Skip to main content
25. júní 2019

Fyrsta lokaverkefnið sem sett er fram á íslensku táknmáli

""

Fyrsta meistaraprófsverkefni sem sett var fram og skilað á íslensku táknmáli við Háskóla Íslands var kynnt á málþingi meistaranema á Menntavísindasviði á dögunum. Verkefnið var unnið af Eyrúnu Ólafsdóttur, M.Ed.-nema í menntun án aðgreiningar, og naut hún leiðsagnar Karenar Rutar Gísladóttur dósents og Hafdísar Guðjónsdóttur prófessors, sem báðar starfa við Deild kennslu- og menntunarfræði. 

Verkefni Eyrúnar ber heitið „Byrjendalæsi sem brú milli íslensks táknmáls og íslensks ritmáls – Reynsla döff  kennara“ og byggist á starfendarannsókn á hennar eigin starfi í lestrarkennslu barna með táknmál að móðurmáli. Rannsóknin fór fram á árunum 2012-2017 og tilgangur hennar var að þróa byrjendalæsi og aðlaga það að þörfum döff nemenda. Rannsóknarspurning Eyrúnar var: Hvernig er best að nýta byrjendalæsi og samskipti við nemendur til að þróa kennslufræði í lestrarkennslu heyrnarlausra? 

„Helstu niðurstöður benda til þess að mikilvægt sé að tvinna saman ólíkar leiðir til tjáningar í lestrarkennslunni sjálfri, þ.e.a.s. ritun, lestur og samskipti í gegnum táknmál, til að gefa nemendum tækifæri til að setja merkingu í hið ritaða form íslenskunnar og geta nýtt sér það til félagslegra samskipta,“ segir Eyrún en hún er sjálf döff grunnskólakennari í Hlíðaskóla.

Eyrún, sem brautskráðist frá Háskóla Íslands á laugardag, segir það nýmæli að nýta byrjendalæsi í lestrarkennslu heyrnarlausra hér á landi. „Ég renndi því nokkuð blint í sjóinn þegar ég byrjaði að aðlaga þessa kennsluaðferð að þörfum heyrnarlausra en nýtti mér bæði fyrri þekkingu af lestrarkennslu og eigin reynslu sem heyrnarlaus einstaklingur,“ útskýrir hún en byrjendalæsi er kennsluaðferð í læsiskennslu barna í 1. og 2. bekk sem innleidd hefur verið í marga grunnskóla. Hugmyndin að baki byrjendalæsi gerir ráð fyrir að börn læri best saman, sama hvaða færni hvert og eitt er að ná tökum á hverju sinni. 

Ljóst er að rannsókn Eyrúnar er brautryðjendaverk því þetta er fyrsta verkefni við Háskóla Íslands sem samið er á táknmáli af döff nemenda. Í umsögn um verkefnið segir m.a.: „Verkefnið er sett fram á móðurmáli höfundar, táknmáli. Það gefur lesandanum ómetanlegt tækifæri til að fá innsýn í veruleika minnihlutahóps táknmálstalandi fólks og gefur þessari skemmtilegu og fræðandi frásögn og umfjöllun meiri dýpt og gildi. Flæði frásagnarinnar og samhengi gefur til kynna traustan faglegan bakgrunn höfundar, þekkingu hennar á viðfangsefninu og heiðarlega og vandaða úrvinnslu þess á gagnrýnan og ígrundandi hátt. Verkefnið er afar vel unnið, það er skemmtilegt „aflestrar“ og varpar skýru ljósi á viðfangsefni sem er einstakt brautryðjanda verkefni.“ 

Eyrún Ólafsdóttir tekur hér við brautskráningarskírteini sínu úr hendi Jónínu Völu Kristinsdóttur, forseta Deildar kennslu- og menntunarfræði, í Laugardalshöll á laugardag.