Skip to main content
15. maí 2024

Friðar- og afvopnunarmál í brennidepli á ráðstefnu ACONA

Friðar- og afvopnunarmál í brennidepli á ráðstefnu ACONA - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fyrrverandi utanríkisráðherra Svíþjóðar, fulltrúi samtakanna ICAN sem fengu friðarverðlaun Nóbels árið 2017 og fastafulltrúi Bandaríkjanna við afvopnunarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna eru aðalfyrirlesarar á alþjóðlegu ráðstefnunni ACONA Conference Reykjavík: Negotiating the Future of Diplomacy sem fram fer í Veröld – húsi Vigdísar föstudaginn 17. maí. Ráðstefnan er öllum opin en hún verður einnig í streymi: https://vimeo.com/event/4303529

Á ráðstefnunni verða friðar - og afvopnunarmál í brennidepli en mikil óvissa ríkir í öryggis- og afvopnunarmálum í heiminum um þessar mundir. Ekki sér fyrir endann á stríðinu í Úkraínu á sama tíma og Rússar hafa dregið sig úr New Start kjarnorkuafvopnunarsamkomulaginu við Bandaríkin. Þetta eykur enn frekar á óstöðugleika í heiminum en í fyrsta skipti síðan á sjöunda áratugnum stöndum við frammi fyrir því að engar hömlur eru lengur á tveimur stærstu kjarnavopnabúrum heims.

Einn liður í því að svara þörfum alþjóðasamfélagsins í afvopnunarmálum er að þjálfa næstu kynslóð sérfræðinga á þessu sviði en það er einmitt hlutverk The Arms Control Negotiation Academy, ACONA, alþjóðlegs námskeiðs í samningatækni og afvopnunarmálum. Í þessari viku eru ungir sérfræðingar víðs vegar úr heiminum staddir á Íslandi til að læra um samningatækni og afvopnunarmál og vinna að skapandi lausnum til framtíðar.

ACONA Conference Reykjavík er haldin í tengslum við námskeiðið en það er Höfði – friðarsetur Háskóla Íslands í samstarfi við the Negotiation Task Force og Belfer Center við Harvard-háskóla, Wilson Center og PRIF Peace Research Institute Frankfurt sem standa að námskeiðinu og ráðstefnunni. Námskeiðið er styrkt af íslenskum stjórnvöldum og íslenskir sérfræðingar hafa tekið þátt á hverju ári, en athygli vekur að hingað til hafa allir þátttakendurnir verið konur.

Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar í ár eru Margot Wallström, fyrrverandi utanríkisráðherra Svíþjóðar, Bruce Turner, sendiherra og fastafulltrúi Bandaríkjanna við afvopnunarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og Melissa Parke, framkvæmdastjóri ICAN (samtök um alþjóðlega herferð til afnáms kjarnavopna) sem fengu friðarverðlaun Nóbels árið 2017.

Dagskrá ráðstefnunnar má finna á vef Alþjóðamálastofnunar en þar má jafnframt skrá sig á ráðstefnuna: https://ams.hi.is/en/news/acona-conference-2024/

Lógó ACONA ráðstefnunnar