Skip to main content
26. ágúst 2019

Fræðsla og fjör á Nýnemadögum Menntavísindasviðs

Það verður líf og fjör í Stakkahlíð dagana 26.-30. ágúst næstkomandi þegar Nýnemadagar fara fram á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Í haust byrjar stór hópur nemenda á sviðinu og er þetta í fyrsta sinn sem boðið er upp á fjölbreytta dagskrá fyrir nýnema í heila viku. Í Nýnemavikunni fer kennslan af stað af fullum krafti en einnig verður skapað rými fyrir nýnema til að kynnast hver öðrum, kennurum og starfsfólki, húsnæðinu og þeirri þjónustu sem sviðið býður upp á.

Dagskráin hefst mánudaginn 26. ágúst kl. 9.00 með setningarathöfn í fyrirlestrarsölunum Bratta og Skriðu. Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Kolbrún Þ. Pálsdóttir forseti Menntavísindasviðs og Sævar Helgi Bragason stjörnufræðingur munu ávarpa nýnema á setningarathöfninni. Gestgjafar verða þau Jóna Þórey Pétursdóttir forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands og Sigurður Vopni Vatnsdal forseti Sviðsráðs Menntavísindasviðs. Að lokinni dagskrá munu nemendur á Menntavísindasviði fara með nýnema í kynnisferð um húsnæðið. Loks munu nýnemar fá kynningu og hagnýtar upplýsingar frá deildarforsetum og námsbrautarformönnum sinnar námsleiðar. Boðið verður upp á holla og góða næringu.

Þriðjudaginn 27. ágúst hefst kennsla á flestum námsleiðum fyrir hádegi. Ritver Menntavísindasviðs býður upp á fræðslu þriðjudag og fimmtudag kl. 12.30 fyrir nemendur sem hafa annað tungumál en íslensku. Nemendur við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda og Deild menntunar og margbreytileika munu fara í liðsheildarvinnu undir stjórn eldri nemenda eftir hádegi. Á sama tíma geta aðrir nemendur sótt spennandi smiðjur, annars vegar hjá Þráni Árna Baldvinssyni, meðlimi í Skálmöld, en hann er fyrrum nemandi við sviðið og mun deila reynslu sinni. Hins vegar mun Tryggvi Thayer kennsluþróunarstjóri Menntavísindasviðs fjalla um skólann í Sci-Fi myndum.

Miðvikudagurinn 28. ágúst hefst á liðsheildarvinnu nýnema við Deild faggreinakennslu og Deild kennslu- og menntunarfræði. Á sama tíma geta aðrir nemendur sótt fjölbreytta fræðslu frá bókasafni Menntavísindasviðs, náms- og starfsráðgjöf og ritveri m.a. um leitarvefi, fræðileg skrif á háskólastigi, vellíðan í námi og tímastjórnun. Smiðjurnar Lord of the Rings og föruneyti barnsins! undir stjórn Eyglóar Rúnarsdóttur aðjunkts í tómstunda- og félagsmálafræði og Vertu múrbrjótur! verða opnar öllum áhugasömum um mannréttindi og jöfnuð. Nemendur geta fræðst um skiptinám í Skála kl. 15.00 en Háskóli Íslands á í samstarfi við yfir fjögur hundruð háskóla um allan heim.

Á fimmtudag og föstudag verður nýnemum boðið upp á heimsóknir á vettvang. Menntavísindasvið á marga bandamenn um góða menntun og lögð er rík áhersla á að nemendur séu hluti af því samfélagi frá fyrsta degi. Hægt verður að heimsækja fleiri tugi skóla og stofnana sem tengjast uppeldi, tómstundum, íþróttum, menningu, lýðheilsu og menntun. Nauðsynlegt er að nemendur skrái sig í vettvangsheimsóknir í gegnum Moodle.

Föstudaginn 30. ágúst geta nýnemar fengið áframhaldandi innsýn í sinn framtíðar starfsvettvang með því að heimsækja skóla eða stofnanir í nágrenni við Stakkahlíð. Efnt verður til góðrar grillveislu í hádeginu þar sem starfsfólk mun standa vaktina og spjalla við nemendur á meðan plötusnúður þeytir skífum. Eftir hádegi verður fræðsla bókasafns, náms- og starfsráðgjafar og ritvers endurtekin fyrir þá sem ekki gátu sótt hana deginum fyrr. Þá eiga nemendur kost á að sækjaá hagnýta kynningu frá Hljóðbókasafni og sérstaka bragðlaukasmiðju sem Anna Sigríður Ólafsdóttir prófessor í næringarfræði stendur fyrir. 

Dagskrá Nýnemadaga má nálgast HÉR.

Ýmsar óvæntar uppákomur verða í hádegishléum á Nýnemadögum, t.d. lifandi tónlist, dans og básar. Fulltrúar nemendafélaga verða á staðnum alla vikuna til að fræða nýnema og kynna fyrir þeim starfið, félagslífið og hagsmuni stúdenta. Stúdentaráð mætir sterkt til leiks og margs konar grasrótar- og hagsmunasamtök stúdenta láta sjá sig, s.s. Femínistafélagið, Háskólafélag Amnesty, Q-félag hinsegin stúdenta og sjálfbærni- og umhverfisnefnd.

Á bókasafni Menntavísindasviðs verður upplýsingaborð fyrir nýnema þar sem hægt verður að fá svör við flestu því sem tengist náminu og þjónustunni.
Nýnemadögum verður slitið formlega með fögnuði nemendafélaga Menntavísindasviðs á föstudagskvöld.

Allir nýnemar eru hvattir til að taka þátt í dagskrá Nýnemadaga og er þátttaka í þeim hluti af náminu.

Það verður líf og fjör í Stakkahlíð dagana 26.-30. ágúst næstkomandi þegar Nýnemadagar fara fram á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.