Fjórar efnilegar vísindakonur verðlaunaðar | Háskóli Íslands Skip to main content
4. janúar 2019

Fjórar efnilegar vísindakonur verðlaunaðar

Fjórar efnilegar vísindakonur voru verðlaunaðar fyrir rannsóknarverkefni sín á 19. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu Háskóla Íslands. Verðlaunin voru afhent við slit ráðstefnunnar á Háskólatorgi þann 4. janúar að viðstöddum Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítala og öðrum ráðstefnugestum. Kristín Ingólfsdóttir, formaður undirbúningsnefndar ráðstefnunnar og prófessor í lyfjafræði, stjórnaði athöfninni.

Kristín Elísabet Allison, doktorsnemi í líffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild, hlaut hvatningarverðlaun Jóhanns Axelssonar sem Félag íslenskra lífeðlisfræðinga veitir efnilegum vísindamanni fyrir verkefni á sviði lífeðlisfræði eða skyldra greina. Kristín hlaut verðlaunin fyrir verkefnin „Pontin og Reptin í taugakerfi ávaxtaflugunnar“ og „Hver flytur sítratið? Tjáning SLC13A5 í mannsheilanum og tengsl við alvarleg flog í börnum“. Yrsa Sverrisdóttir, formaður félagsins afhenti verðlaunin.

Priyanka Sahariah, nýdoktor við Lyfjafræðideild, hlaut verðlaun úr Þorkelssjóði til efnilegs námsmanns fyrir verkefni á sviði lyfja- og eiturefnafræði, en það ber heitið „Antibacterial efficacy of chitosan derivatives towards planktonic cells and bacterial biofilm“. Kristín Ólafsdóttir, formaður valnefndar og dósent í lyfja- og eiturefnafræði við Læknadeild, afhenti verðlaunin.

Steinunn Arnars Ólafsdóttir, doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við Læknadeild, hlaut verðlaun velferðarráðuneytisins til efnilegs vísindamanns fyrir verkefni á sviði forvarna eða heilsueflingar fyrir verkefnið „Þróun á ActivABLES; gangvirkur tæknibúnaður til þjálfunar fyrir einstaklinga eftir heilaslag sem búa í heimahúsum“. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra afhenti verðlaunin.

Þórhildur Halldórsdóttir, nýdoktor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum, hlaut verðlaun mennta- og menningarmálaráðuneytisins til efnilegs vísindamanns fyrir verkefnið „Polygenic Risk: Predicting Depressive Symptoms in Clinical and Epidemiological Cohorts of Youth“. Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, afhenti verðlaunin fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Háskóli Íslands óskar þeim hjartanlega til hamingju með viðurkenningarnar.

Myndir Kristins Ingvarssonar frá ráðstefnunni má nálgast á myndasafni Háskóla Íslands.

Jón Atli Benediktsson, Svandís Svavarsdóttir, Kristín E. Allison, Þórhildur Halldórsdóttir, Priyanka Sahariah, Steinunn A. Ólafsdóttir, Kristín Ingólfsdóttir, Jóhann Axelsson, Yrsa Sverrisdóttir og Inga Þórsdóttir
Kristín Elísabet Allison, doktorsnemi í líffræði og Yrsa Sverrisdóttir, formaður Félag íslenskra lífeðlisfræðinga.
Priyanka Sahariah, nýdoktor við Lyfjafræðideild og Kristín Ólafsdóttir, dósent við Læknadeild.
Priyanka Sahariah, nýdoktor við Lyfjafræðideild og Kristín Ólafsdóttir, dósent við Læknadeild.
Þórhildur Halldórsdóttir, nýdoktor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum og Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs.