumarliði að hún hafi verið mikið blöðum á þessum tíma og oft rifjuð upp síðar. „Heimsóknin átti mikinn þátt í að glæða skilning á milli þjóðanna tveggja. Sögulega séð voru miklir fordómar í garð Grænlendinga hérlendis og þeir taldir standa Íslendingum langt að baki. Þessi viðhorf má rekja allt aftur til miðalda. Þess vegna er athyglisvert að sjá hversu fordómalaus samskipti gestgjafa og gesta voru í fyrstu heimsókn Grænlendinga til Íslands. Tvennt kemur til. Annars vegar var búið að undirbúa heimsóknina og m.a. var skrifað um hana í blaðið Skutul sem kom út á Ísafirði. Þar var farið lofsamlegum orðum um Grænlendinga. Hins vegar kom einfaldlega á daginn að við kynni sá fólk að fordómarnir áttu ekki við rök að styðjast.“

Aðspurður hvernig það hafi komið til að hann tók að sér að vinna að sýningunni segist Sumarliði lengi hafa haft áhuga á viðhorfum til Íslands og Grænlands, utan frá séð. „Það leiddi síðan til þess að ég fór að kanna sérstaklega viðhorf Íslendinga til Grænlands og Grænlendinga. Mér fannst ljósmyndirnar mjög athyglisverðar í því samhengi,“ segir Sumarliði sem hvetur fólk til að leggja leið sína á sýninguna. Að henni standa Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Safnahúsið á Ísafirði en þar var svipuð sýning síðastliðið sumar.

Sem fyrr segir er opnun sýningarinnar í Veröld - húsi Vigdísar fimmtudaginn 17. janúar kl. 16 og þangað eru allir velkomnir. Boðið verður upp á léttar veitingar. 

Grænlendingar í heimsókn
Grænlendingar í heimsókn