Skip to main content
18. ágúst 2020

Fjölbreytt tækifæri til starfsþjálfunar

""

Nemendum á þriðja ári við Viðskiptafræðideild býðst frá og með haustinu 2020 einstakt tækifæri til starfsþjálfunar hjá fjölmörgum framsæknum fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum í kjölfar samstarfssamninga sem gerðir hafa verið á undanförum mánuðum. Á annan tug samninga hafa þegar verið gerðir og fleiri eru í burðarliðnum. Stutt námskeið fyrir nemendur vegna mögulegrar starfsþjálfunar hefjast núna í vikunni.

Ásta Dís Óladóttir, dósent við Viðskiptafræðideild, hefur haft forystu um gerð samninganna en hún státar af afar fjölbreyttri reynslu innan og utan háskólasamfélagsins. „Upphaflega byrjaði ég að velta þessu fyrir mér þegar ég hóf aftur störf í Viðskiptafræðideild eftir langa fjarveru. Ég þekki svona starfsþjálfun nokkuð vel, bæði frá því þegar ég kenndi í Copenhagen Business School og eins hef ég verið með nokkra nemendur í þjálfun í þeim fyrirtækjum sem ég hef starfað hjá í gegnum tíðina. Eftir að hafa setið í stjórnum og verið stjórnandi sl. 20 ár hef ég byggt upp ágætis tengslanet og mér þykir afar mikilvægt að nýta það háskólanum til hagsbóta,“ segir hún og bætir við að innan Viðskiptafræðideildar hafi verið  talsverð  áhersla á að fá gesti úr atvinnulífinu í kennslustundir. „Að sjá og heyra hvað nemendum þykir mikilvægt að vera með beina tengingu við atvinnulífið leiddi til þess að við vildum gera enn betur og því fór vinnan við starfsþjálfunina á fullt á þessu ári. Ég var svo heppin að starfa með öflugu fólki í grunnnámsnefnd sem er eins þenkjandi og því keyrðum við þetta í gang. Þá deilir deildarforseti, Gylfi Magnússon, þeirri skoðun með okkur að þetta sé afar mikilvægt fyrir nemendur, deildina og auðvitað háskólann í heild. Ef þetta er vel gert þá hafa allir hag af svona samstarfi og því skiptir miklu máli að halda vel utan um þetta.“

Mikill áhugi á samstarfi

Viðskiptafræðideild undirritaði fyrsta samninginn við Vegagerðina í maí. „Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri og Ruth Elfarsdóttir fjármálastjóri eru afar framsýnar konur sem vilja gjarnan fá ungt og öflugt fólk til liðs við sig. Þetta var fyrsti samningurinn í rúmlega 80 ára sögu Viðskiptafræðideildar þannig að það var afar ánægjulegt að skrifa undir hann. Það hægðist auðvitað á þessu vegna COVID-19 og sumarfría en stjórnendur eru að koma sterkir inn í þetta núna og það sem mér finnst skemmtilegast er hversu áhugasamir og jákvæðir þeir eru gagnvart því að fá nemendur í þjálfun,“ segir Ásta Dís.

Nú þegar hafa verið gerðir tólf samningar til við fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök: CCP, Crowberry Capital, Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA), Framkvæmdasýslu ríkisins, Hagvang, Hvíta húsið, Íslenska sjávarklasann, PricewaterhouseCoopers, Samkeppniseftirlitið, Seðlabanka Íslands og Össur auk Vegagerðarinnar. Fleiri samstarfssamningar eru í farvatninu. „Við erum bara rétt að byrja. Síðar í þessari viku verður vonandi skrifað undir tvo nýja samninga,“ segir Ásta Dís enn fremur.

Fyrirkomulag starfsþjálfunar er hugsað með svipuðum hætti og deildin metur eitt 6 ECTS-eininga námskeið, en á bak við það eru u.þ.b.  150 klst. „Það er svo stjórnenda og nemenda að semja um hvenær og hvernig þessi þjálfun fer fram en henni þarf að vera lokið innan 12 vikna frá því að hún hófst. Nemendur halda dagbók þar sem fram kemur hvaða verkefnum þeir sinna og skrifa svo skýrslu í lokin um hvernig þetta tengist því sem þeir hafa verið að læra. Þeir sem eiga kost á því að fara í starfsþjálfun eru á þriðja og síðasta árinu í náminu og því sé ég fyrir mér að þeir geti sumir nýtt þetta tækifæri og tengt lokaritgerðina sína við það sem þeir eru að læra og gera eða að samstarfið sé svo gott að þeir fari í starf hjá fyrirtækinu að námi loknu. Það er markmið okkar að nemendur myndi tengsl sem nýtast þeim til framtíðar,“ segir Ásta Dís enn fremur.

„Ávinningur fyrirtækja og stofnana er að fá inn ungt fólk sem býr yfir nýjustu þekkingu á sínu sviði. Þeir sem eru í háskólanámi í dag búa t.d. yfir annars konar hæfni en mín kynslóð og þannig hef ég hugsað það sem ávinning fyrir atvinnulífið. Nemendur í dag sjá hlutina með öðrum augum og við lærum alltaf eitthvað nýtt með hverri kynslóð,“ segir Ásta Dís.

Nemendur koma með nýja sýn í starfsþjálfun

Ávinningurinn af samstarfinu er beggja aðila. „Nemendur fá tækifæri til að kynnast starfsemi framsækinna fyrirtækja og stofnana, að læra og beita því sem þeir hafa lært í náminu og kynnast annars konar vinnubrögðum og öðlast nýja reynslu. Þetta er sérstaklega mikilvægt á tímum sem þessum þar sem atvinnuleysi hefur aukist. Ávinningur fyrirtækja og stofnana er að fá inn ungt fólk sem býr yfir nýjustu þekkingu á sínu sviði. Þeir sem eru í háskólanámi í dag búa t.d. yfir annars konar hæfni en mín kynslóð og þannig hef ég hugsað það sem ávinning fyrir atvinnulífið. Nemendur í dag sjá hlutina með öðrum augum og við lærum alltaf eitthvað nýtt með hverri kynslóð,“ segir Ásta Dís.

En hvert eiga nemendur að snúa sér ef þeir vilja komast í starfsþjálfun? „Við ætlum að byrja með tvö námskeið fyrir nemendur sem hafa áhuga. Fyrra námskeiðið verður núna 21. ágúst í gegnum Teams og verður það kynnt á Tengslatorgi Háskóla Íslands og póstur sendur á nemendur. Þar munum við Jónína Kárdal hjá Tengslatorgi fara yfir það hvernig á að setja upp ferilskrá og hvað kynningarbréf vegna starfsumsóknar þarf að innihalda. Það er afar mikilvægt að kunna að skrifa kynningarbréf því það eru stundum einu samskiptin sem nemandinn hefur við forsvarsaðila fyrirtækis og ræður því hvort nemandinn fái viðtal eða ekki. Síðara námskeiðið verður svo 28. ágúst. Nemendur geta svo lesið allt um starfsþjálfunarstöðurnar á Tengslatorginu. Umsóknir eiga svo að berast til mín í gegnum netfangið vidskipti@hi.is.“

Ásta Dís hvetur enn fremur stjórnendur fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka, sem hafa áhuga á samstarfi við Viðskiptafræðideild um samstarfsþjálfun, að hafa samband við Jónínu Kárdal (tengslatorg@hi.is) eða hana sjálfa (vidskipti@hi.is).

Ásta Dís Óladóttir, dósent við Viðskiptafræðideild, við Hús atvinnulífsins