Skip to main content
1. október 2023

Fyrirkomulag heimalesturs breikkar bilið frekar en að brúa 

Fyrirkomulag heimalesturs breikkar bilið frekar en að brúa  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Frumniðurstöður úr nýrri lestrarrannsókn við Háskóla Íslands sýna að töluverð ábyrgð er lögð á foreldra að tryggja að börn fái lestrarþjálfun við hæfi á sama tíma og aðstæður fjölskyldna til að sinna heimalestri eru mjög misjafnar. 

„Því hafa heimilsaðstæður nemenda áhrif á hversu mikla þjálfun þau fá sem gengur þvert gegn áformum um jafnrétti til náms. Því má segja að hefðbundið fyrirkomulag heimalesturs þar sem mikil ábyrgð er lögð á foreldra breikki bil á milli nemenda frekar en að brúa það.“

Þetta segir Anna Söderström sem rannsakar lestrarmenningu á Íslandi í doktorsverkefni sínu í þjóðfræði, með áherslu á lestrarkennslu barna á grunnskólastigi. Þetta gerir hún með því að skoða opinber gögn og umræður um læsi með aðferðum gagnrýninnar orðræðugreiningar. Að auki tók hún viðtöl við foreldra um reynslu þeirra af heimalestri barna. 

„Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna að ríkjandi áherslur á lestur og læsi ganga út frá þröngri túlkun þessara hugtaka. Læsi er gjarnan sett í samhengi við tölur og kvarða sem auðvelt er að mæla, eins og til dæmis lestrarhraða. Þessar áherslur móta skilning okkar á hvað rúmast innan læsishugtaksins og útilokar um leið annan skilning á hvað læsi er og getur verið. Í þessu samhengi má líka nefna að opinberar lestrarstefnur á Íslandi eru undir miklum áhrifum frá OECD sem stendur að PISA-könnunum.“ 

Anna Söderström hefur afar lengi haft mikinn áhuga á því hvernig við sem manneskjur skiljum veruleika okkar og athafnir. Hana hefur fýst að skilja hvað það er sem hefur áhrif á hugmyndir okkar um lífið og tilveruna og hvaða afleiðingar þessar hugmyndir geta haft. Þessi rannsókn Önnu fellur býsna vel að þessu því hún snýst um að skoða ríkjandi áherslur á lestur og læsi á gagnrýninn hátt og setja í menningarlegt og félagslegt samhengi. Hún ætlar sér að skoða hvaða afleiðingar þessar áherslur hafa, bæði hvað varðar sýn okkar á læsi en einnig á hver teljist læs.

Lestur kvöð fyrir marga nemendur

Anna starfaði áður sem safnstjóri skólabókasafns á Selfossi. Hún segir að þegar hún starfaði þar hafi hún oft orðið þess vör að lestur gat verið mikil kvöð fyrir marga nemendur. 

„Þá upplifði ég einnig að í menntakerfinu væri mikil áhersla lögð á iðkun lesturs, t.d. að lesa ákveðið magn af blaðsíðum eða bókum, en merkingarsköpunin gleymdist oft. Mikið var gert úr tæknilegum hliðum lesturs eins og lestrarhraða en á sama tíma skorti að nemendur hefðu aðgang að fleiri bókum til að lesa. Mér fannst þessar þversagnir kalla á þjóðfræðilega rannsókn og því ákvað ég að sækja um doktorsnám til þess að fá vettvang til að reyna að skilja betur hvað þarna væri á ferðinni,“ segir Anna.  

Anna vonast líka til að niðurstöður rannsóknarinnar muni vekja umræður um afleiðingar ríkjandi stefnu og kennsluhátta við lestrarnám. „Það er mikilvægt að niðurstöður lokist ekki inni í skjalaskápum heldur sé miðlað þangað sem þær kunna að gera gagn eða vekja áhuga,“ segir Anna. „Það er kannski fyrst þá sem rannsóknin fer virkilega að skipta máli, sem eitt púsl í einhverri stærri mynd.“

Hvernig er lestur bestur?

Anna segir að á undanförnum árum hafi mikið verið rætt og ritað um lestur og læsi en þrátt fyrir það hafi félags- og menningarlegt samhengi lesturs orðið út undan. 

„Mér finnst mikilvægt að þau sjónarmið fái rými í umræðum um lestur. Þess vegna vil ég rannsaka lestur út frá þjóðfræðilegri nálgun en venjan hér á landi hefur verið að rannsaka hann frekar út frá sjónarmiðum menntunarfræði og sálfræði. Lestur á sér stað í samhengi og hann er athöfn sem er mjög gildishlaðin í okkar samfélagi. Þetta endurspeglast meðal annars í endurteknum slagorðum á borð við „lestur er bestur“. Mér fannst orðið tímabært að setja spurningarmerki við slíkar staðhæfingar og opna á gagnrýna umræðu þar sem afleiðingarnar sem þessar áherslur kunna að hafa séu teknar til skoðunar, ekki síst með tilliti til þeirra nemenda sem ekki finna sig í lestri á þessum forsendum.“ 

Vonandi víkkar rannsóknin sjóndeildarhringinn í læsirannsóknum

Anna vonar að rannsóknin sín muni víkka sjónardeildarhringinn í læsirannsóknum hér á landi. „Þá vona ég einnig að rannsóknin sýni fram á gildi þjóðfræðirannsókna á þessu sviði með því að sýna fram á mikilvægi þess að taka félaglega og menningarlega þætti inn í menntarannsóknir til að skilja betur samhengi menntunar.“

Anna vonast líka til að niðurstöður rannsóknarinnar muni vekja umræður um afleiðingar ríkjandi stefnu og kennsluhátta við lestrarnám. „Það er mikilvægt að niðurstöður lokist ekki inni í skjalaskápum heldur sé miðlað þangað sem þær kunna að gera gagn eða vekja áhuga,“ segir Anna. „Það er kannski fyrst þá sem rannsóknin fer virkilega að skipta máli, sem eitt púsl í einhverri stærri mynd.“

Anna segir að grunnskólinn feli í sér skyldunám og þær áherslur sem við sjáum á lestur og læsi, t.a.m. sem mælanlega færni, séu því eitthvað sem snerti flest börn á einn eða annan hátt. „Þess vegna er mjög aðkallandi að ræða þetta málefni með gagnrýnum hætti til að tryggja að skólastarfið taki mið af aðstæðum allra nemenda, ekki eingöngu sumra, þannig að tryggja megi að öll börn fái jöfn tækifæri til náms á eign forsendum,“ segir Anna.

Hún bætir því við að rannsóknin miði að því að auka sjálfbærni innan íslensks menntakerfis á sama tíma og hún styðji við grunnþætti í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem lúti að menntun handa öllum. „Menntakerfið verður ekki sjálfbært ef það tekur ekki tillit til allra nemenda og tryggir að námið sé uppbyggilegt fyrir öll.“

Leiðbeinandi er Valdimar Tr. Hafstein, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Í doktorsnefndinni eru auk Valdimars, Davíð Ólafsson, lektor við Íslensku og menningardeild, Karen Rut Gísladóttir, prófessor við Deild kennslu- og menntunarfræði við HÍ, og Maria Zackariasson, prófessor við deild sagnfræði- og samtímarannsókna við Södertörn-háskólann í Svíþjóð.

Anna Söderström