Fjölbreytt námskeið NSHÍ í þágu vellíðanar stúdenta | Háskóli Íslands Skip to main content
11. september 2019

Fjölbreytt námskeið NSHÍ í þágu vellíðanar stúdenta

""

Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands (NSHÍ) stendur fyrir ótal námskeiðum og fyrirlestrum á haustmisseri sem öllum er ætlað að stuðla að góðum námsárangri og vellíðan nemenda í Háskólanum. Ráðgjöfin stendur m.a. fyrir nýju námskeiði þar sem kenndar eru aðferðir til að takast á við álag í námi.

Á fjórða þúsund nýnema hefur hafið nám í Háskóla Íslands á undanförnum vikum og það geta verið mikil viðbrigði fyrir nýja nemendur að tileinka sér rétt vinnubrögð og takast á við álag í háskólanámi. Með námskeiðum sínum vill Náms- og starfsráðgjöf skólans, sem hefur á að skipa einvala liði, koma til móts við bæði nýja og eldri nemendur með öflugum og fjölbreyttum stuðningi í námi.

Ráðgjöfin stendur nú í haust fyrir námstækninámskeiðum þar sem farið er yfir kjarnaatriði um góðar námsvenjur og öfluga námstækni, eins og markmiðssetningu, tímastjórnun, lestur og glósuaðferðir. Nemendur leysa verkefni, prófa nýjar aðferðir og eru hvattir til að nýta sér fjölbreyttar aðferðir til náms. Námstækninámskeiðin verða bæði í boði á sérstökum tímum en einnig í formi vefnámskeiðs.

Þá verður NSHÍ einnig með prófkvíðanámskeið og sjálfstyrkingarnámskeið sem byggjast á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar. Á fyrrnefnda námskeiðinu fá nemendur fræðslu um mótun prófkvíða og læra  aðferðir til að takast á við hann á uppbyggilegan hátt. Sálfræðingar NSHÍ, sem hefur verið fjölgað á síðustu misserum, bjóða svo upp á fimm vikna sjálfstyrkingarnámskeið þar sem nemendur læra aðferðir til að rjúfa vítahring lágs sjálfsmats með því að vinna með óhjálplegar hugsanir (sjálfsgagnrýni) og óhjálplega hegðun (frestun, forðun og fullkomnunaráráttu). 

Þá standa sálfræðingar NSHÍ fyrir nýju námskeiði á haustmisseri þar sem sérstaklega er hugað að vellíðan í námi og hvernig hægt sé að takast á við álag á uppbyggilegan og fyrirbyggjandi hátt. Núvitund (mindfulness) verður kynnt til sögunnar en rannsóknir hafa sýnt fram á að þjálfun í núvitund hefur jákvæð áhrif á almenna líðan og dregur úr streitu, kvíða og depurð.

Fjölmargir eldri nemendur í grunnnámi vinna nú að lokaverkefnum sínum og til þess að styðja þá í því krefjandi verkefni býður NSHÍ enn fremur upp á vinnustofur þar sem farið verður yfir gagnleg atriði og ábendingar um vinnuferlið við skrifin.

Hægt er að kynna sér þjónustu NSHÍ og námskeið sem fram undan eru á vef ráðgjafarinnar.
 

nemendur á Háskólatorgi