Skip to main content
29. júní 2023

Framúrskarandi ritgerðir um stafræna umbreytingu og stjórnun

Framúrskarandi ritgerðir um stafræna umbreytingu og stjórnun - á vefsíðu Háskóla Íslands

Stafræn umbreyting skipulagsheilda eins og fyrirtækja og stofnana, áherslur leiðtoga í fyrirtækjum sem valin hafa verið „fyrirtæki ársins“ og samskiptahæfni stjórnenda ríkisstofnana voru í brennidepli í þremur lokaritgerðum sem unnar voru við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og þóttu skara fram úr. Skil lokaritgerða vormisseris voru sem fyrr um miðjan maí og er alltaf ánægjulegt að sjá nemendur uppskera eins og sáð hefur verið á námsárunum. Eins og áður er alltaf sérstaklega gaman að fylgjast með nemendum skila lokaritgerðum sínum eftir þrotlausa vinnu og í vor voru þrjár ritgerðir sem sérstaklega sköruðu fram úr innan deildarinnar.

Rýndi í stafræna umbreytingu í fyrirtækjum

Ída María Halldórsdóttir útskrifaðist nú um síðastliðna helgi úr grunnnámi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun. Ída er 23 ára og hefur hún starfað hjá Íslandsbanka með námi. Hún skrifaði lokaritgerð sína undir leiðsögn Eðvalds Möller lektors og fjallar hún um stafræna umbreytingu fyrirtækja. Í ritgerðinni fjallar hún um innleiðingu stafrænnar umbreytingar, helstu áskoranir og algeng mistök við innleiðingu, áhrif heimsfaraldurs COVID-19 og fleiri mikilvæg atriði sem þarf að huga að. Ásamt því greinir hún frá lykilatriðum úr viðtölum sem hún tók við stjórnendur umupplifun þeirra af stafrænni umbreytingu í fyrirtækjunum sem þeir starfa hjá.

Við lestur ritgerðarinnar fá lesendur góða innsýn í ferlið sem stafræn umbreyting er og hverju þarf að huga að áður en haldið er í vegferðina. Áhugi á viðfangsefninu vaknaði eftir kynningu frá Eðvaldi á Þjóðarspeglinum síðastliðið haust. Að sögn Ídu kom það henni á óvart hversu margir þættir liggja að baki stafrænni umbreytingu og metur hún það svo að margir geri sér ekki grein fyrir því hversu flókið ferlið er og hve mikil vinna er að baki innleiðingu. Ída mun hefja meistaranám í verkefnastjórnun í Háskóla Íslands í haust þar sem hún stefnir að því að rannsaka viðfangsefnið enn frekar í meistararitgerð sinni. Með skrifunum í vor jókst áhuginn á viðfangsefninu til muna og sér hún jafnvel fyrir sér að starfa við stafræna umbreytingu í framtíðinni.

Hvernig má tryggja hagsmuni heildarinnar hjá fyrirtækjum og stofnunum?

Bjarki Sigurðarson er 26 ára og útskrifaðist úr meistaranámi í stjórnun og stefnumótun með ágætiseinkunn. Hann varði öðru námsári sínu í meistaranáminu við Columbia-háskóla í New York en samhliða því vann hann að meistararitgerð sinni sem fjallar um um áherslur í stjórnun og forystu skipulagsheilda á almennum jafnt sem opinberum vettvangi með tilliti til hagsmuna heildarinnar, þ.e. hagsmuna starfsfólks, viðskiptavina, samstarfsaðila, hluthafa og samfélagsins alls. Ritgerðina vann hann undir leiðsögn Auðar Hermannsdóttir aðjunkts og dr. Sigrúnar Gunnarsdóttur prófessors.

Við val á ritgerðarefni langaði Bjarka að kanna hvernig stjórnendur og leiðtogar framtíðarinnar gætu í sameiningu unnið að því að skapa hagkerfi öllum til hagsbóta. Þar væru skipulagsheildir reknar með áherslu á jákvæð og sjálfbær langtímasambönd við alla hagsmunaaðila sem forsendu fyrir lífvænleika skipulagsheildarinnar og hámörkun á sameiginlegri virðissköpun til lengri tíma. Markmið rannsóknarinnar var að fá innsýn í áherslur leiðtoga fyrirtækja hér á landi, sem hlotið hafa viðurkenningu VR sem „fyrirtæki ársins“ þegar kemur að þjónustu sem snertir hagsmuni heildarinnar. Þá var jafnframt leitast við að varpa ljósi á hvort og þá hvernig þessar áherslur birtast hjá viðkomandi fyrirtækjum í þjónustu þeirra og ábyrgð gagnvart hagsmunaaðilum sínum, s.s. í stefnu þeirra, áætlunum, tilgangi, daglegu starfi og samskiptum. Bjarki býr í New York og hyggst nú að loknu námi starfa þar við fyrirtækjaráðgjöf sem snertir stjórnun og stefnumótun. Hann hlakkar mikið til að nýta það sem hann hefur lært í náminu í komandi verkefnum og á starfsferlinum í framtíðinni.

Samskiptaþáttur stjórnunarstarfsins lykilþáttur í árangursríkri stjórnun

Helga Kristín Gestsdóttir er með BS-gráðu í iðjuþjálfafræðum og hefur starfað á Ráðgjafar- og greiningarstöð frá 2007. Hún útskrifaðist síðastliðna helgi úr meistaranámi í stjórnun og stefnumótun með ágætiseinkunn. Áhugi og eldmóður til að hafa áhrif á þjónustu og hvernig hún er skipulögð og útfærð knúði hana af stað í námið auk mikils áhuga á leiðtogafærni og að ná því besta fram hjá starfsfólki út frá styrkleikum og áhugasviðum. Samskiptaþáttur stjórnunarstarfsins er þar lykilþáttur til að stuðla að árangursríkri stjórnun og því ákvað Helga Kristín að rannsaka þann þátt í meistararitgerð sinni sem ber nafnið „Eftir höfðinu dansa limirnir“: Tilviksrannsókn á samskiptafærni stjórnenda ríkisstofnana og samskiptahæfnihluta stjórnendastefnu ríkisins. Rannsóknin var unnin undir leiðsögn Ingu Jónu Jónsdóttur dósents við Háskóla Íslands. Rannsóknin er fyrsta sinnar tegundar eðlis á Íslandi. Þar rýndi Helga Kristín í það hvort upplifun og reynsla starfsfólks ríkisstofnana á samskiptahæfni stjórnenda og rannsóknir og fræði um samskipti í starfi stjórnenda endurspeglist í þeim kröfum sem gerðar eru til stjórnenda ríkisins og koma fram í samskiptahæfnihluta stjórnendastefnu ríkisins.

Niðurstöður rannsóknarinnar gefa skýrar vísbendingar um að margt megi bæta hvað varðar samskiptafærni stjórnenda ríkisstofnana. Upplýsingaflæði og ákvarðanataka þarf að vera markvissari og skilvirkari og þá sérstaklega í breytingaferli. Samskiptafærni stjórnenda getur haft áhrif á árangur stofnana og í rannsókninni eru nefnd dæmi um hvað þurfi að bæta til að stuðla að enn frekari árangri. Greining á samskiptahæfnihluta stjórnendastefnu ríkisins leiðir í ljós að engum þætti sé þar ofaukið en vöntun virðist vera á ákveðnum hæfniskröfum innan samskiptahlutans sem gert er grein fyrir í niðurstöðum rannsóknarinnar. Mikilvægt sé að endurskoða stefnuna út frá þessum þáttum.

Viðskiptafræðideild óskar þeim öllum innilega til hamingju með áfangann. Áhugasömum er bent á að hægt er að skoða ritgerðirnar eða útdrátt úr þeim á Skemmunni.

´´