Ferðamenn hunsa viðvörunarskilti á áfangastöðum | Háskóli Íslands Skip to main content
13. september 2021

Ferðamenn hunsa viðvörunarskilti á áfangastöðum

Ferðamenn hunsa viðvörunarskilti á áfangastöðum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Stór hluti ferðamanna sem fylgst var með á afmörkuðu tímabili við Sólheimajökul hunsaði viðvörunarskilti sem sett hafði verið upp þar til þess að tryggja öryggi fólks. Þetta sýnir nýleg rannsókn sem vísindamenn við Háskóla Íslands og erlent samstarfsfólk unnu og er hluti af norrænu öndvegissetri um náttúruvá og seiglu samfélaga.

Sagt er frá rannnsókninni á vef NordForsk, stofnunar sem styrkir rannsóknasamstarf vísindamanna á Norðurlöndum. Stofnunin studdi m.a. öndvegissetrið NORDRESS á árunum 2015-2020 en að því kom þverfræðilegur hópur norrænna vísindamanna undir forystu þeirra Guðrúnar Pétursdóttur, fyrrverandi forstöðumanns Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands, og Guðrúnar Gísladóttur, prófessors í landfræði við Háskóla Íslands. 

Áherslan í rannsóknastarfi setursins var á náttúruvá og seiglu samfélaga á Norðurlöndum og sjónum beint að bæði einstaklingum, hópum, stofnunum og innviðum samfélaga. Horft var í ýmsar ógnir, allt frá staðbundnum, eins og ofanflóðum, til víðtækra eins og fárviðris, sjávar- og árflóða og eldgosa sem geta ógnað stórum svæðum.

Hluti af rannsókninni fólst m.a. í því að fylgjast með ferðamönnum á vinsælum áfangastöðum þar sem hættur geta leynst. Þær Guðrún Gísladóttir og samstarfskona hennar, Deanne Bird, dvöldu nokkra daga við Sólheimajökul og fylgdust með því hvort ferðamenn virtu skilti á leið á upp á jökullinn þar sem fólk er varað við því að fara lengra vegna óstöðugleika jökulsins. 

Alls komu um 1.000 manns í misstórum hópum að jöklinum á því tímabilinu sem Guðrún og Deanne dvöldu þar og viðbrögð gestanna við viðvörunarskiltinu voru æði misjöfn. Af þeim hópum sem fylgst var með virtu 153 skiltið að vettugi og héldu áfram ferð sinni inn á hættusvæði, 60 hópar sneru við og 11 hópar klofnuðu þar sem hluti hópsins hélt áfram en hinn hlutinn fór ekki lengra en skiltið. 

Þær Deanne og Guðrún benda á að þessi hegðun sé vel þekkt annars staðar á Norðurlöndum. Vegna loftslagsbreytinga fjölgi ógnum í náttúrunni í norrænu ríkjunum, t.d. af völdum tíðari skógarelda. „Við þurfum að tryggja að við veitum nægilegar upplýsingar með eins mörgum leiðum og mögulegt er þannig að ferðamenn geti tekið upplýsta ákvörðun. Það er oftast hættulaust að fara á jökulinn en þó hætta á slysum. Mikilvægast er að fólk viti af hættunni og geti tekið upplýsta ákvörðun,“ segir Deanne.

Umfjöllun um rannsóknina og öndvegissetrið má finna á vef NordForsk.
 

Guðrún Gísladóttir að störfum við Sólheimajökul.